Sementsverksmiðja ríkisins

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 13:54:30 (6812)

     Guðjón Guðmundsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. 3. þm. Vesturl. fór nokkrum orðum um afstöðu einstakra þingmanna til hugsanlegrar sölu Sementsverksmiðjunnar og vitnaði í ummæli mín í þessum umræðum þar að lútandi. Hér hlýtur hann að vera að taka einhvern feil á mönnum því að ég nefndi það ekki einu einasta orði til eða frá þannig að hann hlýtur að vera að ruglast á mönnum.
    Aðeins út af ítrekuðum ummælum hans í þessum umræðum um að breyting á Sementsverksmiðjunni í hlutafélag muni leiða til stórhækkaðs verð á sementi, þá er þar náttúrlega um mikinn misskilning að ræða. Menn hamra alltaf á því að þetta sé einokunarfyrirtæki. Svo er ekki. Það hefur verið frjáls innflutningur á sementi í um 20 ár. Sementsverkmsiðjan hefur hins vegar staðið sig það vel í verðsamkeppninni að menn hafa ekki lagt í að flytja inn sement. Hún hefur að vísu notið nokkurrar fjarlægðarverndar og notið þess að hafa mjög gott dreifikerfi sem innflutningsaðilar hafa að sjálfsögðu ekki. En ef hún á annað borð ætlaði að hækka verðið upp úr öllu valdi, þá mundi það einfaldlega leiða til þess að menn færu að flytja inn sement. Einokunin er nú ekki meiri en það. Það er því ekki frjálst val hjá Sementsverkmiðjunni að hækka verðið eins og henni dettur í hug. Það leiðir bara til þess að menn fara að flytja inn sement.