Staða sjávarútvegsins

151. fundur
Föstudaginn 02. apríl 1993, kl. 15:22:44 (6798)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Fyrir nokkru hitti ég framkvæmdastjóra eins af stærstu, best reknu og myndarlegustu sjávarútvegsfyrirtækjunum hér á landi og við ræddum um framtíðarhorfur sjávarútvegsins sem öllum er auðvitað ljóst að eru afar dökkar um þessar mundir. Tal okkar kom að því að ég vakti á því athygli að þrátt fyrir þessa þröngu stöðu væru að gerast ótrúlega merkilegir hlutir víða í íslenskum sjávarútvegi og forustumenn sjávarútvegsfyrirtækjanna væru farnir að horfa til ólíklegustu átta í því skyni að efla hag greinarinnar og styrkja stöðu sjávarútvegsins með margvíslegu nýju átaki og margvíslegum nýjungum sem menn gætu verið undrandi á í sjálfu sér að menn væru að hugsa um yfir höfuð við þessar erfiðu kringumstæður. Um þetta vorum við sammála en þar kom að að þessi framkvæmdastjóri þessa vel rekna, myndarlega, öfluga og góða sjávarútvegsfyrirtækis sagði við mig eitthvað á þá leið að í sjálfu sér væri þetta allt saman ánægjulegt ef staðan væri ekki sú í íslenskum sjávarútvegi í dag að þeir menn sem ættu fyrst og fremst að vera að hugsa um þá hluti að sjá hvaða möguleikar gætu verið í íslenskum sjávarútvegi til þess að takast á við nýjungar væru alla daga að hugsa um það hvernig þeir ættu að framlengja næsta víxli og borga út á næsta föstudegi. Þetta væri raunveruleikinn sem við væri að glíma í sjávarútveginum. Þetta væri auðvitað til þess fallið að draga úr möguleikum manna, kjarki manna og þori til þess að takast á við ýmis ný verkefni sem vissulega blasa við og þörf er á að íslenskur sjávarútvegur takist á við.
    Sá vandi sem við stöndum núna frammi fyrir í sjávarútveginum er að mínu mati þrenns konar. Það er í fyrsta lagi, og kannski er það alvarlegasta, gamli vandinn sem hefur hlaðist upp árum saman, safnast upp í formi aukinnar skuldsetningar sjávarútvegsins og sem best kom fram í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands á síðasta ári og hæstv. sjútvrh. greindi frá á sínum tíma á Alþingi. Það er óhætt að segja að frásögn hæstv. sjútvrh. af skýrslu Hagfræðistofnunarinnar hafi á vissan hátt hrist upp þessa umræðu og vakið athygli á því hversu þessi vandi sem við er að glíma er gamall og djúpstæður. Því fer auðvitað víðs fjarri að menn geti afgreitt málið sem svo að það hafi verið búið að koma öllum hlutum í samt lag fyrir tveimur eða þremur árum eða svo þegar aðstæður voru allt aðrar heldur en þær eru í dag, bæði vegna þess að þá var aflinn miklu meiri, verðlag á mörkuðunum mun hærra og síðast en ekki síst, á þeim tíma voru menn í ákveðnu skjóli, í skjóli þeirrar skuldbreytingar sem menn höfðu gengið í gegnum nokkrum árum áður og ég hef margoft lýst yfir að hafi verið skynsamleg og þarfleg og þess vegna held ég að það sé mjög varhugavert að menn líti svoleiðis á að vandinn hafi verið orðinn leystur í eitt skipti fyrir öll ef menn hefðu bara haldið þeim kúrsi á árinu 1990 eða 1991. Þannig var þetta ekki og skýrsla Hagfræðistofnunar sem hæstv. sjútvrh. greindi okkur frá í fyrrai sýndi okkur að hinn djúpstæði vandi íslensks sjávarútvegs var til staðar og hafði ekki verið leystur.
