Staða sjávarútvegsins

151. fundur
Föstudaginn 02. apríl 1993, kl. 15:09:11 (6797)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það var vissulega tímabært að ræða hér um sjávarútvegsmál og þá stöðu sem sjávarútvegurinn stendur í. Hann stendur undir öllum útflutningstekjum eða meiri hluta af útflutningstekjum þjóðarinnar. Það hefur verið vitað frá því í haust þegar samdráttur í afla var tilkynntur að það gæti ekki orðið um annað að ræða en eitthvað yrði að taka til ráða til bjargar sjávarútveginum. Það er upplýst nú að hann sé rekinn með 8,3% tapi til jafnaðar, jafnvel 10%. Þó er það ekki alls staðar. Það er nokkuð misjafnt á milli greina og það hefur sýnt sig að sú fullvinnsla sem farið hefur verið út í hefur skilað meiri

hagnaði en ferskfiskurinn skilar sem seldur er, enda er svo mikið framboð af honum víða erlendis að verð á honum fellur.
    En við erum að ræða um stöðuna í dag. Við erum ekki að ræða um hvernig við ætlum að hafa það til framtíðar. En ríkisstjórnin hefur eins og ég sagði áðan vitað að hverju stefndi frá því í haust því að í ágúst var kvótinn skertur mjög mikið fyrir hvert einasta útgerðarfyrirtæki í landinu. Þá upplýsti hæstv. forsrh. að engin útgerðarfyrirtæki þyrftu að taka á sig meira en sem svaraði 5% skerðingu. Við það hefur ekki verið staðið. Síðast í gær var spurt um það hvað liði þeirri ákvörðun forsrh. að bæta skerðingu í þorskafla þannig að ekkert fyrirtæki þyrfti að taka á sig meiri en 5% skerðingu. Það kom heldur ekki fram í dag þegar verið var að kynna hinn nýja þróunarsjóð og hefur ekkert verið framkvæmt af þessum loforðum. Það komu ný loforð í nóvember, loforð um atvinnustefnu og loforð um þróunarsjóð sem er fyrst í dag, 2. apríl, að líta dagsins ljós.
    Hver er eiginlega efnahagsstefna þessarar ríkisstjórnar? Hún hlýtur að byggjast á þeirri stefnu sem hún hefur í sjávarútveginum. Hún er búin að vera með nefnd í gangi frá því að hún tók við völdum, nefnd sem stjórnarandstaðan átti engan þátt í og fékk ekki aðgang að, hin svokallaða tvíhöfða nefnd. Það hafa verið kynnt drög meðal fjölmiðla að ýmsum tillögum sem hún leggur til, en hún hefur ekki komið fram með tillögurnar fyrr en í dag. Þær eru líka dagsettar í dag, 2. apríl. Ég býst við að þær ásamt frv. um þróunarsjóð muni koma til umræðu síðar þannig að ég ætla ekki að eyða miklum tíma í að ræða það hér nú.
    En hver verður framvindan í sjávarútvegsmálunum hér á landi? Verður áfram fylgt gjaldþrotastefnu? Það virðist vera stefna ríkisstjórnarinnar, að henni komi það ekkert við þó fyrirtækin haldi áfram að fara á hausinn, enda hefur gjaldþrotum fjölgað og það verður örugglega áfram. Hvað sagði ekki Einar Oddur í DV í gær? Skuldir sjávarútvegsins eru 105 milljarðar kr. og tekjurnar eru hvað, 70 milljarðar. Hvernig á nokkurt fyrirtæki að geta staðið undir slíku?
    Og þegar aðalatvinnuvegur þjóðarinnar er rekinn með slíku tapi, þá hlýtur það á endanum að koma niður á öllu þjóðarbúinu og það kemur niður á hinum almenna launamanni. Hvað var ekki í fréttum í gær? Mikil aukning vanskila hjá byggingarsjóðunum. Mikil aukning hefur verið og er það ekki þar sem þetta allt saman endar, hjá fólkinu sjálfu með atvinnuleysinu og þar með greiðsluerfiðleikum? Eiga kannski allir að fara á atvinnuleysisbætur? Ég held það gangi ekki upp til lengdar.
    Það hefur talsvert verið gert í því að reyna að hræða fólk með dæminu frá Færeyjum. Færeyingar standa í því að lækka það hlutfall atvinnuleysisbóta af launum sem þeir ætla að greiða og samt stefnir í gjaldþrot atvinnuleysistryggingasjóðs hjá þeim. Fólk getur kannski dregið fram lífið við kröpp kjör enn þá, en það stendur ekki undir þeirri greiðslubyrði sem það hefur tekið á sig og var miðuð við fulla atvinnu. Mér virðist að ríkisstjórnin bara sitji í einhverju tómarúmi og láti sem henni komi ekkert við þetta vandamál atvinnuveganna.
    Þegar upp kom það vandamál sem við þekkjum hér og rætt hefur verið um í sambandi við Bolungarvík, þá var viðtal við hæstv. forsrh. þar sem hann var spurður um vanda Bolvíkinga. Hann svaraði hér í Morgunblaðinu 18. febr., með leyfi forseta:
    ,,Vegna þess að fyrirtækið EG er stórt á mælikvarða bæjarins, þá verður áfallið stórt. Þetta lítur þannig út hér úr mínum gamla hreppi Reykjavík, þá væru 15 þús. manns að verða atvinnulausir í einu og mér hefði nú brugðið við sem borgarstjóra,`` segir fyrrv. borgarstjóri í Reykjavík. Og hann segir einnig: ,,Við vitum að kannski eru fleiri vandamál í uppsiglingu á þessu svæði og þess vegna er nauðsynlegt að nota tækifærið og tómið núna til þess að kanna alla þessa þætti mjög nákvæmlega.``
    Þess vegna virðist mér að hæstv. forsrh. lifi í einhverju tómarúmi. Það er hægt að skipa nefndir og það er hægt að kanna málin, en það er ekkert gert.
    Hæstv. sjútvrh. svaraði þeim frummælanda sem hóf máls á vanda sjávarútvegsins og lagði mikla áherslu á samstöðu nú, samvinnu allra til að leysa þennan mikla vanda. Það er vissulega mikill vandi, það hafa allir fallist á það. Og það hafa allir talað um það í allan vetur og miklu lengur hversu vandinn væri stór. En hvaða leiðir hefur ríkisstjórnin farið í því að leita samstöðu? Hefur hún leitað eftir samstöðu á Alþingi um málið? Það er skipuð hver nefndin af annarri þar sem stjórnarandstaðan á engan fulltrúa.
    Eins og ég sagði áðan, þá er ég nýkomin með í hendur drög að skýrslu nefndar um mótun sjávarútvegsstefnu sem er dagsett í dag. Þar er lagt til óbreytt ástand, óbreytt kvótakerfi, en kverkatökin á þeirri útgerð sem hefur skilað mestum þjóðhagslegum hagnaði eru hert og þar á ég við krókaleyfisbáta og línubáta. Nú á að setja kvóta á þá og afnema tvöföldun línuveiðanna. Stjórnarandstaðan hefur ekki verið með í þessari vinnu og hún á ekkert í þessum tillögum. Þeim er skellt fram án samráðs við stjórnarandstöðuna. En nú á allt í einu að óska eftir samstöðu allra þingmanna um lausnir fyrir sjávarútveginn.
    Sjávarútvegurinn er okkar aðalatvinnuvegur og útflutningstekjur hans eru 80% af ýmsum vöruflokkum sjávarútvegsins. Þeir standa nú frammi fyrir alvarlegum áföllum og þar með stendur þjóðarbúið frammi fyrir því en ríkisstjórnin er búin að sofa á þessum vanda frá því sl. haust a.m.k. og þegar í algert óefni er komið, þá er farið að ræða um samstöðu. Stjórnarandstaðan bauð samstöðu í haust og það var efnt til viðræðna með hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. Þeim var haldið við í orði kveðnu í tvær vikur og þá komu allt í einu tillögur ríkisstjórnarinnar um lausn á efnahagsvandanum og atvinnuvandanum. En það hefur lítið verið gert í þeim tillögum. Þær tillögur voru um að styrkja stöðu íslensks atvinnulífs og sporna gegn auknu atvinnuleysi. Og eitt af því var að skapa útflutningsgreinunum öruggari framtíðarskilyrði. Síðan var

