Ráðning framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 16:50:45 (6878)

     Jón Kristjánsson :

    Virðulegi forseti. Í huga þjóðarinnar er Ríkisútvarpið stofnun sem á að vera óhlutdræg og rúma ólíkar skoðanir. Það á að vera menningarstofnun sem fólki er ekki sama um og það hefur komið berlega í ljós síðustu daga að fólki er ekki sama um þessa stofnun. Þegar vandamál koma þar upp ber menntmrh. sem æðsta yfirmanni stofnunarinnar að bera klæði á vopnin fremur en blása í glæðurnar.
    Það þarf ekki að rekja hvað skeð hefur. Það hefur verið rakið hér. Deildarstjóra er vikið frá störfum vegna samstarfserfiðleika við sitt samstarfsfólk sem náði hámarki með ógætilegum yfirlýsingum um það í fjölmiðlum. Það kom engum til hugar sú atburðarás sem hefur gerst síðan og viðbrögð fólks eru fyrst undrun, síðan reiði og áhyggjur út af þessari stofnun. Ráðningin er pólitísk. Það hefur menntmrh. sagt. Með henni er kastað stríðshanska að útvarpsstjóra. Allar reglur um slíkar ráðningar og samráð við hann og útvarpsráð skv. 21. gr. laga eru þverbrotnar og þær útskýringar sem hér hafa komið frá hæstv. starfandi menntmrh. flokkast undir ,,hundalógikk``, svo ég noti svo ljótt orð.
    Það er alveg ljóst af viðbrögðum almennings í landinu að útvarpsstjóri hefur stuðning til að standa af sér þetta gerningaveður íhaldsins sem aldrei hefur getað liðið það að hafa ekki tögl og hagldir í þessari stofnun og liggur stöðugt í hælunum á því fólki sem grunur er um að sé ekki á þeirra bandi eða hefur haldið sig utan stjórnmálaafskipta. Það trúir enginn á afskiptaleysi forsrh. af þessu máli. Það er eins og hvert annað grín. Og það er aumleg frammistaða hæstv. forsrh. að taka ekki þátt í þessari umræðu og læðast hér inn þegar hún er byrjuð og steinþegja. Allir sem hafa augu og eyru vita auðvitað um þátttöku hans í þessu máli.
    Það hefur áreiðanlega farið meiri tími í þetta mál hjá hæstv. ríkisstjórn síðustu vikur en að ná kjarasamningum. Það er ég alveg sannfærður um og í sannleika sagt er þetta átak að ráða Hrafn Gunnlaugsson á ný stærsta atvinnuátak ríkisstjórnarinnar sem hefur verið gert og væri óskandi að það yrðu eins snögg viðbrögð annars staðar þegar 7 þúsund manns ganga atvinnulausir í þessu þjóðfélagi a.m.k.
    Þessi atburðarás er svo með eindæmum að það trúði henni enginn fyrir fram en auðvitað ber Alþfl. fulla ábyrgð á henni einnig þó að hv. formaður þingflokksins segi það réttilega hér að það hafi ekki verið haft samráð við þá. En hvað ætlar Alþfl. að gera í samstarfi við þessa menn? Ætlar hann að láta nægja þátttöku formanns þingflokksins í þessum umræðum og sitja svo þegjandi undir þessu? Spyr sá sem ekki veit.