Staða sjávarútvegsins

151. fundur
Föstudaginn 02. apríl 1993, kl. 16:25:13 (6802)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Það hefur komið hér fram í máli manna að það sé dauft yfir þessari umræðu eins og yfir sjávarútveginum og stöðu hans. En erindi mitt hingað var að víkja nokkrum orðum að hæstv. sjútvrh. sem því miður hefur ekki getað verið viðstaddur umræðuna um nokkurt skeið og veit ég því ekki hversu mörgum spurningum ég á að varpa hér fram.
    Á sl. hausti spurðist ég fyrir um aðalatriðin í stefnu ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum en þar

var heldur fátt um svör. Eitt kom þar þó fram í lokin, að vegna ágreinings um úrlausn vegna aflabrestsins til þeirra sem verst fóru út úr honum hefði gengið illa að komast að niðurstöðu. Það varð þrautaráð hjá ríkisstjórninni að skipa nefnd fulltrúa þriggja ráðherra til að finna niðurstöðu. Hæstv. sjútvrh. sagði þá, með leyfi forseta: ,,Hún vinnur undir forustu ráðuneytisstjórans í fjmrn. og ég vænti þess að tillögur frá henni komi innan ekki langs tíma.`` Þetta var 12 nóv. í haust. Nú er liðinn langur tími síðan og ekki er komið svar. Væri æskilegt að vita hvort þetta svar liggur nú fyrir ef hæstv. sjútvrh. mundi svara því.
    Eitt vildi ég inna hæstv. sjútvrh. sérstaklega eftir þar sem hann er nú kominn hingað. Í ræðu hans áðan kom fram að hann vonaðist til að það næðist samstaða um hluti sem gera þyrfti og það væri búið að leggja grunn sem væntanlega gæti leitt til einhvers ávinnings. En vegna þess hversu erfiðlega hefur gengið að ná samstöðu innan stjórnarflokkanna um nokkur úrræði, þá vildi ég spyrja hæstv. ráðherra hversu lengi hann ætli að sætta sig við að treysta á að slík samstaða náist innan stjórnarliðsins en reyna ekki að leita eftir því hvort ekki er hægt að ná samstöðu við stjórnarandstöðuflokkana um aðkallandi úrlausn á málefnum sjávarútvegsins.
    Það kom fram í máli hv. 1. þm. Austurl., sem hóf þessa umræðu, að Framsfl. væri reiðubúinn til slíkrar samvinnu. Hvað telur hæstv. sjútvrh. að hann geti lengi unað við að svo hægt gangi í hagsmunamálum þess atvinnuvegar sem hann ber ábyrgð á og nú er rekinn, eins og hér hefur komið fram, með milli 8--9% halla og sífellt er að síga á ógæfuhliðina?
    Það er auðvitað rétt hjá hæstv. sjútvrh. að þetta er ekki einfalt mál. Við erum mörg hver sannfærð um að rétt leið til betri lífskjara sé að afkoma þessa undirstöðuatvinnuvegar verði betri. En nú hefur tíminn liðið og sífellt er að síga á ógæfuhliðina og þar af leiðandi erum við að fjarlægjast það stöðugt að ná fram þessu markmiði.
    Ég held að mjög brýnt sé að fá að heyra hjá hæstv. sjútvrh. hvort hann vilji ekki þiggja stuðning við það að snúa þessum málum til betri vegar þegar sá stuðningur hefur hingað til ekki virst vera fyrir hendi í nægilega ríkum mæli innan stjórnarflokkanna.