Staða sjávarútvegsins

151. fundur
Föstudaginn 02. apríl 1993, kl. 14:20:06 (6794)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla að vona að þessi umræða verði ekki til þess í aðra röndina að reynt verði að loka augunum fyrir vanda líðandi stundar með því að leggja fram einhverjar framtíðaráætlanir sem bæði er óljóst hvernig muni reynast og hvort sátt er um en þar á ég við niðurstöðu tvíhöfða nefndarinnar sem kynnt var í dag. Vissulega er það ákveðið innlegg í umræðuna en engu að síður er nauðsynlegt að líta einnig á það sem er að gerast hér og nú og í þessari niðurstöðu er ekki að finna möguleika til þess að taka á öllu því. Ég ætla ekki að fara að giska neitt á tímasetningar hér, en ætla bara að taka þetta fram því ég sé að það stefnir í það annars.
    Virðulegi forseti. Ég ætla að snúa mér að þeim vanda sem blasir við nú og byrja á því að lýsa því yfir að ég tel að ríkisstjórnin beri fulla ábyrgð á því að ekki hefur tekist að ná tökum á þeim vanda sem blasir við í sjávarútvegi og fiskvinnslu. Ríkisstjórnin var stofnuð á grunni þeirra hugmyndafræði að lögmál markaðarins geti alltaf kippt öllu í lag í samfélaginu. Og það sem verra er, stjórnin hefur gert ýmsar villur og haft með sér í farteskinu, m.a. þá villu að þekkja ekki markaðinn og vera þar af leiðandi fullkomlega ófær um að taka skynsamlegar ákvarðanir, jafnvel á þeim forsendum sem hún sjálf gefur sér. Ég held að þetta sé hvergi eins augljóst og í sjávarútvegi. Það er eins og það hafi enn ekki runnið upp fyrir ráðamönnum þessarar þjóðar að við eigum allt okkar undir sjávarútveginum. 80% vöruútflutnings okkar eru fiskafurðir. Skuldirnar í þessari atvinnugrein eru nú um 105 milljarðar samkvæmt nýjustu tölum en tekjurnar 70 milljarðar og hallinn er reiknaður á 8,3%.
    Til upplýsingar hæstv. ríkisstjórn sem hefur kosið að vera fjarstödd, og það út af fyrir sig er athyglisvert að öðru leyti en því að hæstv. sjútvrh. er hér vissulega, gilda þau lögmál sem ríkisstjórnin hefur unnið eftir auðvitað ekki, heldur lögmál sem ekki voru hönnuð á borði frjálshyggjunnar og þau eru flókið samspil fortíðar, nútíðar og framtíðar, þ.e. þeirrar framtíðar sem menn trúa að verði, væntinganna margfrægu. Fortíðin er alls ekki óskrifað blað eins og mér finnst stundum að ríkisstjórnin gefi sér. Við erum ekki með nein óskrifuð blöð og til að þekkja markaðinn verðum við að þekkja fortíðina og það vel. Við verðum að viðurkenna staðreyndir, hvort sem við erum ánægð með þær staðreyndir eða ekki. Við verðum t.d. að gera okkur grein fyrir hvað sjóðir hafa átt mikinn þátt í því hvernig staðan er núna, hvort sem við erum sátt við þá eða ekki, og við verðum líka að muna það að ekki eru allir sjóðir eins. Það kom sér vel í fyrra að eiga varasjóð sem Verðjöfnunarsjóður var og þá var ríkisstjórnin tilbúin að ganga í sjóði þótt hún hallmæli þeim að því er virðist gagnrýnislaust og hugsunarlaust nema kannski þessum nýlega formaða þróunarsjóði sem mér sýnist að eigi að vera einn af góðu sjóðunum, kannski sá eini.
    Við vitum í rauninni ekki hvernig sá sjóður mun líta út. Það hefur verið reynt að fá svör við nokkrum óljósum þáttum þar og það er alveg áreiðanlegt að hann gerir ekki nema það sem honum er ætlað, þ.e. að koma til móts við eigenda útgerðar og fiskvinnslu þar sem þarf að draga saman og hagræða og það er vissulega góðra gjalda vert. En ef við erum að tala um tilfærslur, og mér heyrist að hæstv. ráðherra sé byrjaður að gera það, þá er þetta auðvitað ekki leiðin.
    Það er nauðsynlegt að horfast í augu við fortíðina en ekki bara nota hana sem afsökun fyrir aðgerðaleysi nútíðarinnar. Og á slíkum forsendum verður auðvitað engin skynsemi í aðgerðum. Það sem er mikilvægast að þekkja í nútíðinni er að að hafa glögga sýn á ástandið eins og það er, hvorki að mála skrattann á vegginn né það sem mikilvægara er að neita að horfast í augu við staðreyndir. Það skortir mikið á að ríkisstjórnin hafi veruleikaskyn.
