Sementsverksmiðja ríkisins

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 14:07:24 (6815)

     Frsm. meiri hluta iðnn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég dáist að hugkvæmni hv. þm. Svavars Gestssonar að uppgötva að það er munur innan stjórnarliðsins í þessu máli. Það er út af fyrir sig ekkert merkilegt. Mér finnst það miklu merkilegra að finna að það er líka munur á afstöðu hv. þm. Svavars Gestssonar eftir því hvort hann er innan ríkisstjórnar eða utan hennar. Þegar hann var innan ríkisstjórnarinnar samþykkti hann í ríkisstjórn að lagt yrði fram frv. um annað tiltekið ríkisfyrirtæki með nákvæmlega sömu klásúlu og hann er að deila hér á. Nú er hann í stjórnarandstöðu og þá leikur hann auðvitað bara eftir eyranu. Það sem hv. þm. Svavar Gestsson kallar nú brot á lögum um opinbera starfsmenn hefur hann þá sjálfur brotið árið 1989. Og hvað kalla menn slíkt í stjórnmálum? Ég veit að hv. þm. svarar því sjálfur í andsvari sínu á eftir.
    Deilan snýst um þetta: Hv. þm. Svavar Gestsson og sá lögfræðingaskari sem hann hefur kallað sér til stuðnings segir: Ef ríkisstarfsmaður tekur upp starf hjá hlutafélagi, þá tapar hann ýmsum réttindum og staðan er þá ekki sambærileg. Staðreynd málsins er hins vegar þessi: Ef starfsmaðurinn sjálfur er þeirrar skoðunar að staðan sé ekki sambærileg, þá getur hann látið af störfum og þá verður biðlaunarétturinn virkur. Þetta hefur komið fram og það er af þessum sökum sem ég held því fram að það verði afskaplega hæpið að fá einhvern dómstól til þess að fallast á að hér sé verið að brjóta stjórnarskrárbundin eignarréttindi.
    Þetta vildi ég, virðulegi forseti, að kæmi fram ef það mætti lýsa upp hin myrku hugardjúp hv. þm. Svavars Gestssonar í þessu máli.