    Í annan stað stafa okkar miklu hremmingar í sjávarútveginum núna auðvitað af því að við erum að draga úr sjó svo miklu minni afla, svo miklu minna aflaverðmæti af þeim sökum. Og það er ekki bara þetta heldur líka hitt að kostnaðurinn við það að ná hverju fiskkílói í dag er auðvitað miklu meiri heldur en hann var fyrir aðeins tveimur árum síðan og ég tala nú ekki um lengra þegar aflabrögðin voru enn þá betri. Við skulum ekki gleyma því að fyrir tveimur árum eða þremur var framlegð sjávárútvegsfyrirtækjanna ekki síst fólgin í því að þau voru að sækja sína framlegð, sína möguleika til þess að borga niður vexti og afborganir af lánunum, í stórum stíl inn í útgerðarþátt síns reksturs eins og menn vita. Nú hefur þetta allt saman breyst. Útgerðarþátturinn sem áður varð að skapa mönnum framlegð, áður varð að standa undir skuldunum er orðinn jafnvel baggi. Ég held að allir séu sammála um það sem núna stunda sjávarútveg í hefðbundnum greinum, þ.e. með hefðbundnum skipum sem eru að leggja upp afla í fiskvinnslustöðvum, að þetta hefur gersamlega snúist við og framlegðartapið sem hefur orðið í útgerðinni vegna þess að það er dýrara að sækja afla í sjó, vegna þess að aflinn er minni, þetta hefur auðvitað sett stærsta strikið í reikninginn. Við þetta bætist síðan hitt sem er auðvitað sérstakt áhyggjuefni okkar vegna þess að á þann þátt málsins getum við engin áhrif haft, það eru auðvitað þessi nýju tíðindi af lækkandi fiskverði erlendis. Lækkandi fiskverð erlendis er talið þýða það á ársgrundvelli að tekjutapið í íslenskum sjávarútvegi verði eitthvað nálægt 5 milljörðum, 5 þús. millj. kr. Og við skulum aðeins reyna að átta okkur á því og setja það

í samhengi við eitthvað sem við erum að ræða um.
    Menn hafa sagt sem svo: Lausnin á vanda sjávarútvegsins felst í því að lækka vexti. Punktur. Það er auðvitað rétt að það væri mjög til hagsbóta fyrir íslenskan sjávarútveg að vextir lækkuðu. En við skulum ekki ímynda okkur að það eitt og sér, sú aðgerð ein og sér mundi leysa vanda sjávarútvegsins. Ég sagði áðan: Tekjutapið í sjávarútveginum vegna lækkandi afurðaverðs er upp á 5 milljarða kr. Það hefur verið greint frá því að skuldir íslenska sjávarútvegsins í innlendri mynt eru um það bil 30 milljarðar kr. ( StG: Við ráðum vöxtunum en ekki verðlaginu.) Nú kem ég að því, hv. þm. Stefán Guðmundsson.
    Ýtrustu óskir fiskvinnslunnar hafa lotið að því að hægt væri að lækka raunvexti á innlendum lánum um allt að 3%. Það þýðir að afkoma sjávarútvegsins batnaði um 900 millj., kannski hið besta 1.000 millj. sem út af fyrir sig er auðvitað gífurlegur árangur og ég trúi ekki öðru en menn séu almennt sammála um nauðsyn þessa. En það breytir ekki því að á móti 5 milljarða tekjutapi vegna lækkandi afurðaverðs hrekkur því miður vaxtalækkun allt of skammt.
    Menn hafa rifjað upp sem er líka rétt að raunvextir á lánum erlendis hafa verið að lækka og hafa lækkað sennilega um 1%. Ef við aftur skoðum skuldastöðu sjávarútvegsins, þá er mjög líklegt að erlendar heildarskuldir sjávarútvegsins séu eitthvað nálægt 60--65 milljarðar. 1% vaxtalækkun er þess vegna um það bil 600 millj. kr. útgjaldaminnkun fyrir sjávarútveginn ef hún skilar sér að fullu hingað innan lands. Ég tek undir það með hæstv. sjútvrh. að það vekur auðvitað með mönnum mikla undrun að ekki skuli hafa tekist að skila þessu að fullu inn í lán Fiskveiðasjóðs sem eru tekin erlendis. En þegar við leggjum þetta saman, þá sjáum við það að jafnvel þó okkur tækist það eins og rétt er hjá hv. 4. þm. Norðurl. v., að við höfum þó einhverja möguleika á því að hafa áhrif til lækkunar á vöxtum hér innan lands, ef allt þetta skilar sér, þá erum við samt sem áður ekki að tala um nema 1,5 milljarða á móti þeim 5 milljörðum sem við eru bara búin að tapa út vegna lækkandi afurðaverðs og þá eigum við eftir að taka tillit til verri afkomu vegna þess að aflinn sem við núna drögum úr sjó er svo miklu, miklu minni heldur en áður.
