Sementsverksmiðja ríkisins

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 14:19:11 (6820)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Vegna umræðna sem hafa orðið um 4. gr. fyrirliggjandi frv. og fsp. frá hv. þm. Svavari Gestssyni tel ég ástæðu til þess að koma í pontu og skýra örlítið nokkur atriði.
    Í fyrsta lagi held ég að ástæða sé til þess að benda á að þegar frumvörpin voru upphaflega samin og innihéldu klausu eins og þá sem er í 4. gr. frv., þá sat ég í iðnrn. og frv. um Gutenberg og Sementsverksmiðju voru samin í tíð ríkisstjórnar sem þá sat á árinu 1987 og 1988. Það er rétt að annað frv., lítið breytt, var síðan samþykkt. Ég held að flestir stjórnmálaflokkar hafi verið sammála því að óhætt væri að setja klausu eins og þessa í frv. Það var reyndar kannað rækilega á þeim tíma og álit manna var þá að þetta bryti á engan hátt í bág við stjórnarskrá Íslands. Nýrri rök hafa komið upp um það atriði. Sjónarmið mitt er það að ekki sé til staðar sá eignarréttur sem sumir lögfræðingar vilja vera láta. Að sjálfsögðu er eðlilegt að lögmaður BSRB hafi uppi slík mótmæli því að hann hlýtur starfs síns vegna að halda til haga öllum þeim réttindum sem hann telur að gætu flokkast undir þessi lög. Það er hins vegar rétt og hjá því verður ekki komist að viðurkenna að þetta atriði er umdeilt.
    Þegar fjárlagafrv. var lagt fram fyrir haustið 1991 var þar að finna stefnuyfirlýsingu fjmrh. þar sem hann gerði að tillögu sinni að nokkur atriði yrðu tekin upp til sérstakrar skoðunar og sum þeirra þurftu atbeina löggjafans við. Nefni ég þar annars vegar lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, þau lög eru frá 1954, og hins vegar lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna, en þau eru einnig bundin í lögum og nauðsynlegt held ég einnig að flestra áliti að endurskoða þau lög. Því miður hefur það gengið heldur hægt þó að ýmsar nefndir hafi starfað að því máli mörg undanfarin ár.
    Síðar kom að því að gerðir voru kjarasamningar og það var mikið kappsmál fjmrh. að þeir kjarasamningar næðu til sem flestra launþega. Niðurstaðan varð sú að um nokkurt samflot var að ræða og tók BSRB þátt í því samfloti. Hins vegar var ljóst að forsenda fyrir því að þeir vildu taka þátt í samstarfinu var að ekki yrði hróflað eins og var sagt við lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Að því

var gengið enda lá fyrir skýlaus yfirlýsing af minni hálfu að þetta næði ekki til þeirrar greinar sem væri að finna í fyrirliggjandi frumvörpum á Alþingi. En það voru annars vegar frumvörp um Síldarverksmiðjur ríkisins og hins vegar um Sementsverksmiðju ríkisins.
    Þetta nefni ég sérstaklega vegna þess að í 1. tölul. í nál. á þskj. 869 er sagt frá þessum fyrirvara án þess að geta þess að fjmrh. hafi lýst yfir skilningi sínum á málinu og öllum verið það ljóst. Þó má vera að frá því hafi verið sagt í framsöguræðu en alltént var það sagt mjög skýrt af hálfu hv. 9. þm. Reykv. hér áðan. Það er hárrétt að skilningur beggja aðila lá fyrir að þessi frumvörp gætu gengið fram óbreytt þrátt fyrir aðild BSRB að þessum kjarasamningaviðræðum. En ég tók þá skýrt fram og hef sagt það áður á Alþingi að í því fólst ekki sá skilningur að BSRB hefði samþykkt að þetta yrði að lögum, enda ber okkur að sjálfsögðu ekki að bera þau undir þau samtök fremur en önnur löggjafaratriði sem hv. Alþingi á að sýsla um. Ég tel rétt að þetta komi fram vegna fsp. hv. þm. að þessi atriði lágu fyrir með þeim hætti sem ég hef lýst hér.
