Atkvæðagreiðsla um frumvarp um Sementsverksmiðjuna

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 14:05:05 (6922)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að bæta miklu við þetta öðru en því að ég verð að segja það hreinskilnislega að ég tel að stjórn þingsins hafi ekki farið rétt að og ég bendi á það að ég tel það varla líklegt að forseti hefði látið þessa atkvæðagreiðslu fara fram ef hér hefði vantað 2 / 3 hluta af þingmönnum stjórnarflokkanna í salinn, en þannig var það með stjórnarandstöðuna að það vantaði nærri 2 / 3 . Það voru átta hér mættir í salnum ( ÖS: Hvar voru þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar? Við hefðum auðvitað beðið um frestun.) Ég ætla ekkert að afsaka það að menn báðu ekki um frestun. Það voru okkar mistök og ég sagði í upphafi að ég tel að þetta séu sameiginleg mistök okkar hérna. Það er ekki bara mistök forseta, það eru líka mistök okkar þingmanna allra að láta atkvæðagreiðslu sem þessa fara fram án þess að það sé staðið að henni á eðlilegan hátt hér í hv. Alþingi.