Staða sjávarútvegsins

151. fundur
Föstudaginn 02. apríl 1993, kl. 13:49:03 (6792)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 1. þm. Austurl. fyrir að hefja þessa umræðu í dag um málefni sjávarútvegsins svo mjög sem kreppir að í þessari höfuðatvinnugrein þjóðarinnar. Og reyndar er það svo að afkoma sjávarútvegsins hefur bein áhrif á allt annað í þjóðfélaginu, alla möguleika okkar til atvinnustarfsemi á öðrum sviðum til þess að viðhalda og reka opinbera þjónustu og standa almennt undir lífskjörum fólksins í landinu.
    Það er kunnara en frá þurfi að segja eins og fram kom í máli hv. þm. að Þjóðhagsstofnun metur nú að sjávarútvegsfyrirtækin séu að meðaltali rekin með rúmlega 8% halla. Það hafa orðið mjög snögg umskipti í þessu efni á síðustu vikum allt frá því að ríkisstjórnin greip til sérstakra ráðstafana í efnahagsmálum í nóvember. sl. En eins og hv. þm. muna, þá var gengi krónunnar fellt til þess að styrkja stöðu útflutningsgreinanna og felldir niður skattar til þess að tryggja betur stöðu atvinnugreinanna. Aðstöðugjaldið var þá afnumið en það hafði verið margra ára barátta talsmanna atvinnulífsins að ná þeirri kröfu fram.
    Þessar ráðstafanir dugðu ekki til að tryggja að meðaltal fyrirtækja í sjávarútvegi yrði rekið án halla. Síðan hefur sigið á ógæfuhliðina, fyrst og fremst vegna þess að verð á sjávarafurðum hefur farið lækkandi á erlendum mörkuðum.
    Vandinn sem við stöndum frammi fyrir í dag er auðvitað af mörgum rótum runninn eins og fram kom hjá hv. þm. en við getum í því sambandi horft til þess að við höfum þurft að draga mjög verulega úr afla fyrst og fremst að því er þorskveiðar varðar. Þar höfum við þurft að minnka aflaheimildir um 40% og það segir til sín þegar um er að tefla langsamlega mikilvægustu auðsuppsprettu þjóðarinnar. Og á síðstu vikum hefur það svo bæst við að verð hefur fallið á afurðum okkar og sjávarútvegurinn verður af 5 milljarða kr. tekjum og þjóðarbúið af samsvarandi verðmætasköpun.
    Það er ekki vandalaust að taka á viðfangsefni eins og þessu. Menn viðurkenna gjarnan í orði að breytingar á ytri aðstæðum eins og þær sem við stöndum nú frammi fyrir hljóti að koma niður á allri þjóðinni, sé áfall sem öll þjóðin standi frammi fyrir. En það er nú gjarnan þannig að þó að menn viðurkenni þessa staðreynd í orði, þá fer ekki mikið fyrir því að menn vilji horfast í augu við hana á borði, hvort heldur það erum við stjórnmálamennirnir eða forustumenn hagsmunasamtakanna í þjóðfélaginu sem vitaskuld ráða miklu í þessu efni vegna þess að þeir gera í frjálsum samningum út um það sín á milli hver launakjörin eru í landinu á hverjum tíma miðað við þau verðmæti sem við erum að skapa. Ef við ætlum að bæta stöðu atvinnufyrirtækjanna við aðstæður eins og þessar, þá getur það ekki gerst með raunverulegum hætti nema við flytjum til fjármuni, nema þjóðin öll taki á sig það tekjufall sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir, minnki neyslu sína og útgjöld í heild. Það getur með öðrum orðum ekki gerst nema við flytjum fjármuni frá almenningi yfir til atvinnulífsins. Og þá erum við komin að vandanum. Þá erum við komin að því sem er erfitt að framkvæma og erfitt að horfast í augu við. Og þá erum við komin að því sem flestir vilja fara í kringum eins og köttur sem fer í kringum heitan graut. Það er kjarni þessa máls. Þess vegna er það mín skoðun að við aðstæður eins og þær sem við búum við í dag, þar sem þjóðin hefur orðið fyrir jafnmiklu áfalli og raun ber vitni, sé vonlítið um raunverulegan árangur nema okkur takist að ná almennri samstöðu í þjóðfélaginu um ráðstafanir til þess að tryggja hag atvinnufyrirtækjanna.