    Hæstv. forsrh. Davíð Oddsson hefur hvað eftir annað komið í ræðustól á Alþingi og sagt að þrátt fyrir allt væri nú allt í lagi og túlkað þau sjónarmið að markaðurinn muni kippa öllu í lag. Þetta hefur einkum gerst þegar aðvörunarraddir hafa heyrst úr hópi stjórnarandstæðinga um sjávarútvegsmál og jafnvel þegar stjórnarsinnar, t.d. hæstv. sjútvrh., hafa tekið undir þetta. Ég verð að segja það að þó það komi ekki oft fyrir, þá sakna ég hæstv. forsrh. hér í dag. En kannski dugar það að hæstv. sjútvrh. er farinn að apa eftir honum að allt sé á réttri leið.
    Sú var tíðin að hæstv. sjútvrh. talaði máli þeirra atvinnuvega sem stóðu höllum fæti og knúði á um að fá svör frá hæstv. ríkisstjórn eins og hann væri ekki í henni. Ég ætla ekki að fara að eyða orðum í það. Það er út af fyrir sig undarlegt. En hann er greinilega kominn í bestu vina klúbbinn og farinn að syngja sama sönginn og hæstv. forsrh.
    Þessi boðskapur hæstv. forsrh. er ekki bara asnalegur heldur er hann hreinlega hættulegur að mínu mati. Þetta heitir á mæltu máli að fljóta sofandi að feigðarósi. Lengi vel var hæstv. utanrrh., sem ég sé að er hér mættur til starfa, virkur meðlimur í þessum kór og söng þá tilbrigði við stefið ,,þetta reddast`` með því að segja: Þetta reddast þegar við komum inn í EES. En mér sýnist að hann verði að fara að búa sig undir annan söng núna því að hann er farinn að boða tafir á EES-allsherjarlausninni.
    En af hverju reddast þetta ekki? Fyrir því eru auðvitað fleiri en ein ástæða. Þær ytri aðstæður sem hæstv. sjútvrh. greindi frá fyrr í dag og einnig málshefjandi eru vissulega hluti af vandanum en þær eru ekki út af fyrir sig vandinn heldur það hvernig tekið hefur verið á málum. Við vitum öll af þessari aflaskerðingu sem ekki hillir undir að verði bætt á næsta fiskveiðiári, hvorki með auknum þorskkvóta né í öðrum tegundum nema þá að litlu leyti.
    Fiskverð hefur verið á niðurleið. Skuldir sjávarútvegsins eru gífurlegar. Innflutningsmál í Evrópu eru í nokkurri óvissu hvort sem við verðum innan eða utan EES og við höfum farið sérlega illa að ráði okkar varðandi Ameríkumarkaðinn og glutrað niður mikilvægum viðskiptum fyrir stundargróða annars staðar meðan dollarinn var í lægð. Það kemur okkur í koll núna.
    Það er hins vegar athyglisvert að það kom fram í síðasta mánuði við einn af forsvarsmönnum útflutnings til Bandaríkjanna að það á segja það að vöruverð hafi farið það mikið hækkandi í Bandaríkjunum að það vegi hátt í það sem við höfum tapað í sölu að magni talið. Og það er út af fyrir sig ánægjulegt. En ég vil nú bara segja það að ef við hefðum ekki sofnað á verðinum og látið það gerast að glata okkar hlutdeild, alla vega að einhverju leyti í Bandaríkjamarkaði, þá værum við kannski núna á miklu betri braut.
    Þessar erfiðu ytri aðstæður hefðum við þurft að takast á við strax því að það er ekkert óhjákvæmilegt að það þurfi að blasa við neitt svartnætti þó að það komi niðursveifla svo framarlega sem skynsamlega er á málum tekið. Þess í stað hafa stjórnvöld neitað að horfast í augu við vandann og það er auðvitað eitt af því allra versta sem við stöndum nú frammi fyrir eins og ég gat um áðan. Og það sem verra er, það er ekki bara aðgerðaleysið, heldur einnig að þá sjaldan ríkisstjórnin tekur til höndunum, þá er það til að íþyngja og við höfum fyrir okkur dæmin um verulega íþyngjandi aðgerðir fyrir atvinnuvegina sem að vísu er verið að reyna núna með ýmsum aðgerðum að lappa upp á. Það voru mikil og stór fyrirheit um að það ætti að bæta upp aflaskerðinguna sem var vegna minni kvóta í sumar. Það var að vísu boðið upp á fáránlegar lausnir, en efndirnar hafa engar verið, hvorki skynsamlegar aðgerðir né ávísanasendingar til útgerðarmanna sem allir hlógu að.
