Sementsverksmiðja ríkisins

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 13:57:48 (6814)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka hv. formanni iðnn. fyrir það að hann varð við ósk okkar í stjórnarandstöðunni um að kalla lögmann Bandalags starfsmanna ríkis og bæja til sérstaks aukafundar í iðnn. snemma í morgun. Þar fórum við yfir málin og ræddum ítarlega við lögmanninn sem staðfesti það sem áður hefur komið fram í þessu máli og bætti reyndar nokkru við sem mér finnst skipta

máli að halda hér til haga.
    Það kom fram hjá lögmanninum, og hefur reyndar trúi ég komið fram í pappírum þessa máls ég hygg frá opinberum starfsmönnum, að verði þessi lög eða önnur samþykkt þá verður samstundis farið í mál við ríkið til ógildingar á því ákvæði sem er í 4. gr. þessa frv. eða sambærilegs ákvæðis í frv. og lögunum um Síldarverksmiðjur ríkisins. Það verður samstundis efnt til málaferla við ríkið vegna þess að opinberir starfsmenn telja að hér sé um að ræða brot á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Fyrir því hefur lögmaðurinn tvíþætt rök.
    Í fyrsta lagi að þetta sé brot á jafnræðisreglunni vegna þess að með lögum af þessu tagi sé verið að taka af nokkrum mönnum réttindi meðan allir aðrir opinberir starfsmenn haldi þessum réttindum. Það sé óeðlilegt og standist ekki stjórnarskrána að tína út úr, eins og lögmaðurinn sagði, nokkra opinbera starfsmenn og taka af þeim réttindi án þess að sú réttindaskerðing eigi við um alla opinbera starfsmenn á sama tíma. Lögmaðurinn taldi í öðru lagi að þetta stæðist ekki vegna þess að ekki væri til sambærilegt starf á einkamarkaðnum af því að ramminn væri allt annar á hinum opinbera markaði og þessi rammi væri ekki til hjá einkamarkaðnum. Af þessum ástæðum fullyrti lögmaðurinn að ríkið mundi örugglega tapa máli af þessu tagi.
    Þá er það spurningin: Hafði hann eitthvað fyrir sér í þessu máli, lögmaðurinn? Jú, hann hafði fyrir sér aðallega tvö mál. Annars vegar mál Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna og hins vegar mál starfsmanna Orkustofnunar þar sem hann taldi, og ég hygg að menn sjái það ef þeir lesa gögnin, að Hæstiréttur hefur raunar þegar fellt dóma sem eru á þann veg að það er mjög líklegt að opinberir starfsmenn muni vinna mál af þessu tagi. Af því að Hæsiréttur hefur úrskurðað að það verði að fylgja jafnræðisreglunni þegar menn eru að skerða kjör opinberra starfsmanna.
    Þetta er auðvitað mjög mikilvægt að hafa í huga hér, virðulegi forseti, og þá rekur að því að nefna að þegar þessi mál voru rædd á síðasta þingi ræddum við þetta mál mjög rækilega við hæstv. núv. fjmrh. og sögðum sem svo: Ef á annað borð á að vera hægt að einkavæða fyrirtæki, sem er eðlilegt að sé hægt að mínu mati, þá á auðvitað að fara í samningaviðræður við samtök opinberra starfsmanna um það hvernig að því verður staðið.
    Nú var þessum málum lent með tilteknum hætti í síðustu kjarasamningum. Í yfirlýsingunni sem fylgdi kjarasamningunum segir að á samningstímanum megi ekki breyta lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. En fjmrh. segir að hann hafi látið þess getið að þessi yfirlýsing hefði ekki áhrif á þau frumvörp sem þá lágu fyrir.
    Nú er sá samningstími sem sú yfirlýsing tók til liðinn. Engu að síður hlýt ég, af því að svo vel ber í veiði að hæstv. fjmrh. er hér, að spyrja hæstv. fjmrh.: Hefur hann farið í þessar prinsipp-viðræður við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja eða BHMR þannig að það liggi fyrr með hvaða hætti fjmrn. vill standa að þessum málum og opinberir starfsmenn?
