Sementsverksmiðja ríkisins

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 14:11:50 (6818)

     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna ræðu hv. 9. þm. Reykv. tel ég nauðsynlegt að gera athugasemd við málflutning hans sem er oft æðiskrautlegur og skreyttur ýmsum upplýsingum um afstöðu annarra hv. þm. Reyndar kom fram við 2. umr. að ég hef ekki lagt til að Sementsverksmiðja ríkisins verði seld. Ég tók það sérstaklega fram að ég teldi að ríkið ætti að eiga meiri hluta í verksmiðjunni en á sama hátt og hv. 5. þm. Vestur., að það komi að sjálfsögðu til greina að selja einhvern lítinn hluta af hlutabréfum félagsins og ég tel að það sé einungis til bóta og til góðs fyrir það fyrirtæki ef niðurstaðan gæti orðið sú og muni styrkja Sementsverksmiðjuna en ekki veikja hana. Ég vildi að þetta væri alveg ljóst þannig að hv. 9. þm. Reykv. þyrfti ekki að halda fleiri ræður um þau efni.