    Ég get líka tekið undir það með hæstv. sjútvrh. að annað sem er nauðsynlegt að við grípum til við þessar aðstæður er það að lækka raforkuverð til fiskvinnslunnar. Ég hef áður, og það hafa margir gert hér á Alþingi, gagnrýnt þetta háa raforkuverð og ég held að við þessar aðstæður þar sem við erum með umframleiðslu og við erum með eitt stórt heildsölufyrirtæki eins og Landsvirkjun, öflugt fyrirtæki, þá er það auðvitað engin goðgá að því sé gert að taka á í því að lækka orkuverðið. En ég legg líka áherslu á það að menn mega ekki blekkja sig heldur með því að þar sé búið að finna einhverja töfralausn vegna þess að hún hefur ekki verið fundin jafnvel þó að við lækkum raforkuverðið.
    Þriðja atriðið sem ég vil nefna í þessu sambandi er að um þessar mundir er verið að vinna að endurskoðun á tekjustofnalögum sveitarfélaganna vegna þess að við höfum ákveðið hér á Alþingi að leggja af aðstöðugjald. Ég vil ekki láta hjá líða að segja það að ég vara mjög eindregið við öllum hugmyndum sem uppi kunna að vera um það að bæta sveitarfélögunum upp tekjutapið af aðstöðugjaldinu með því að flytja skattbyrðina yfir á sjávarútveginn og atvinnulífið að nýju í formi einhverra eigna- eða fasteignaskatta. Það væri svo gersamlega að fara úr öskunni í eldinn að ég held að það hljóti hvert mannsbarn að sjá þetta. Auðvitað var afnám aðstöðugjaldsins gríðarlega þýðingarmikið, ekki bara fyrir sjávarútveginn heldur fyrir atvinnulífið í landinu í heild. Og þess vegna megum við aldrei og við hljótum að geta sameinast um það alþingismenn að við sem viljum tryggja stöðu atvinnulífsins í landinu, við hljótum að geta sameinast um það að taka ekki undir nein sjónarmið sem felast í því að leggja að nýju á einhverja veltu- og kostnaðarskatta sem myndu með fullum þunga leggjast á sjávarútveginn, burt séð frá því hvaða hag hann sé að skila.
    Í fjórða lagi hlýt ég að leggja áherslu á það sem hæstv. sjútvrh. gerði og er auðvitað kjarni þessa máls að við verðum auðvitað með öllum tiltækum ráðum að auðvelda þessari grein alla þá kostnaðarlækkun sem hægt er að grípa til. Og ég held að menn ættu að tala tæpitungulaust í þessum efnum. Kostnaðarlækkun tekur til allra þátta. Auðvitað er það mjög lofsamlegt sem við heyrðum frá stóru sjávarútvegsfyrirtæki í Vestmannaeyjum í gær um lækkun þeirra kostnaðarliða sem lúta sérstaklega þeim sem hafa betri launin í fyrirtækjunum. Þetta er auðvitað mjög mikilvægt. En heldur ekki þarna er búið að finna töfralausnina, enda hefur það nú varla staðið til. En kostnaðarlækkun hlýtur að taka til allra þátta og við skulum gera okkur grein fyrir því að í rekstri hefðbundins fiskvinnslufyrirtækis er fiskverðið 50% af útgjöldunum, vinnulaunin um 20% og aðrir þættir þá um 30%. Og auðvitað verður ekki undan því vikist að koma nær alls staðar við þó auðvitað verði að tryggja það að byrðunum sé réttlátlega dreift.