einnig í tengslum við afgreiðslu fjárlagafrv. ákveðið að verja auknu fé til rannsókna- og þróunarstarfsemi og markaðsmála. Hverjar skyldu nú vera efndirnar á því? Jú, það átti að selja eignir fyrir 1,5 milljarða kr. og leggja 20% af því til aukinnar rannsókna- og þróunarstarfsemi. Það var upplýst hér af hálfu hæstv. fjmrh. fyrir tveimur dögum held ég að það mundu líklega ekki seljast eignir nema fyrir í mesta lagi 500 millj. kr. í staðinn fyrir 1,5 milljarða þannig að það eru þá ekki nema 20% af þessum 500 millj. sem fara til aukinnar rannsókna- og þróunarstarfsemi og markaðsmála. Þannig eru nú efndirnar á því. En sú samstaða sem hæstv. ráðherra er nú að óska eftir verður að byggjast á því að stjórnarandstaðan sé með í tillögugerð og tillit sé tekið til sjónarmiða hennar frá upphafi. Við vöruðum við því strax í upphafi ferils þessarar ríkisstjórnar að hún þyrfti að huga að atvinnumálum. Það hefur margoft komið fram. Nú er hún að því er virðist að vakna við vondan draum og úrræðin eru engin. Það voru engin úrræði hér áðan í ræðu hæstv. sjútvrh. Úr því að vinnubrögðin hafa verið með þessum hætti sem ég hef verið að lýsa, þá tel ég að nú sé það hæstv. ríkisstjórnar að leysa vandann. Annars er hún ekki starfi sínu vaxin og ætti að fara frá. Hún hefur komið sjálfri sér og atvinnuvegum þjóðarinnar í þennan vanda með kvótakerfi, með aðgerðaleysi og með samstöðuleysi.