    Við getum horft á þetta viðfangsefni með mismunandi markmið í huga. Það er ugglaust hægt að fleyta þessu áfram til skamms tíma með því að auka erlendar lántökur, halda óbreyttu kaupmáttarstigi, leggja auknar byrðar á ríkissjóð með nýjum lántökum. En það er skammtímalausn. Hitt er að mínu mati vert meiri umhugsunar, ekki bara út frá hagsmunum atvinnufyrirtækjanna heldur ekki síður út frá langtímahagsmunum launafólksins í landinu hvort við aðstæður eins og við búum við í dag er ekki meiri þörf á því að treysta undirstöðuna og færa þær tímabundnu fórnir sem til þess eru nauðsynlegar þannig að útflutningsatvinnuvegirnir standi ekki frammi fyrir þeim erfiðleikum sem við blasa, geti tekist á við verkefnin, geti hafið nýja sókn í sköpun nýrra tækifæra sem við höfum á erlendum mörkuðum með til að mynda samningunum um Evrópskt efnahagssvæði, með því að takast á við ný verkefni í vöruþróun og markaðsstarfsemi. Án þess að atvinnufyrirtækin hafi til þess aðstöðu er ekki mikil von í því að við uppskerum árangur af breyttum aðstæðum að þessu leyti. Þetta er leiðin til þess að auka hagvöxt og bæta kjör fólksins í landinu en þá þurfa menn að horfast í augu við staðreyndirnar. Það getur kostað tímabundið meiri fórnir en það leiðir alveg örugglega þegar fram í sækir til sterkari atvinnufyrirtækja og hærri launa hjá almenningi í landinu og það hlýtur að vera það keppikefli sem við sækjumst eftir.
    Það er hægt að fara margar leiðir og þó eru þær þekktar og gamalkunnar í flestu efni, hægt að jafna áföllum sem þessum efnum niður á fólkið í landinu með því að breyta verðgildi íslensku krónunnar. Það er hægt að gera það með millifærslum og það er hægt að gera það með því að færa niður laun og allan annan kostnað í þjóðfélaginu. Og við höfum af því nokkra reynslu að glíma við allar þessar leiðir. Mikilvægast er ef við ætlum að ná árangri að við náum samstöðu um það sem gert verður. Og nú hagar svo til að launamenn og atvinnurekendur standa í samningum um það hvernig eigi að skipa kjaramálum um lengri eða skemmri tíma. Samhliða hafa þeir óskað eftir því að ræða forsendur slíkra samninga við ríkisstjórnina. Það er eðlilegt við þessar aðstæður vegna þess að verðmætasköpun þjóðarbúsins hlýtur að ráða því hverju við höfum úr að spila. Forustumenn atvinnufyrirtækja í sjávarútvegi eiga í þessum viðræðum, annars vegar við launafólk og hins vegar við ríkisstjórnina. Það er enginn botn kominn í þær viðræður enn sem komið er. Þar eru menn að fjalla um þetta viðfangsefni út frá þessum sjónarmiðum.
    Ef við göngum til þessa verks með það eitt í huga að koma okkur frá stundarvandanum, með því að auka útgjöld ríkisins með lántökum, þá erum við að vinna gegn því markmiði að skapa útflutningsatvinnuvegunum betri starfsskilyrði og bætt starfsumhverfi vegna þess að auknar lántökur ríkissjóðs hljóta að þrýsta vöxtum upp á við en ekki niður á við. Og að minni hyggju er nú allra mikilvægast í dag að vextirnir lækki. Það er ein höfuðforsendan fyrir því að okkur takist að treysta undirstöður útflutningsframleiðslunnar. Sem betur fer hefur miðað í þá áttina, bæði á erlendum lánamörkuðum og hér heima. Vissulega er það svo að mjög stór hluti af lánum sjávarútvegsins er fenginn að láni erlendis og við ráðum ekki þeim vaxtakjörum sem við búum við að því leytinu til. En auknar lántökur og aukinn hallarekstur ríkissjóðs munu vinna gegn hagsmunum atvinnulífsins að þessu leyti. Ef aukin ríkisumsvif og lækkun skatta á ekki að hafa áhrif af þessu tagi, þá þarf að skera niður útgjöld ríkisins að sama skapi og fækka opinberum starfsmönnum umtalsvert. Ég sé ekki að það verði gert nema með allverulegri fækkun opinberra starfsmanna. Þetta eru þær staðreyndir sem við stöndum frammi fyrir.
