Sementsverksmiðja ríkisins

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 13:55:45 (6813)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að biðja afsökunar á því ef ég hef misskilið hv. 5. þm. Vesturl. Ég taldi mig vita það að hann væri á móti því að selja Sementsverksmiðjuna eða hlutafé í henni. Ég verð að viðurkenna það að ég man ekki nákvæmlega hvenær ég fékk þá hugmynd í höfuðið en ég hef staðið í þeirri meiningu og þess vegna var það sem ég nefndi þetta áðan.
    Annað vil ég segja í sambandi við þá fjarlægðarvernd sem verksmiðjan hefur. Fram að þessu hefur það legið fyrir að aðilar tengdir steinefnaiðnaði hafa margreiknað það út, og reyndar gert það árlega í fjölda ára, að fylgjast með því hvort það væri hægt að flytja inn sement í samkeppni við Sementsverksmiðjuna. Það dæmi hefur ekki gengið upp. Þess vegna hafa þeir ekki gert það. Ég held að það hafi verið a.m.k. á undanförnum árum töluverður slaki á þessu. Það hefði verið hægt að hækka sement eitthvað án þess að innflutningur hæfist en Sementsverksmiðjan hefur ekki þurft á því að halda Hún hefur verið með þokkalega góðan rekstur þangað til á síðasta ári.
    Í raun og veru hefur gengið prýðilega að reka þetta fyrirtæki frá því að sú ákvörðun var tekin að breyta brennslunni í brennslu á kolum og þegar nýtt starfsleyfi var gefið út fyrir þetta fyrirtæki og raunveruleg endurbygging þess hafin sem var árið 1983, ef ég man rétt. Síðan hefur verksmiðjan verið í góðum rekstri og ég geri alveg ráð fyrir því að enn þá geti verið uppi þær aðstæður að Sementsverksmiðjan gæti selt sement á verulega hærra verði en hún hefur gert. Ég ætla þó ekkert um það að fullyrða. En að innflutningur á sementi hafi getað veitt henni það aðhald sem hún hefur þurft á undanförnum árum er ég sannfærður um að er ekki rétt.