    Síðast en ekki síst vil ég segja það sem mína persónulegu skoðun í þessum efnum að ég held það að við þessar aðstæður verði ekki undan því vikist að fara í enn frekari skuldbreytingar en hafa átt sér stað. Ég er sammála hæstv. sjútvrh. um að það þarf ekki að gera og á ekki að gera með aðferð einhverrar sjóðamyndunar til þess arna. Þar er ég alveg sammála hæstv. sjútvrh. Ég held það hins vegar og get ekki séð það a.m.k. að undan því verði vikist að með einum eða öðrum hætti verði farið út í frekari aðgerðir á þessu sviði.
    Það er alveg rétt sem fram hefur komið að það er verið að skuldbreyta núna víða í sjóðum landsins eins og Fiskveiðasjóði. Atvinnutryggingarsjóður Byggðastofnunar gerði það á síðasta ári og í bönkum landsins er vissulega verið að gera þetta í einhverjum mæli. En ég segi það að jafnvel þó það þýði að sjóðir þessir og bankar þurfi að grípa til einhverrar frekari erlendrar lántöku til þess að skola mönnum yfir flúðirnar sem við erum vissulega stödd á núna, þá er það réttlætanlegt. Og ég er alveg sannfærður um það að ef það er hægt að draga úr hinni tímabundnu greiðslubyrði fyrirtækjanna vegna þessara alvarlegu aðstæðna sem þau eru í núna, þá væri það jákvæðasta innleggið til þess nákvæmlega að efla atvinnustarfsemina. Menn hafa verið að tala um það í kjarasamningum að taka stór erlend lán til þess að fara í vegagerð eða einhverjar verklegar framkvæmdir. Ég er alveg sannfærður um það að jafnvel miklu minni erlend lántaka sem hefði þetta í för með sér sem ég hef verið að segja, væri miklu áhrifaríkari til þess að tryggja atvinnusköpun í landinu.
    Ég minni líka á það að þeir aðilar sem hér um ræðir, sjóðir þeirra og bankastofnanir, eru auðvitað með tryggari veð í fyrirtækjunum heldur en þeir viðskiptaaðilar sem fyrirtækin skipta við og það er ekki síst þessum viðskiptaaðilum sem það kæmi mjög til góða ef hægt væri að draga úr greiðslubyrði sjávarútvegsfyrirtækjanna og laga greiðslustöðu þeirra þannig að eðlileg viðskiptastarfsemi gæti átt sér stað í landinu. Ég held að það sé rétt sem hv. málshefjandi, hv. 1. þm. Austurl., sagði áðan að gegn þessum mikla vanda sem við stöndum frammi fyrir núna sem er svo margþættur eins og ég hef þegar lýst, þá er engin töfralausn, það eru engar auðveldar lausnir og menn eiga ekki að tala eins og mönnum stundum hættir til að þetta sé allt spurning um það að vilja vel gagnvart íslenskum sjávarútvegi. Þetta er ekki spurning um það. Þetta er spurning um það að þegar að okkur er sótt með þessum hætti, þegar hremmingarnar eru svona miklar sem stafa bæði af eldri vanda, sem stafa af lækkandi fiskverði erlendis og stafa af minni afla, þá er auðvitað óskaplega fátt til ráða. En þá verðum við auðvitað að grípa til allra þeirra ráða sem við þekkjum, jafnvel þó þau kunni að vera óhefðbundin og jafnvel þó þau kunni að stangast á við eitthvað af því sem við höfum áður talið að væri eðlilegt, nauðsynlegt og skynsamlegt. (Gripið fram í.) En aðalatriðið er auðvitað það að núv. hæstv. ríkisstjórn, eins og hv. 4. þm. Norðurl. v. var auðvitað að segja, haldi áfram á þeirri braut sinni að stuðla hér að stöðugleika og lægri vöxtum til þess að styrkja atvinnulífið með þeim hætti og ég veit að þar hljóta menn að eiga samleið hér á þinginu.