    Á þessu stigi málsins ætla ég ekki að kveða upp úr um niðurstöðu í þessu efni vegna þess að viðræður eru nú á mjög viðkvæðu stigi, þríhliða milli atvinnurekenda, launamanna og ríkisstjórnar. En við hljótum öll að binda vonir við að þar fáist farsæl og mjög skynsamleg niðurstaða þar sem við horfum fyrst og fremst til framtíðarmarkmiða um uppbyggingu atvinnulífs og bætt lífskjör fólksins í landinu.
    Hv. 1. þm. Austurl. vék að nokkrum atriðum og beindi sérstökum spurningum til mín af því tilefni. Hann vék fyrst að því að stöðva yrði hallarekstur sjávarútvegsfyrirtækjanna og helsta atriðið í því efni væri að lengja lán eða frysta lán sjávarútvegsfyrirtækjanna. Nú er það svo að til aðgerða af þessu tagi hefur oft verið gripið og frá einum degi til annars eru lánastofnanir að vinna að endurskipulagningu á fjármögnun atvinnufyrirtækjanna í landinu eftir aðstöðu þeirra á hverjum tíma. Við frystum að vísu greiðslur til atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar í tvö ár og beindum tilmælum til annarra lánastofnana að þær reyndu eftir föngum að greiða fyrir fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja í atvinnugreininni og það hafa bæði bankar og lánasjóðir gert.
    Ég er þeirrar skoðunar að þessi mál séu í eðlilegu horfi, að bæði bankar og lánasjóðir séu með eðlilegum hætti að vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu einstakra fyrirtækja í landinu. Ef ætlunin er að gera það með einhverjum öðrum hætti, þá sýnist mér að grípa yrði til þess ráðs að búa til nýjan sjóð sem yfirtæki skuldir sjávarútvegsfyrirtækjanna hjá bönkum og lánasjóðum og ríkið tæki á sig ábyrgð á slíkri endurskipulagningu. Ég tel að það væri mjög óheppilegt að fara út í aðgerðir af því tagi og með því móti værum við að loka augunum fyrir hinum raunverulega vanda sem við stöndum frammi fyrir. Við eigum að halda á þann veg á málum að þetta sé eðlilegt hlutverk og daglegt hlutverk bæði banka og lánastofnana og að því eru þær að vinna.
    Hv. þm. vék svo að tillögum um þróunarsjóðinn og ég fagna því að hann skyldi fyrir sitt leyti líta á þær sem jákvætt skref. Ég er um margt sammála mati hans á því að greiðslur atvinnugreinarinnar inn í sjóð sem miðar að því einvörðungu að bæta rekstrarskilyrði atvinnugreinarinnar teljast ekki vera auðlindaskattur. Hv. þm. taldi á hinn bóginn að þau drög sem liggja fyrir og hafa verið kynnt séu um sumt óljós í þessu efni. Það er rétt að skýra með nokkrum orðum þá meginniðurstöðu sem hér hefur orðið.
    Í fyrsta lagi er á það að líta að þróunarsjóðurinn er þáttur í heildarsamstöðu innan þeirrar nefndar sem á vegum ríkisstjórnarinnar hafði forustu um það að endurskoða fiskveiðilöggjöfina og leggja fram tillögur í því efni. Aðalatriðið þar er að nefndin komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri að byggja áfram í grundvallaratriðum á aflamarkskerfinu sem við höfum verið að þróa og bæta smám saman undanfarin 10

ár. Það tel ég vera mjög markverða niðurstöðu og mikilvægt framlag til allrar þessarar umræðu. Ég tel að þar með sé lagður grundvöllur að þeirri nauðsynlegu festu og um framtíðarstefnuna í þessu efni sem sjávarútvegurinn þarf á að halda. Hvort tveggja er að endurskoðunarákvæði gildandi laga og sá pólitíski ágreiningur sem uppi hefur verið í þessu efni hefur valdið óvissu á undanförnum missirum. Ég tel að með þessari samstöðu sé búið að leggja grunn að þeirri festu sem þörf er á. Ég vænti þess að um grundvallaratriðin í þessu efni náist samstaða hér á Alþingi í þingflokkum ríkisstjórnarinnar og hér á Alþingi.
