Ráðning framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 17:16:09 (6884)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Hv. 9. þm. Reykv. beindi til mín spurningum varðandi samninga um sýningarrétt á kvikmyndum og hv. 7. þm. Reykn. beindi til mín þeirri spurningu hvort ekki væri eðlilegt að segja slíkum samningum upp. Ég veit að hv. þm. virða mér það til betri vegar að ég hef ekki undir höndum neinar upplýsingar um þá samninga sem hér voru nefndir og Ríkisútvarpið eða menntmrn. hefur gert við þann mann sem settur hefur verið til að gegna framkvæmdastjórastarfi sjónvarps en lít svo á að það sé eðlilegt að veita allar upplýsingar um þá samninga, svo og aðra samninga svipaðs eðlis sem gerðir hafa verið þannig að menn geti borið saman hvort einhver mismunur er þar á. Ég tel eðlilegt að slíkar upplýsingar séu veittar þó að ég hafi þær að sjálfsögðu ekki við höndina.
    Þá var að því spurt hvort menntmrn. greiddi laun Péturs Guðfinnssonar meðan hann er í ársleyfi. Það kemur fram í því bréfi sem honum var ritað um ársleyfið að hann haldi sínum launum. Ég geri ráð fyrir því að Ríkisútvarpið greiði þau laun án þess að ég geti fullyrt um að svo sé. Annað verður ekki ráðið af því bréfi sem ég hef undir höndum.
    Þá vék hv. 17. þm. Reykv. að því hver staða kæmi upp ef ágreiningur risi á milli framkvæmdastjóra og útvarpsstjóra. Það kemur mjög skýrt fram í lögum um Ríkisútvarpið en þar segir að útvarpsstjóri annist rekstur Ríkisútvarpsins, sjái um fjárreiður þess og semji ár hvert fjárhagsáætlun og undir yfirstjórn útvarpsstjóra starfi Ríkisútvarpið í þremur deildum: fjármáladeild, hljóðvarpsdeild og sjónvarpsdeild. Það hefur komið fram, eins og ég hef áður nefnt, í starfslýsingu framkvæmdastjóra sem nýlega hefur verið samin að útvarpsstjóri sjálfur mun skrifa undir ráðningarsamninga og hugsanlega uppsagnarsamninga. Hér gilda því hin hefðbundnu lögmál yfirmanna og undirmanna og það er auðvitað æðsti yfirmaður stofnunarinnar sem fer með úrslitavald þegar ágreiningur kemur upp. Ég hygg að bæði reglur og venjur segi alla sögu í því efni. --- [Fundarhlé.]