    Ég get litlu bætt um það sem hér hefur verið sagt um lögfræðina í þessu. Hér er deilt um það hvort eignarréttur myndist á þessum réttindum og þetta sé lögvarinn eignarréttur þá væntanlega skv. 67. gr. stjórnarskrárinnar eða hvort hér sé einungis um annars konar réttindi að ræða. Ég verð að segja að ég tel að fyrirliggjandi dómar, sem vitnað hefur verið til, taki ekki af skarið í þeim efnum. Að vísu geta menn haldið því fram í sínum ræðum en frá mínum sjónarhóli er það ekki svo. Ég tel að ríkið og þeir sem verja rétt ríkisins í þessum efnum muni telja að svo sé ekki. En mér er auðvitað kunnugt um mótbárur ýmissa og að sumir vilja jafnvel teygja niðurstöðu dóms Hæstaréttar í BHMR-málinu svo langt að það dugi í þessu efni. Það held ég að sé af og frá. En eins og allir vita er ég ekki dómstóll, sem betur fer segja nú sjálfsagt flestir í þeim efnum. Þá verða þessi mál að ganga til dómstólanna eins og ég sé að Hróbjartur Jónatansson hrl. bendir réttilega á.
    Mér finnst það vissulega vera sjónarmið að það sé eðlilegra að breyta lögunum frá 1954 með almennum hætti. Fyrir því eru fjöldamörg rök og þau snúa ekki einungis að þessu tiltekna atriði heldur miklu fremur hinu að lögin eru gersamlega úrelt. Þau miðast við allt öðruvísi ríkisstarfsmenn en þá sem starfa í dag. Þá voru ríkisstarfsmenn margfalt færri, miklu lægra hlutfall af heildarvinnuaflinu og það þótti sjálfsagt að verja rétt þeirra, fyrst vegna þess að þeir höfðu ekki samningsrétt og þeir höfðu ekki verkfallsrétt. Þessi tími er löngu liðinn og ég held að allir sem vilja líta á þetta mál hlutlaust og eðlilega sjá að lögunum verður að breyta. Ég neyddist hins vegar til þess að fallast á að fresta því að láta það starf fara fram til þess að kalla fram kjarasamning og stundum eru þeir nokkuð dýru verði keyptir.
    Hv. þm. Svavar Gestsson spurði þá að því hvort ég hefði nú þegar samningstímabilinu er lokið haft uppi tilburði að ræða við starfsmenn ríkis og bæja um þetta tiltekna atriði. Það hef ég ekki gert. Ég tel reyndar að ef ríkisstjórn og þingmeirihluti vill breyta lögum á borð við þessi lög eigi frumkvæðið að vera hjá þeim. Ég veit að sjálfsögðu að það þarf taka tillit til sjónarmiða starfsmanna ríkis og bæja en þeir eiga ekki frekar en annað fólk í landinu að ráða því hvernig lögin verða. Það vald er hjá Alþingi og til þess eru alþingismenn kjörnir.
    Niðurstöður orða minna eru þess vegna þær að í fyrsta lagi sé brýn nauðsyn á því að breyta lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, ekki vegna þessa tiltekna ákvæðis heldur vegna þess að lögin eru úrelt í mjög mörgum efnum. Þau voru samin og samþykkt við allt önnur skilyrði en nú gilda. Frá því að lögin voru samþykkt hafa réttindi og skyldur, og þó einkum réttindi, opinberra starfsmanna gersamlega snarbreyst eins og ég hef hér minnst á.
    Í öðru lagi vil ég að það komi fram að ég tel enga goðgá að samþykkja fyrirliggjandi frumvörp með þessum tilteknum efnisatriðum í og ég sé ekkert athugavert við það að slík mál séu hjá dómstólum ef menn vilja senda mál þangað því að ég veit að það hlýtur að búa í réttlætiskennd okkar Íslendinga að það sé ekki sjálfsagt mál þegar menn halda störfum sínum en það breytist form á félagi þá eigi slíkir aðilar skýlausan rétt á því að fá 12 mánaða biðlaun. Ég held að allir sanngjarnir menn sjái að tilgangurinn getur ekki hafa verið sá þegar lögin voru sett heldur var verið að tryggja það hjá þeim hópi embættismanna, sem störfuðu hjá ríkinu, að ekki væri hægt að reka menn fyrirvaralaust án þess að bætur kæmu fyrir.
    Að þessu sögðu tel ég að meginniðurstaðan sé sú að samþykkja megi þetta lagafrv. eins og það er, en auðvitað kemur sá tími, og þarf að koma fyrr en síðar, að við tökum upp og semjum ný lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna sem auðvitað verður gert í samráði við opinbera starfsmenn. Öðruvísi er það ekki hægt en það hlýtur að vera hv. Alþingi sem ræður þeirri löggjöf eins og annarri.