Staða sjávarútvegsins

151. fundur
Föstudaginn 02. apríl 1993, kl. 16:30:24 (6803)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Þessi umræða hefur valdið mér allmiklum vonbrigðum. Ég skil það mætavel að það er ekki auðvelt fyrir hæstv. sjútvrh. að svara í einu og öllu um þetta mál. Hann sagði að það væri á viðkvæmu stigi og ég er alveg sammála honum í því mati að auðvitað verður að skapa atvinnufyrirtækjunum aðstöðu til þess að komast upp úr þessari lægð. Það er ekki lausn, eins og hann sagði, að halda áfram að safna skuldum. Um það getum við verið sammála.
    Ég get líka verið sammála hæstv. ráðherra í því að aðilar vinnumarkaðarins bera þarna mikla ábyrgð en auðvitað ber ríkisstjórn Íslands jafnframt mikla ábyrgð og það skiptir máli að ríkisstjórn Íslands leggi á það áherslu í þessum þríhliða viðræðum að það verði að skapa sjávarútveginum þau skilyrði að hann hafi möguleika á því að vinna sig út úr þessum vanda.
    Ég geri mér alveg grein fyrir því að það er ekki alltaf skilningur á því í samfélaginu og menn tala oft út og suður í sambandi við þessi mál. Auðvitað er ljóst að þegar slíkt áfall kemur á þjóðarbúið, þá þýðir það kjaraskerðingu fyrir okkur öll með einum eða öðrum hætti. Menn gera sér alveg grein fyrir þessu og það þýðir ekkert annað en segja það. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra í þeim efnum. En það verður að vera hægt að treysta því sem stjórnvöld segja í þessu sambandi. Það er komið upp mikið vantraust hjá aðilum í sjávarútvegi gagnvart ríkisvaldinu, m.a. vegna þess að hæstv. forsrh. hefur ítrekað verið með yfirlýsingar sem ekki hafa staðist. Hann lét hafa það eftir sér fyrir stuttu að e.t.v. væri ástæða til að huga að ráðstöfunum í sjávarútvegi einhvern tíma með haustinu.
    Það lítur því út fyrir það, hæstv. sjútvrh., eins og þetta blasir við manni að það sé línan a.m.k. hjá hæstv. forsrh. að láta þetta bara eiga sig. Það er leið út af fyrir sig og þótt ég geti tekið undir að það sé eðlilegt hlutverk bankastofnana og lánastofnana, eins og hæstv. ráðherra sagði áðan, að taka á skuldbreytingum fyrirtækja sem eru í viðskiptum við viðkomandi aðila, þá þarf samt stefnu stjórnvalda inn í þá umræðu og það þarf leiðsögn stjórnvalda gagnvart þessum lánastofnunum sem flestar eru í eigu ríkisins.
    Hver var ástæðan fyrir því að það var verið að styrkja stöðu Landsbanka Íslands nú nýlega, sem ég studdi heils hugar þótt málatilbúnaðurinn væri gagnrýnisverður? Það hefur væntanlega verið vegna þess að með því var verið að gera Landsbanka Íslands kleift að gegna áfram forustuhlutverki í sambandi við þá efnahagserfiðleika sem mikill hluti atvinnulífsins á í. Og væntanlega hefur Landsbanki Íslands fengið þau skilaboð að til þess væri ætlast að hann gegndi því hlutverki.
    Það er því mikilvægt að stefna ríkisstjórnar sé skýr í þessu máli en ég hef ekki fundið það á þessari umræðu að hún sé fyrir hendi. Auðvitað hefði það verið eðlilegt að hæstv. forsrh. hefði verið hér viðstaddur vegna þess að hann hefur verið með margvíslegar yfirlýsingar í þessum málum. Það er líka alveg ljóst og hæstv. sjútvrh. hefur staðfest það á Alþingi að það er verulegur ágreiningur í þessum málum. Alþfl. hefur frá upphafi verið að reyna að koma því til leiðar í þessari ríkisstjórn að sjávarútvegurinn verði skattlagður með einum eða öðrum hætti. Það má út af fyrir sig segja að það hafi líka verið mikið áhugamál Alþfl. strax 1987, eftir því sem ég best man, að koma því til leiðar að leggja auknar álögur á atvinnulífið. Þau átök sem hafa verið innan ríkisstjórnarinnar í þessu máli hafa ekkert farið fram hjá mönnum. Og enn þann dag í dag er hæstv. utanrrh. að hamast við að reyna að koma á skattlagningu, jafnvel þó

að það verði ekki fyrr en undir næstu aldamót og engin trygging sé fyrir því, sumir vildu segja sem betur fer, aðrir kannski ekki, að þessi sami hæstv. utanrrh. verði almennt í pólitík á þeim tíma. ( Gripið fram í: Hvenær?) Undir næstu aldamót. (Gripið fram í.) En nú stendur til að láta það eftir hæstv. utanrrh. að koma á þessari gjaldtöku með allopnum hætti en ég tek mark á þeim orðum hæstv. sjútvrh. að það sé ekki með þeim hætti sem hæstv. utanrrh. hefur túlkað heldur eingöngu að lagt skuli á 1.000 kr. gjald á tonn. --- Virðulegi forseti. Ég ætlaði aðeins að spyrjast fyrir um það hver tími minn er. ( Forseti: Það er hálftími.) Já, ég þarf ekki á því að halda. Ég þakka fyrir upplýsingarnar.
