Framleiðsla og sala á búvörum

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 14:38:42 (6832)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Það frv. sem ég mæli hér fyrir hefur verið mjög lengi í undirbúningi og hafði raunar verið ætlan mín að leggja það fyrr fyrir þingið þó endanleg gerð þess hafi ekki legið fyrir fyrr en svo seint að það gat ekki orðið fyrr en í síðustu viku.
    Efni frv. er mjög einfalt og skýrt. Í 1. gr. frv. er fjallað um álagningu og innheimtu sérstaks jöfnunargjalds af innfluttum kartöflum og vörum unnum úr þeim. Vissir vöruflokkar sem greinin tekur til falla undir bókun 3 með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Ákvæði a-liðar er sett til að samræma lögin þeirri bókun. Felld eru brott skilyrði úr gildandi lögum sem valda því að einungis er hægt að beita til jöfnunar verðtolli sem má nema allt að 200% sé heildarverð ekki ákveðið af fimm manna nefnd samkvæmt ákvörðun 13.--15. gr. laganna. Við þessa breytingu verður unnt að leggja á jöfnunargjald sem krónutölu eða sem verðtoll en ekki er gert ráð fyrir að álagning jöfnunargjalda muni hækka við þessa breytingu. Þessi breyting er í samræmi við eðlilega viðskiptahætti og hefur verið áhugamál jafnt bænda sem verslunaraðila.
    Í 2. gr. frv. er fjallað almennt um innflutning búvara og vara sem unnar eru úr þeim. Landbrh. er falið forræði þessara mála en hann skal leita umsagnar Framleiðsluráðs landbúnaðarins um hvort innlend framleiðsla fullnægi neysluþörfinni. Í gildandi lögum segir um þetta efni:
    ,,Áður en ákvarðanir eru teknar um inn- og útflutning landbúnaðarvara skulu aðilar, sem með þau mál fara, leita álits og tillagna Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Innflutningur landbúnaðarvara skal því aðeins leyfður að Framleiðsluráð staðfesti að innlend framleiðsla fullnægi ekki neysluþörfinni.``
    Hér er valdið með öðrum orðum fært til landbrh. sem er eðlilegt en Framleiðsluráð hefur umsagnarrétt um málið.
    Í 2. mgr. 2. gr. frv. er landbrh. heimilað að leyfa innflutning í samræmi við ákvæði í fríverslunar- og milliríkjasamningum. Þetta ákvæði er nýmæli og er fyrst og fremst tekið mið af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið en þetta ákvæði er jafnframt nauðsynlegt til að unnt sé að uppfylla fríverslunarsamninga sem búið er að gera eða unnið er að við aðrar þjóðir. Hér er farin sama leið og í 6. gr. tollalaga nr. 55/1987 og í frv. til breytinga á þeim lögum sem nú liggur fyrir Alþingi.
    Þessar breytingar eru með öðrum orðum nauðsynlegar vegna þeirra samninga sem við höfum gert og af þeim sökum liggur á að málið fái þinglega meðferð. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir að hafa orðið við þeirri beiðni að það verði tekið nú fyrir páska.
    Ég legg til að málinu verði vísað til landbn. og 2. umr.