    Þetta segi ég hér, virðulegi forseti, af því að ég tel ekki boðlegt í réttar- og lýðræðisríki að láta hlutina ganga þannig fyrir sig að Alþingi samþykki lög sem það veit fyrir fram að standast ekki fyrir dómstólum. Hv. formaður iðnn. hefur t.d. aftur og aftur lýst því yfir að ekkert í þessu máli útiloki það að opinberir starfsmenn höfði mál eftir að lögin hafi verið samþykkt í þinginu. Með öðrum orðum eru menn vitandi vits að ganga út á í besta falli svið óvissunnar í þessu efni og taka þá áhættu að það verði dómsmál út af þessu í staðinn fyrir að reyna að leysa málið með viðtölum, eins og auðvitað á að gera alltaf þegar kostur er á í siðaðra manna þjóðfélagi. Þess vegna vil ég leyfa mér að bera þessa spurningu fram við hæstv. fjmrh.: Hefur eitthvað verið gert í þessu máli?
    Við sem skipum minni hluta iðnn. lögðum það til við 2. umr. að þessu máli yrði vísað frá. Þeirri beiðni okkar var hafnað af meiri hlutanum. Ég sé satt að segja ekki að með hliðsjón af því og því að við greiddum atkvæði á móti 4. gr. við 2. umr. að við eigum neinn annan kost en þann, ef málið kemur til atkvæðagreiðslu eftir 3. umr., að greiða atkvæði á móti málinu eins og það lítur út þó svo við hefðum gjarnan viljað, ég segi fyrir mig að ég hefði gjarnan viljað að um málið hefði tekist samkomulag vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að á þessum málum þurfi að taka.
    Varðandi svo spurninguna um það hvort fyrirtækið verður selt eða ekki ef þetta frv. verður að lögum, þá hefur myndast allsérkennileg staða í salnum. Hv. formaður iðnn. hefur lýst því yfir að þetta fyrirtæki verði ekki selt. Hv. 1. þm. Vesturl., sem situr í forsetastól núna, hefur aftur á móti sagt að menn muni fara í að reyna að selja þetta fyrirtæki. Ég verð að játa það að ég heyrði í hv. 5. þm. Vesturl. og ég skildi hann nákvæmlega eins og hv. 3. þm. Vesturl. að því er þetta varðar, að hv. 5. þm. Vesturl. væri heldur tregur til að selja þetta fyrirtæki. Ég skildi hann þannig. Það er bersýnilega verulegur munur á áherslum innan Sjálfstfl. í þessu máli og milli stjórnarflokkanna og má segja að það sé út af fyrir sig gæfa í málinu að Sjálfstfl. skuli ekki eiga nema tvo þingmenn á Vesturlandi því að þá fengjum við kannski þriðju útgáfuna ef þeir væru fleiri en væri til einföldunar samt frekar, virðulegi forseti, ef ég má segja það með þennan forseta viðstaddan, ef það væri bara einn þingmaður Sjálfstfl. af Vesturlandi sem getur auðvitað orðið einhvern tíma eins og dæmin sanna.
    Það er því bersýnilegt að verið er að reyna að láta samþykkja frv. þar sem menn eru með algerlega mismunandi áherslur að því er varðar afstöðu þingmanna Sjálfstfl. og formann hv. iðnn. í þessu máli. Þess vegna er þinginu mikill vandi á höndum í málinu og væri eðlilegt að fara fram á það við stjórnarflokkana að þeir kæmu sér saman um það hvaða túlkun á að hafa uppi í máli af þessu tagi.
    Virðulegi forseti. Ég taldi nauðsynlegt að leggja þessar sérstöku spurningar fyrir hæstv. fjmrh. Mér þætti vænt um ef hann vildi vera svo vinsamlegur að svara. Ég bendi honum á að lesa þau gögn sem núna liggja fyrir í þessu máli hjá ríkislögmanni sem er hans embættismaður. Ég veit að hæstv. fjmrh. hefur marga pappíra að lesa og kemst ekki yfir nærri allt sem hann sjálfsagt vildi gera í þeim efnum. En ég hygg þó að það mundi spara þinginu ómælda vinnu og umræðu og þras ef menn legðu vinnu í það smástund að lesa þessa pappíra sem nú liggja fyrir hjá ríkislögmanni, bæði vegna BHMR-málsins og Orkustofnunarmálsins.
    Þetta vildi ég segja á þessu stigi málsins við 3. umr. um þetta frv., virðulegi forseti.