    Hæstv. utanrrh. hefur túlkað það að hér sé verið að lofa því að leggja á hærra gjald ef á þarf að halda en hæstv. sjútvrh. hefur fullvissað menn um að það standi ekki til og ég tek mark á þeim orðum. En þá þarf að sjálfsögðu að breyta þessu frv. Það stendur hér að gjaldið eigi að nema a.m.k. 1.000 kr. Það hefur engum manni dottið í hug að skrifa tekjuskattslögin þannig að skattprósentan skuli a.m.k. vera 40% eða dottið það í hug að skrifa virðisaukaskattslögin þannig að virðisaukaskatturinn skuli a.m.k. að vera 24,5%. ( Gripið fram í: En hverju hefði það breytt hefði það verið skrifað?) Hverju hefði það breytt? Hvaða æfingar eru þetta þá? Er þetta einhver sálgæsla fyrir Alþfl. að setja orðin ,,a.m.k.`` þarna inn? Er þetta orðin einhver sérstök skammstöfun fyrir málamiðlun fyrir alþýðuflokksmenn? ( Gripið fram í: Kannski það útskýri þetta betur.) Þetta á kannski að standa fyrir Alþfl. með kommu eða eitthvað slíkt eða Alþfl. með kommum. ( SvG: Með kvóta.) Eða með kvóta. Þetta er kannski einhver alveg ný skammstöfun sem við höfum ekki fengið skýringu á. Hér verða menn að tala skýrt. Það er ekki hægt að leyfa sér það í löggjöf á Íslandi að setja slíkt í lagatexta. Ég skil þá hæstv. sjútvrh. þannig, og bið hann um að taka það fram hér á eftir, að hann er þá reiðubúinn til þess í því samráði, sem nú stendur til að hafa milli aðila, að breyta þessum lagatexta því að samráðið um þennan þróunarsjóð sjávarútvegsins skiptir að mínu mati langmestu máli.
    Hitt málið skiptir að sjálfsögðu líka verulegu máli en þar eru þrjú aðalatriði eftir allt þetta starf:
    Í fyrsta lagi að festa núverandi aflamarkskerfi í sessi. Í öðru lagi að breyta hlutum að því er varðar smábátana. Í þriðja lagi að breyta hlutum að því er varðar línuveiðarnar og kannski í fjórða lagi að breyta eitthvað reglum að því er varðar framsal og opna fyrir möguleika fyrir fiskvinnslustöðvar að eiga kvóta.
    Þetta eru aðalatriðin í þessari annars stóru og ágætu bók sem er að mjög miklu leyti sagnfræði. Ég er ekkert að lasta að þar sé tekin vel saman þróun þessa máls. Það er nauðsynlegt. En niðurstaðan er þessi fjögur aðalatriði og það þarf ekki að liggja fyrir þeim í mjög margar vikur að mínu mati. Ég ætla ekkert að hártoga það á einn eða annan hátt. Þetta er það sem stendur upp úr og síðan geta menn metið það hvort þeir vilja standa að þessum breytingum með þessum hætti eða einhverjum öðrum hætti. Ég er alveg tilbúinn til að tjá mig um það þegar þar að kemur en ætla ekki að eyða tíma í að gera það á þessari stundu.
    En þetta þróunarsjóðsmál er hins vegar miklu stærra mál, eins og hv. þm. Steingrímur Sigfússon sagði hér, m.a. vegna þess að það á ekki að byrja að innheimta þennan ,,a.m.k.``-skatt fyrr en 1996. Og það er ekkert vitað um það hverjir verða þá til þess að taka þátt í innheimtunni á ,,a.m.k.`` Auðvitað er það alveg rétt sem hann sagði að það skiptir afar miklu máli fyrir sjávarútveginn að geta nokkuð treyst því, ef þetta mál verður að lögum, að það verði ekki farið að hrófla við því strax eftir næstu kosningar, breyta því og leggja það af. Ég tel að það sé allt að því subbuskapur í lagagerð, ef þannig má að orði komast, að ákveða skattlagningu og innheimtu gjalda sem tekur gildi eftir allmörg ár. Það er alger nýjung í lagagerð á Íslandi. Núverandi ríkisstjórn gæti í sjálfu sér sett lög um það að tekjuskatturinn skuli lækkaður í 30% 1998. Hún gæti líka sett löggjöf um það að virðisaukaskatturinn skuli lækkaður árið 2000 og farið síðan inn í næstu kosningabaráttu og sagt: Við erum búnir að lækka skattana og mætt þannig gagnrýninni sem er á þá um að þeir séu búnir að hækka skattana, enda hafa þeir verið að hækka skattana allverulega og ekki alveg að ástæðulausu. Auðvitað verður að bregðast við þeim vanda sem við er að etja en vandi þeirra er hins vegar sá að þeir voru búnir að lofa svo miklu í kosningabaráttunni að þeir eiga erfitt með að kyngja þessu öllu saman því að þeir voru búnir að binda sig í óraunhæfum loforðum.