    Það verður vafalaust svo eins og jafnan áður að um einstök atriði í þessu efni koma fram skiptar skoðanir í öllum stjórnmálaflokkum. En að því er þróunarsjóðinn varðar, þá er þar gert ráð fyrir því að leggja Hagræðingarsjóðinn niður og hætta sölu á aflaheimildum hans. Þeim verður nú úthlutað til atvinnugreinarinnar án endurgjalds. Í staðinn er lagt á sérstakt þróunargjald sem er samsett úr þremur þáttum.
    1. Núverandi gjaldi sem lagt hefur verið á um nokkur ár á rúmlestatölu fiskiskipa og skilað hefur um 80 millj. kr.
    2. Sambærilegu gjaldi sem lagt verður á fasteignamat fiskvinnslufyrirtækja og á að skila sambærilegri upphæð.
    3. Gjaldi á aflaheimildir sem kemur í staðinn fyrir sölu á aflaheimildum Hagræðingarsjóðs og er sambærilegt í verðgildi. En í þrjú ár falla alfarið niður greiðslur sjávarútvegsins og á því tímabili má segja að hér sé um að ræða mjög ótvíræða aðgerð til hagsbóta fyrir atvinnugreinina. Gjaldið er ákveðið eins og segir í frumvarpsdrögunum a.m.k. 1.000 kr. á þorskígildistonn.
    Það á segja að hér sé bæði um hámark og lágmark að ræða. Gjaldið er 1.000 kr. á hverja þorskígildislest, ein kr. á hvert kg. Þetta er reiknað í þorskígildum þannig að á karfa koma 40 aurar og á loðnu 5 aurar. Í frumvarpsdrögunum er svo gert ráð fyrir því að gjaldið, þróunargjaldið þrísamsett, eigi að standa undir öllum skuldbindingum sjóðsins. Ríkisendurskoðun á að fylgjast með því og ef hún kemst að þeirri niðurstöðu að gjaldið standi ekki undir skuldbindingum sjóðsins, þá ber sjútvrh. að leggja fyrir Alþingi tillögur um breytingar á gjaldinu. Gjaldinu verður því ekki breytt nema með lögum, það er 1.000 kr. nema því verði breytt á annan veg með lögum.
    Hlutverk sjóðsins er mjög skýrt afmarkað og einvörðungu um að ræða verkefni til þess að stuðla að bættum rekstri sjávarútvegsfyrirtækja. Það er þess vegna alveg ótvírætt hægt að svara fyrirspurn hv. þm. að þessu leyti að gjaldinu eins og það er ákveðið í frumvarpsdrögunum verður ekki breytt nema með nýjum lögum og sjóðurinn vinnur einvörðungu að verkefnum í þágu atvinnugreinarinnar og fjármununum ekki varið til annarra hluta. Ég vona að þetta eyði allri óvissu í huga hv. þm. um hlutverk sjóðsins, um eðli þessa gjalds og um þá festu sem hér er ákveðin í því efni.
    Það er ágætt að þriggja manna stjórn stýri sjóðnum og taki allar ákvarðanir sem að honum lúta. Sjútvrh. skipar tvo menn og atvinnugreinin einn. Það er enn fremur gert ráð fyrir því að stjórnin verði að leggja fjárhagsáætlanir sínar á hverju ári fyrir ráðherra til staðfestingar. Meginverkefnið verður að úrelda fiskiskip með sambærilegum hætti og gert hefur verið og þar að auki að auðvelda úreldingu á fiskvinnslufyrirtækjum samkvæmt ákveðnum reglum og viðmiðunum sem nánar eru skilgreindar í drögum að lagafrv. Við fjárhagslega endurskipulagningu af því tagi þar sem fyrirtæki eru að draga úr fjárfestingu tekur sjóðurinn þátt í þeirri fjárhagslegu endurskipulagningu með lánastofnunum.
