Lokun meðferðarheimilis SÁÁ að Staðarfelli

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 15:55:17 (6860)


     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Þessi starfsemi er mjög mikilvæg og sá árangur sem verður af henni kemur auðvitað fyrst og fremst fram í betra mannlífi í landinu og sparnaði í heilbrigðiskerfinu. Ég hefði talið að þær krónur sem sparast þarna mundu kosta mikla fjármuni annars staðar.
    Starfsemin er líka ákaflega mikilvæg fyrir byggðarlög í grenndinni og að því leyti er þetta atvinnumál. Þegar ríkisstjórin segist vera að bögglast við að reyna að skapa ný atvinnutækifæri þá ætti hún að gá að því að henda þeim ekki fyrir róða annars staðar. Þetta hefur mjög margvísleg áhrif á mannlífið og atvinnulífið á þessum litlu stöðum sem eru þarna í kring. Svo að ég taki dæmi er talið að verði að fækka ferðum Vestfjarðaleiðar um tvær í viku ef þessi starfsemi leggst af. Ég held að það sem hefur gerst sé víti til varnaðar, einhver verulegur misskilningur hefur verið á ferðinni því að sá samningur sem var gerður 8. des. er það óljós að enginn vandi er fyrir báða aðilana að túlka hann hvor á sinn hátt. Þannig má auðvitað ekki standa að málum að menn verði ekki sammála eftir á og geti túlkað samninginn hvor á sinn hátt eins og þarna var gert.
    Forsvarsmenn SÁÁ hafa komist að þeirri niðurstöðu að þeir hefðu mestan sparnað af sínum rekstri miðað við það að loka meðferðarheimilinu á Staðarfelli. Ég tel að það sé út af fyrir sig eitthvað sem þeir hafa reiknað rétt út en ég tel að það sé ekki rétt reiknað hjá landsfeðrunum að láta það gerast.