Ráðning framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 16:07:50 (6866)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs utan dagskrár vegna þess að óhjákvæmilegt er að átelja mjög harðlega þá valdníðslu sem Sjálfstfl. hefur beitt í málefnum sjónvarpsins. Þessi valdníðsla er algert einsdæmi og óréttlætanleg pólitísk íhlutun í innri málefni sjálfstæðrar ríkisstofnunar. Hér er vegið að atvinnuöryggi og starfsmöguleikum opinberra starfsmanna, ekki bara starfsmanna sjónvarpsins heldur allra opinberra starfsmanna. Hér er verið að taka upp stjórnarhætti sem eru siðlausir og í rauninni er vegið að allri þjóðfélagsgerð okkar.
    Ég óskaði eftir því að fá að eiga orðastað við hæstv. forsrh. Davíð Oddsson þar sem þetta er miklu víðtækara mál en það varði einungis verksvið menntmrh. Þetta varðar stjórnarhætti í landinu. Það er yfirlýst af menntmrh. að þetta hafi verið pólitísk ákvörðun og hann hafi tekið ákvörðun sína í samráði við formann Sjálfstfl., hæstv. forsrh. og með vitund fyrrv. formanns Sjálfstfl., Þorsteins Pálssonar, sem starfar nú í umboði menntmrh. Hæstv. forsrh. þorði því miður ekki að koma og ræða þetta mál. Ég óskaði eftir nærveru hans á fundinum þó að ég beindi máli mínu til hæstv. dómsmrh. og óskaði að hann nefndi þann tíma sem ég ætti að biðja um í dag. Hæstv. forsrh. varð ekki við þeirri ósk minni og er ekki hér staddur, því miður. Ég taldi samt eðlilegt að hann væri hér og verði gerðir sínar og héldi uppi andsvörum fyrir ríkisstjórnina og Sjálfstfl. Ég hélt satt að segja að hæstv. forsrh. væri meiri bógur en svo að hann hlypi í felur þegar á hann væri skorað að ræða óþurftarverk hans.
    Það er rétt að menntmrh. ber hina formlegu ábyrgð, embættislegu ábyrgð á gerningnum, en af vinnubrögðunum er auðséð að ákvörðunin og ráðagerðin er ekki frá hæstv. menntmrh. sprottin. Hún ber fremur keim af ákvörðunum og ráðagerðum formanns Sjálfstfl. Þjóðin þekkir þessi fingraför. Svipuð vinnubrögð hafa verið viðhöfð hjá borgarstjórn Reykjavíkur í borgarstjóratíð Davíðs Oddssonar. Ég nefni t.d. fræðslustjóramálið. Það væri hægt að tíunda mörg fleiri þar sem brugðist er við með svipuðum hætti. Ég þekki hæstv. menntmrh. og hef þekkt í marga áratugi og ég veit að þessi hernaðaráætlun á ekki upptök sín í kollinum á honum. Röddin er Jakobs þó að hendurnar séu kannski Esaús. Hér er ekki siðferði hæstv. menntmrh. á ferðinni. Hér er á ferðinni siðferði Davíðs Oddssonar, hæstv. forsrh.
    Ég ætla að rekja í örfáum orðum atburðarásina. Nokkrum starfsmönnum sjónvarpsins hefur að undanförnu verið sagt upp með vísan til ákvæða í ráðningarsamningum þeirra um þriggja mánaða uppsagnarfrest. En það varð mikill hávaði út af einni af þessum uppsögnum sem var þó samhljóða öllum hinum að öðru leyti en því að viðkomandi var þéraður í uppsagnarbréfinu og ekki óskað eftir vinnuframlagi hans á hinum samningsbundna þriggja mánaða uppsagnartíma. Þetta skýtur nokkuð skökku við. Menntmrh. rauk upp og lýsti því ranglega yfir að viðkomandi starfsmaður, Hrafn Gunnlaugsson, hefði verið rekinn. Það var rangt. Hrafni Gunnlaugssyni var sagt upp. Morgunblaðið, DV og e.t.v. fleiri fjölmiðlar hafa haldið því fram að Hrafn Gunnlaugsson hafi verið rekinn fyrir eitthvað sem hann sagði í einhverjum sjónvarpsþætti. Það hefur ekki komið fram af hálfu útvarpsins og allt tal um að uppsögnin sé árás á tjáningarfrelsið er bara út í loftið.
    Síðan gerist það að menntmrh. lætur framkvæmdastjóra sjónvarpsins hverfa frá störfum í eitt ár og skipar þennan mann, sem nýbúið var að segja upp, í stöðu hans þrátt fyrir það að útvarpsstjóri væri nýbúinn að segja honum upp störfum. Menntmrh. lýsir því yfir að þetta sé pólitísk ákvörðun, innsetning Hrafns í þetta embætti. Hér hefur Sjálfstfl. beitt valdníðslu sem er alveg óhjákvæmilegt að víta og má ekki eiga sér stað.
    Undanfarnar vikur hafa fjölmargir ríkisstarfsmenn fengið uppsagnarbréf með vísan í ráðningarsamninga. Sem betur fer hefur ekki verið gripið til þvílíkra ráða. Þeir eiga kannski ekki aðra eins hauka í horni eins og þessi umræddi starfsmaður. Það kann að vera að í þeim hópi séu einhverjir nafnkenndir sjálfstæðismenn, og ég geri ráð fyrir því, en sjálfstæðismenn eru ekki jafnir.
    Þessar aðfarir núna eru aðför að lýðréttindum í landinu. Þetta er aðför að sjónvarpinu. Okkur er ekkert sama um sjónvarpið. Sjónvarpið er inni á næstum því hverju heimili í landinu og þjóðin öll á mikið undir því að það sé vel rekið og því sé skynsamlega stjórnað. Ég held ekki að aðgerð hæstv. menntmrh. sé til þess að styrkja sjónvarpið eða til þess að bæta það.
    Um leið og ég víti af fyllsta þunga þau vinnubrögð sem hér hafa verið höfð í frammi, þá spyr ég hæstv. dómsmrh.: Því í ósköpunum leggur Sjálfstfl. í að fremja þessa siðlausu athöfn? Er það meiningin að fara að tíðka hér suðurameríska stjórnarhætti? --- [Lófatak á þingpöllum.]