    Sjóðurinn mun einnig geta aðstoðað sjávarútvegsfyrirtæki við að afla sér verkefna á erlendum vettvangi og er það í samræmi við hugmyndir sem menn hafa haft uppi í þeim efnum um nokkurn tíma. Ríkissjóður yfirtekur 950 millj. af skuldbindingum atvinnutryggingardeildar um leið og þær ásamt hlutafjárdeild Byggðastofnunar leggjast inn í hinn nýja þróunarsjóð. Ég held að það sé alveg tvímælalaust að sjóður sem þessi geti stuðlað að því að tryggja betri rekstur margra fyrirtækja sem nú eru með of mikla fjárfestingu miðað við framleiðslumöguleika, fjárfestingu sem ráðist var í við allt aðrar aðstæður en við búum við í dag þegar afli var meiri og verð á sjávarafurðum með öðrum hætti. Vissulega kann það að vera umdeilanlegt og er umdeilanlegt hvort koma eigi á fót slíkum sjóði þar sem greinin í heild er að taka á verkefnum með þessum hætti og hinir betur settu að greiða í sjóð sem fyrst og fremst nýtist hinum sem verr eru settir. Ég tel á hinn bóginn að við aðstæður eins og þessar sé það réttlætanlegt og verjanlegt að grípa til slíkra félagslegra aðgerða ef svo má að orði komast innan atvinnugreinarinnar sjálfrar.
    Hv. þm. innti svo eftir því hvort ég teldi að nefndarálit tvíhöfða nefndarinnar eyddi allri óvissu. Ég tel að það hafi verið lagður alveg öruggur grunnur að því að eyða óvissu. Ég hef trú á því að það sé meirihlutasamstaða um það hér í þinginu að byggja á þeim grundvallaratriðum sem þar koma fram um fiskveiðistjórnun og ég hef líka trú á því að í atvinnugreininni sjálfri sé í grundvallaratriðum samstaða um að halda áfram á þeirri braut. Fyrir því eru svo augljós rök, bæði að því er varðar stjórnun veiðanna til verndunar fiskstofnum og hagkvæmnisjónarmið. Ætlunin er að á næstu vikum fari fram lögum samkvæmt samráð við sjútvn. Alþingis og hagsmunaaðila um þessa niðurstöðu og þegar því samráði er lokið mun ríkisstjórnin og þingflokkar hennar taka endanlega ákvörðun um framlagningu þessara mála á þinginu. Þá ákvörðun er ekki hægt að taka fyrr en að loknu því samráði sem lögboðið er. Ég vænti þess að það þurfi ekki mikið meiri tíma en þrjár vikur til þess að fara í gegnum hlutina á þeim vettvangi og auðvitað væri æskilegast að geta lokið umfjöllun um þessi viðfangsefni hér á vorþinginu eins og margir hv. þm. og þar á meðal þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa mjög óskað eftir í umræðum hér að undanförnu.
    Þá kom hv. þm. að ýmsum atriðum eins og lækkun vaxta. Ég er honum sammála í því efni að þeir

þurfa að lækka verulega. Ég hef af því nokkrar áhyggjur þó að við höfum náð árangri að undanförnu í þessu efni að enn hilli ekki undir nægjanlega mikla lækkun á vöxtum til þess að breyta í grundvallaratriðum rekstrarafkomu fyrirtækjanna og minni enn á í því efni hversu stór hluti skuldanna er við erlenda lánardrottna þar sem við ráðum ekki vaxtastigi en þar hafa vextir einnig verið að lækka og væri eðlilegt að til að mynda í Fiskveiðasjóði að fulltrúar atvinnugreinarinnar sem þar sitja fylgdu því fast eftir að vextir Fiskveiðasjóðs lækkuðu í samræmi við lækkun vaxta á erlendum lánum sjóðsins. Ég hef ekki orðið var við að þeir gerðu það enn, en væri fullkomin ástæða til þess að það væri gert við þessar aðstæður.
    Ég hef áður lýst því að ég teldi eðlilegt að stuðla að lækkun orkukostnaðar í sjávarútveginum. Það er að vísu svo að það skiptir ekki sköpum um rekstrarafkomuna en mundi alveg ótvírætt hjálpa til í þessu efni, en eins og hv. þm. vita hefur það um margt reynst erfitt og hefur þó verið um það rætt árum saman.
    Ég held, frú forseti, að ég hafi vikið hér að flestum þeim atriðum og spurningum sem hv. þm. kom fram með og segi þessu máli mínu þá lokið að sinni.