Ráðning framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 16:16:04 (6868)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :

    Frú forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. v. hefur gert hér að umtalsefni formlegar hliðar á setningu menntmrh. í embætti framkvæmdastjóra sjónvarps. Það eru þrjú atriði sem hv. þm. nefndi í sinni ræðu sem að hans mati eru gagnrýni verð.
    Í fyrsta lagi taldi hann að þessi ákvörðun væri valdníðsla. Í öðru lagi að þessi ákvörðun menntmrh. væri pólitísk íhlutun í málefni Ríkisútvarpsins og í þriðja lagi að vegið væri að atvinnuöryggi starfsmanna.
    Við skulum aðeins líta nánar á þessi þrjú atriði. Í fyrsta lagi felur hugtakið ,,valdníðsla`` það í sér að viðkomandi ráðherra misbeiti lögum til þess að koma fram órétti eða beita einhverja órétti. Ég fæ ekki séð að valdníðsla hafi átt sér stað í þessu tilviki.
    Í annan stað segir hv. þm. að um sé að ræða pólitíska íhlutun í málefni Ríkisútvarpsins. Samkvæmt útvarpslögum er það svo að forseti Íslands skipar útvarpsstjóra að tillögu menntmrh. Menntmrh. skipar síðan framkvæmdastjóra einstakra deilda Ríkisútvarpsins að fenginni umsögn útvarpsstjóra og útvarpsráðs. Þegar um er að ræða setningu í embætti um skemmri tíma er það svo að almennt er litið svo á að ráðherra skipi eða ráði menn til slíkra tímabundinna starfa og þá þurfi ekki að leita þeirra umsagna sem kveðið er á um þegar embættum er varanlega ráðstafað. Mér sýnist því að í þessu tilviki hafi ekki verið farið fram hjá venjubundnum reglum í þessu efni, enda hef ég ekki heyrt að gerðar hafi verið athugasemdir við þennan þátt málsins.
    Það er á það að líta að sá maður sem gegnt hefur þessi starfi frá því að sjónvarpið var stofnað hefur fengið ársleyfi. Ég geri ráð fyrir því að að öllu óbreyttu komi hann til starfsins á nýjan leik þegar því leyfi lýkur og taki þá við sínum fyrri störfum þannig að þessu embætti hefur ekki verið ráðstafað á nýjan leik heldur sett um stundarsakir meðan leyfi þess manns sem situr í embættinu stendur.
    Þá taldi hv. þm. það í þriðja lagi vera ámælisvert við þessa ákvörðun að með henni hafi verið vegið að atvinnuöryggi starfsmanna. Nú er það svo að útvarpsstjóri ræður starfsmenn að útvarpinu utan þá sem menntmrh. skipar lögum samkvæmt. Í stuttri verklýsingu sem framkvæmdastjóri sjónvarpsins, sem nú er kominn í leyfi, gaf á starfi sínu og gildir um þetta starf kemur fram að útvarpsstjóri skrifar undir alla ráðningarsamninga, svo og uppsagnir ef til þeirra kemur hjá starfsmönnum Ríkisútvarpsins. Ég sé því ekki í fljótu bragði að þessi fullyrðing hafi við rök að styðjast að setning manns í embætti um stundarsakir raski atvinnuöryggi annarra þar sem útvarpsstjóri hefur endanlegt vald.
    Í fljótu bragði sýnist mér því að þessi þrjú atriði sem hv. þm. nefndi eigi ekki við í þessu tilviki. Hitt er svo annað mál að menn geta haft á því ólíkar skoðanir hver eða hverjir eru heppilegastir til að gegna störfum af þessu tagi. En ég tók eftir því í máli hv. þm. að það gerði hann ekki sérstaklega að umræðuefni heldur hinar formlegu hliðar málsins og frá mínum bæjardyrum séð liggja þær alveg ljósar fyrir. Um hitt hverjir séu heppilegastir til þess að gegna þessum störfum ætla ég ekki að leggja mat, enda hefur það ekki verið gert að umtalsefni af hálfu hv. þm.
    Þá vék hv. þm. að því að hæstv. menntmrh. hefði gefið þá skýringu að hér væri um pólitíska ákvörðun að ræða. Nú get ég ekki sagt neitt um þá yfirlýsingu hæstv. ráðherra. Hitt er ljóst að sérhver ráðherra starfar í umboði Alþingis og hefur þannig pólitískt umboð til allra þeirra ákvarðana sem hann tekur. Hvort sem þær ákvarðanir eru teknar til að ná fram pólitískum markmiðum eða til þess að tryggja eðlilegan framgang stjórnsýslu sem hefur önnur markmið, þá er það svo að ráðherra ber ávallt á öllum sínum ákvörðunum pólitíska ábyrgð gagnvart Alþingi.
    Að því er varðar síðustu spurninguna, þar sem hv. þm. spyr hvers vegna Sjálfstfl. standi að þessari siðlausu athöfn, ef ég hef náð spurningunni rétt niður, þá er hún á einhverjum misskilningi byggð því að Sjálfstfl. stendur ekki að þessari siðlausu athöfn sem hv. þm. kallar svo. Það eina sem gerst hefur hér er að menntmrh. hefur veitt framkvæmdastjóra sjónvarpsdeildar útvarpsins leyfi í eitt ár og sett annan mann til að gegna því starfi á meðan. Það er embættisákvörðun menntmrh. sem mér sýnist á grundvelli gildandi laga sé í fullu samræmi við þau og brjóti hvergi gegn lögunum eins og Alþingi hefur samþykkt þau.