Útboð opinberra aðila

151. fundur
Föstudaginn 02. apríl 1993, kl. 13:21:13 (6787)

     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir að það ber að þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir að hreyfa þessu máli en auðvitað hefði verið skynsamlegra og betri kostur, ef við ætluðum að hafa einhvern árangur út úr slíkri umræðu sem þessari og umfjöllun, að við hefðum haft til þess betri og ítarlegri tíma því að hér er svo sannarlega gripið á stóru og miklu máli sem við þurfum að fjalla um. Ég trúi ekki öðru en þeir sem búa við þessi verk og starfa í iðnaðinum hljóti að fylgjast mjög grannt með því hvernig við látum okkur þessi mál varða á Alþingi.
    Hv. þm. Árni Johnsen vék áðan að útboðum og taldi að í vissum tilfellum ættum við að mismuna í þessum þáttum. Betra hefði verið að hv. þm. hefði áttað sig á því áður en hann gekk til atkvæðagreiðslu fyrir ekki mörgum dögum í sambandi við . . .  ( Gripið fram í: Misskilningur er þetta . . .  ) Það er enginn misskilningur í því að eftir að við höfum gengið til samstarfs í EES-málunum og samningunum að óheimilt er að mismuna í þessum efnum. (Gripið fram í.) Ekki verður um neinn mismun að ræða, við erum búnir að opna fyrir erlenda aðila til óheftrar samkeppni á öllum sviðum, það er málið. Okkur hefur láðst í gegnum árin að undirbúa og aðlaga íslenskan iðnað að samkeppninni. Það er það sem er að. Ég hef hreyft því hér fyrr að við ættum að endurskoða og endurmeta iðnaðarstefnu í landinu. Því miður hefur það ekki náð fram. Ömurlegt er til þess að vita að sú ríkisstjórn, sem situr nú við völd og er búin að sitja núna rétt um tvö ár, hefur afrekað það á þessum tíma að störfum í íslenskum iðnaði hefur fækkað um hvorki meira né minna en 1.500--2.000 störf. Þetta eru afrekin. Það er líka rétt sem kom fram að við getum gert ýmislegt. Við flytjum inn iðnaðarvörur í dag fyrir hvorki meira né minna en 20 milljarða kr., iðnaðarvörur sem við Íslendingar gætum sjálfir framleitt. Hér er verk að vinna, virðulegi forseti.