    Allar skynsamlegar hugmyndir um Hagræðingarsjóð hafa verið hunsaðar nema upp úr þróunarsjóði fari að spretta einhvers konar endurreisn þeirra hugmynda sem þar voru í gangi. Hver veit? Það er allt að mínu mati enn þá óvisst hvernig þau mál fara að ganga til.
    Til að auka á vandann hefur ríkisstjórnin þegar skárst lætur verið vakkandi. Þegar verr gerist stórkostlega skaðleg fyrir sjávarútveginn og þar með alla þjóðina og ekki síst konurnar í fiskvinnslunni sem nú ganga atvinnulausar víða um land.
    Hæstv. sjútvrh. sagði að nú þyrfti að færa til, nú þyrfti að koma til tilfærsla fjármagns í samfélaginu. Þetta hefur einhvern tíma verið kallað sjóðakerfi t.d. og ég verð þá bara að lýsa ábyrgð á hans hendur alla vega með þá stefnu. Ég sé að það er alveg óhjákvæmilegt að tilfærslur eigi sér stað en það er ýmislegt fleira sem þarf að gera. En hann talaði líka um það að þjóðin yrði að taka á sig auknar byrðar. Það eru ekkert allir sem tilheyra þessari þjóð sem geta það. Ég vil bara benda á það. Og ef hann er að tala um þjóðina sem almenning, venjulegan launþega eða venjulegan atvinnuleysingja, þá sé ég ekki að þeir séu aflögufærir. En ég er sammála því að það eru einhverjir sem geta tekið á sig byrðar og þeir verða þá líka að gera það. Og við höfum margoft bent á það að væri alls ekki leitað að fé þar sem það er fyrir, t.d. í bara einföldum hlutum eins og lúxussköttum, hátekjusköttum og fjármagnssköttum.
    Það er líka alveg nauðsynlegt að það sé einhver hugsun í því þegar verið er að létta álögum af atvinnuvegunum. Þeir standa sem betur fer ekki allir jafnilla og ekki öll fyrirtæki innan atvinnugreinar standa jafnilla. Ég held að það sé hvorki hægt að ganga þá leið að vera sífellt að hlaupa undir bagga með þeim sem lakast standa sig eða vera sífellt í nafni almennra aðgerða að styrkja alla þegar alveg er nóg að styrkja suma, þá sem standa höllum fæti, stundum bara tímabundið, stundum vegna ákveðinna ytri aðstæðna. Og þetta er það sem skiptir í rauninni máli.
    Ég bendi sérstaklega á að það hefur verið létt nokkrum álögum af atvinnuvegum svo sem með því að fella niður aðstöðugjald eða þeim hugmyndum sem þar eru. Það hefur verið fellt niður í reynd og einnig má nefna lækkun tekjuskatts. Þetta er gert auðvitað vegna samræmingar við Evrópska efnahagssvæðið. En

sum fyrirtæki þurfa meira á þessu að halda en önnur og það má segja varðandi aðstöðugjaldið að þar nýtur útgerðin og fiskvinnslan ekki góðs af í sama mæli og mörg önnur fyrirtæki einfaldlega vegna þess hvernig þær reglur líta út.
    Það hefur verið nefnd hér kórvilla ríkisstjórnarinnar, sú hin fyrsta og ekki minnsta, að keyra vextina upp úr öllu valdi þegar í upphafi ferils síns. Við súpum þegar seyðið af því, bæði einstaklingar, fjölskyldur og fyrirtæki. Núna fyrst nærri tveimur árum síðar hefur það runnið upp fyrir ríkisstjórninni að þetta gengur ekki. Þetta höfum við stjórnarandstæðingar og forsvarsmenn fyrirtækjanna í landinu, ekki síst aðilar í sjávarútvegi bent á margoft. Vaxtalækkun nú bætir ekki þann skaða sem þegar er orðinn og þetta háa vaxtastig hefur reynst þjóðarbúinu afskaplega dýrt nú þegar. En kannski verður eitthvað léttari róður í framtíðinni, þ.e. ef hægt verður að bjarga því sem þarf að bjarga. Glundroðakennd efnahagsstefna hefur einnig aukið á vandann.
    Virðulegi forseti. Ég sé að það er ljós hér, tímamæling, sem ég hafði ekki áttað mig á að gilti í þessari umræðu og þar sem rautt ljós logar hjá mér, þá verð ég að ljúka ræðu minni. Það er ýmislegt fleira sem ástæða er til nefna en ég veit að það eru fleiri kvennalistakonur sem ætla að tala og við munum án efa hafa tækifæri til að koma því á framfæri sem í viðbót átti að vera.