    Ég vil svo, hæstv. forseti, aðeins ítreka eitt að lokum og skal stytta mál mitt vegna þess að um það hafði verið rætt að ljúka þessari umræðu fyrir kl. 5 og ég skal virða það enda þótt ég sé mjög óánægður með það með hvaða hætti þessi umræða hefur farið fram. Það má segja að hér hafi eiginlega eingöngu verið stjórnarandstaðan þótt líka hafi skort á að hún væri öll til staðar en hvað um það. Auðvitað hefði verið nauðsynlegt að hér væru fleiri ráðherrar og það vekur sérstaka athygli að hér hefur enginn verið frá Alþfl., nánast í allan dag. Ég veit ekki af hverju það er. Hvort það er vegna þess að Alþfl. vill ekkert að þessu koma eða hvort hann telur rétt að vera ekki að segja mikið um málið vegna þess að það sé ekki komin niðurstaða í því. Ég kann ekki skýringar á því. En það hefði að sjálfsögðu verið mikilvægt að fá fram í umræðunni hver skilningur Alþfl. er á þessu samkomulagi sem að vísu var gert í nóvember. Það var tilkynnt til þjóðarinnar að það væri komið samkomulag um þennan þróunarsjóð í nóvember. Nú er apríl. Og hvernig á sjávarútvegurinn að búa við það endalaust að verið sé að segja að það sé komið samkomulag um hluti og svo líða margir mánuðir og ekkert sést. Ef það er tilfellið núna að það er heldur ekkert samkomulag, þá sé ég ekki að hæstv. sjútvrh. eigi neinn annan kost en reyna að semja um málið við Alþingi almennt og vita hvort hægt er að ná samstöðu um að ganga frá þessu annars mikilvæga máli því að

óvissa í því er mjög bagaleg. Og ég veit að hæstv. sjútvrh. tekur undir það.
    Ég vildi svo að lokum spyrja hæstv. sjútvrh. og hann getur svarað því annaðhvort með jái eða neii: Stendur til að staðið verði við loforð hæstv. forsrh. frá síðasta sumri um að aflabresturinn verði jafnaður með fjárframlögum eða stendur það ekki til? Hæstv. forsrh. hefur neitað að svara þessu en ég held að það væri mjög mikilvægt að hæstv. sjútvrh. svaraði því því hann hlýtur að vita um það. Og hann hlýtur að geta svarað því hvort það stendur til að standa við þetta loforð.
    Ef hæstv. sjútvrh. getur upplýst hér að það standi til að standa við það loforð, þá væri e.t.v. möguleiki á því að eitthvert traust skapaðist á nýjan leik milli aðila í þessum alvarlegu málum. Ég held að það hljóti að vera mikilvægt fyrir hæstv. sjútvrh. að fá niðurstöðu í það þannig að hann geti talað með almennilegum hætti við aðila í sjávarútvegi en þurfi ekki að segja að hann viti ekkert um það. Það sé málefni forsrh. að svara fyrir það.
    Ég vil svo að öðru leyti þakka fyrir umræðuna svo langt sem hún hefur náð. Ég er þess fullviss að hún á eftir að halda áfram. Það er mikill kvíði í fólki úti um allt land. Það er hins vegar ljóst að fólk vill taka á þessum málum og vill leggja mikið á sig. Ég veit að það er ekki sami skilningurinn alls staðar í samfélaginu á því en ef 1 / 3 hluti sjávarútvegsins hrynur, eins og gæti gerst, og verðmætasköpunin minnkar í samræmi við það, þá þýðir það að sjálfsögðu algert upplausnarástand í okkar samfélagi með tilheyrandi atvinnuleysi og tekjuskerðingu og það er hlutur sem við megum ekki láta gerast. Hér er mikið í húfi og ég get tekið undir það með hæstv. sjútvrh. að það þarf að skapa sem mesta samstöðu en þá verður ríkisstjórnin að gera eitthvað til að skapa þá samstöðu annað en tala um það eins og hingað til.