Vörugjald af ökutækjum

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 18:24:31 (6889)


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það hefur þegar flest það komið fram í þessu máli í ræðum framsögumanns og síðasta ræðumanns sem ég vildi nefna. Ég get því vísað til þess. Ég tek undir það að ég held að það hafi tekist vel til með breytingu á frv. Sömuleiðis er það jafnan gott þegar menn verða sammála um lagfæringar. Ég tel að það sé nokkur fengur að þeirri einföldun sem er framkvæmd með því að hverfa frá því að ákvarða vörugjaldið, eins og gert hefur verið, miðað við þyngd ökutækis í mörgum flokkum og nota þess í stað færri og einfaldari flokka sem miðast við sprengirými eða afl bifreiðanna. Þessi breyting mun væntanlega ekki hafa neinar umtalsverðar breytingar í för með sér á tekjum ríkissjóðs en einfaldar svolítið þessa flokkun. Ég held að hún komi líka að mörgu leyti réttlátar út. Það er þarna að vísu lítils háttar lækkun á efsta þrepinu sem ég held að hafi verið komin hærra en góðu hófi gegnir. Því verður ekki á móti mælt að við ákveðnar aðstæður varðandi tiltekin verkefni eða tiltekin svæði í landinu er tilhneigingin til þess að vera með stærri og þyngri tæki einfaldlega þess að aðstæður kalla á það og ég held að menn hafi verið komnir mjög hátt í skattlagningu á þessi þyngstu tæki, torfærubifreiðar og stórar og öflugar bifreiðar sem nauðsynlegar eru við tilteknar aðstæður.
    Þá vil ég sömuleiðis fagna því að það tókst samstaða um að leggja til breytingu sem heimilar að lækka vörugjaldið af leigubifreiðum í 30%. Það er í fyrsta lagi samræmingaratriði sem á fullan rétt á sér. Það er óeðlilegt að skattleggja atvinnutækin með mismunandi hætti. Með því er gert upp á milli þeirra og þeim mismunað og það er auðvitað aldrei af hinu góða eða réttlætanlegt.
    Það vantar að mínu mati fyrst og fremst eitt á til þess að gera þetta þannig að vel fari og það er að búa með einhverjum hætti út reglu sem kemur með sama hætti til móts við rekstur bílaleigubíla. Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með að þrátt fyrir að þetta bæri á góma þá náðist sú breyting ekki fram. Ég held að það sé ekki nokkur vafi á því að eitt af því sem stendur okkur Íslendingum beinlínis fyrir þrifum, t.d. í sambandi við uppbyggingu ferðaþjónustunnar, er óheyrilegt verð á bílaleigubílum sem gerir það að verkum að við erum úr leik í þeirri grein ferðaþjónustunnar sem vaxið hefur hvað hraðast víðast hvar í kringum okkur, þ.e. flétta saman ferðalög og hagstæð kjör á bílaleigubílum til ferða um viðkomandi lönd. Það þarf ekki að kynna það fyrir Íslendingum að þetta er sú tegund ferðalaga sem vaxið hefur langhraðast í sölu íslenskra ferðaskrifstofa á ferðum héðan til útlanda og er ferðamáti sem nýtur sífellt meiri vinsælda. Enda er undir hann ýtt með ýmsum ,,pósitífum`` aðgerðum stjórnvalda í nágrannalöndunum. Þar inn í hlýtur auðvitað að koma ekki síst innkaupsverðið á tækjunum, bílaleigubílunum. Það er með öllu óeðlilegt að ofan á mikinn rekstrarkostnað og stuttan nýtingartíma hér vegna árstíðabundinnar útgerðar í ferðaþjónustu að stærstum hluta skuli það bætast við að skattlagningin er síður en svo hliðholl þessum rekstri.
    Ég sætti mig hins vegar við að þetta náði ekki fram að ganga að þessu sinni og það bíður þá betri tíma, en vonandi ekki lengi, að taka á þessu máli. Ég vildi nota tækifærið til að koma þessu hér að og verð að segja alveg eins og er að mér finnst mönnum bera nokkur skylda til þess að taka á þessu máli og áskil mér allan rétt til að hreyfa við því áfram eða halda því á lofti hvort heldur er í efh.- og viðskn. eða annars staðar á næstu vikum og mánuðum.
    Það mun að vísu vera starfandi einhvers konar stjórnskipuð nefnd sem er að kanna samkeppnisskilyrði ferðaþjónustunnar og þar á meðal skattlagningu. Ef til vill er þess að vænta að eitthvað komi frá þeirri nefnd, m.a. í þessa veru. Þó verður að segja alveg eins og er að svör hæstv. samgrh. um það efni fyrir nokkrum dögum síðan voru ekki upplífgandi. En hæstv. ráðherra nánast lýsti því yfir að þess væri nú ekki að vænta eða að á því væru mjög litlar líkur að sú nefnd mundi skila nokkru sameiginlegu áliti sökum ágreinings fjmrn. og samgrn. um þetta mál. Það er auðvitað mjög bagalegt og má ekki standa okkur fyrir þrifum um ókomin ár. Ef menn ná ekki saman á þeim bæjum um svona atriði þá verður Alþingi sjálft einfaldlega að taka til sinna ráða. Ef pattstaða ríkir í þessum efnum innan hæstv. ríkisstjórnar og ekkert hefur bólað á því að hæstv. forsrh., sem þó getur stundum verið fljótur til og unnið nokkuð vasklega eins og nýframkomin dæmi sanna og rædd voru hér á fundinum fyrr í dag, aðhefst þá ekkert í krafti húsbóndavalds síns að úrskurða þegar deilur rísa milli ráðuneyta um ákveðin atriði.
    Að lokum tek ég undir það sem hv. 1. þm. Austurl. nefndi varðandi heimild í 2. tölul. 2. mgr. þar sem lagt er til að heimilað sé að taka sérstaklega á þessum gjaldmálum varðandi ökutæki á beltum, léttari ökutæki sem sérstaklega eru ætluð til flutninga við erfiðar aðstæður samkvæmt reglum sem um það yrðu

settar. Ég held að það sé alveg ljóst að þó svo það sé erfitt verkefni og ekki endilega auðvelt að útbúa heildarreglur sem taka á því hvenær þessi tæki eru jafnbráðnauðsynleg og raun ber vitni við vissar aðstæður og aftur hinu þegar nánast er um afþreyingar- eða leiktæki að ræða þá sé skylt að reyna það. Við verðum að treysta því að þarna verði settar reglur að bestu manna yfirsýn sem komi til móts við þann vilja sem í nefndinni ríkti og endurspeglast í þessari breytingu.
    Sömuleiðis í trausti þess að þetta verði gert og takist farsællega styð ég þetta frv. en vildi sérstaklega nota þetta tækifæri til að ítreka þann fyrirvara minn sem er stærstur og snýr að því að ekki tókst að ná fram breytingum varðandi bílaleigubifreiðarnar sem þarna hefðu þó sannarlega átt heima.