Ráðning framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 16:32:55 (6873)

     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Það er hálfankannalegt að ræða þetta mál hér að hæstv. menntmrh. fjarstöddum, en hins vegar er það í stíl við atburði helgarinnar sem hljómuðu satt að segja svo fáránlega að um stund héldu menn að ráðning hins nýja framkvæmdastjóra sjónvarpsins væri eins konar aukaútgáfa af ,,ekki-fréttum``. Hér væri á ferðinni hinn góðkunni æringi Haukur Hauksson að gera sitt vanabundna grín að hæstv. menntmrh. Svo var því miður ekki. Það kom í ljós að veruleikinn var enn lygilegri en nokkur reyfari.
    Hæstv. menntmrh. er vitaskuld þaulvanur stjórnmálamaður. Það fer ekki hjá því að hann hlaut að gera sér fulla grein fyrir því að eins og mál höfðu þróast, þá hlutu morgunverk laugardagsins að verða mjög umdeild út um allt þjóðfélagið. Maður með hans reynslu hlaut að skilja að verknaðurinn mundi sæta mikilli gagnrýni sem ekki aðeins mundi beinast að honum einum og hans flokki heldur ríkisstjórninni allri og þar með samstarfsflokknum líka. Ég skal ekki draga í efa heimild ráðherrans til að ákveða hina umdeildu og óvæntu ráðningu en miðað við aðdraganda málsins og þess sem mátti vitaskuld vænta, þá hefði það verið sjálfsögð kurteisi, svo ekki sé meira sagt, að bera verknaðinn undir samstarfsaðila. Það var hins vegar ekki gert.
    Það er alveg nauðsynlegt að fram komi að hæstv. ráðherra leitaði ekki álits nokkurs einasta forustumanns Alþfl. Hann lét engan forustumann Alþfl. vita hvað til stóð og ég átel þessi vinnubrögð, virðulegi forseti.
    Í upphafi snerist þetta mál um persónu manns sem er einn af færustu listamönnum þjóðarinnar á sínu sviði. Brottvikning hans úr stöðu dagskrárstjóra var vissulega umdeilanleg. Málið snýst hins vegar ekki lengur um hann heldur um grundvallaratriði. Í þjóðfélaginu hefur verið sátt um það að Ríkisútvarpið sé tiltölulega sjálfstæð stofnun án þess að einstakir flokkar sem kunna að komist til valda geti hlutast til um innri mál hennar. Með atburðum helgarinnar er Ríkisútvarpið hins vegar gert að bitbeini og stofnun sem eðli máls samkvæmt þrífst best í friði frá pólitískum væringum verður fórnarlamb í illa tefldri refskák.
    Hver er, virðulegi forseti, æðsta skylda sérhvers menntmrh. gagnvart Ríkisútvarpinu? Er það ekki að skapa starfsfrið og góðan starfsanda innan stofnunarinnar? Hefur þessi fáránleikur, virðulegi forseti, stuðlað að því? Því miður ekki.
    Ég vona, virðulegi forseti, að ég reynist ekki sannspár, en mig uggir að þessi atburður hafi kveikt elda jafnt innan sem utan stofnunarinnar sem eiga eftir að brenna lengi og brenna miklu. Málið ber raunar öll merki fáránleikans. Fyrst víkur útvarpsstjóri manni frá stjórn dagskrárdeildar og örfáum dögum síðar setur hæstv. menntmrh. hinn brottvikna sem einn nánasta samstarfsmann útvarpsstjóra í málefnum sjónvarpsins og svo lýkur farsanum með því að útvarpsstjóri lýsir því yfir að hann hlakki til samstarfsins við manninn sem hann er nýbúinn að reka. En þetta er ekki jafnhlægilegt og það kann að virðast, virðulegi forseti. Þetta kann að bera merki þess sem koma skal því að það er mála sannast að eftir aðdragandann er ljóst að hinn nýi framkvæmdastjóri sjónvarps er svo valdaður í bak og fyrir að það hlýtur að vera nánast sama hvaða ágreiningur kemur upp á milli þeirra. Útvarpsstjóri getur aldrei annað en kysst á vöndinn nema hann vilji heilagt stríð sem er hins vegar stofnuninni svo sannarlega fyrir verstu.
    Í Gerska ævintýrinu eftir Halldór Laxness segir á einum stað, með leyfi forseta: ,,Er Stalín dauður? spurði ég. Ekki veit ég hvað var svarið en hann flytur í dag kosningaræðu fyrir kjördæmi sitt hér í borginni.``
    Virðulegi forseti. Þá ræðu hefur hæstv. menntmrh. fyrir sitt leyti flutt.