Sveitarstjórnarlög

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 14:15:10 (6929)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum. Efni frv., sem lýtur að sameiningu sveitarfélaga, er í samræmi við álit fulltrúaráðsfundar Sambands ísl. sveitarfélaga sem haldinn var 27. febr. og niðurstöðu sameiningarnefndar sveitarfélaga sem skilaði einróma áliti, en í henni áttu sæti fulltrúar allra stjórnmálaflokka og fulltrúar Sambands ísl. sveitarfélaga og Byggðastofnunar.
    Ég tel að segja megi að núverandi skipting landsins í sveitarfélög sé orðin mikil hindrun þess að unnt sé að gera þær skipulagsbreytingar sem óhjákvæmilegar eru ef við eigum að geta tryggt hagsæld íbúanna óháð því hvar þeir kjósa að búa á landinu. Nauðsynleg framþróun atvinnulífs og aukin verðmætasköpun til að standa undir velferðarþjónustunni og til að tryggja fólkinu öryggi og atvinnu kallar á umbætur í sveitarstjórnarmálum.
    Núverandi skipting landsins í sveitarfélög á sér hátt í þúsund ára sögu og er talið að hún hafi að mestu staðið óbreytt frá þjóðveldisöld. Rætur sveitarfélagaskipanarinnar liggja því í samfélagi sjálfsþurftarbúskaparins þar sem hver og einn var sjálfum sér nógur að mestu leyti. Meginviðfangsefni sveitarfélaga var að sinna framfærslu þeirra sem ættingjar gátu ekki séð um og ekki má gleyma fjallskilum eða eftirlitinu með fjármörkum.
    Ástæða er til að ítreka að sveitarfélagaskipanin sem við búum við í landinu í dag er sprottin af þessu bændasamfélagi sem er löngu liðið undir lok. Það gefur því auga leið að núverandi skipting sveitarfélaga samsvarar á engan hátt þeim þjóðfélagsveruleika sem við blasir í nútíðinni. Efnahagslíf nútímans krefst hreyfanlegs vinnuafls sem má ekki vera njörvað niður á þröngum atvinnusvæðum. Hagræðing í fiskveiðum og vinnslu krefst sérhæfingar fyrirtækjanna og samstarfs sem spannar mun stærra svæði en sveitarfélagaskipanin gerir ráð fyrir. Löndun á afla þarf að lúta hagkvæmnissjónarmiðum en má ekki ráðast af skammtímasjónarmiðum eins og tekjuöflun einstakra hafna. Atvinnureksturinn í landinu þarfnast oft mikilla fjárfestinga sem er mörgum smærri sveitarfélaganna ofviða. Fjárfestingar í undirstöðuatvinnugreinum mega ekki lúta einangruðum hagsmunum tiltekinnar byggðar án tillits til heildarhagsmuna á stærri svæðum. Þá er hætt við offjárfestingum, ofnýtingu auðlinda og óarðbærum rekstri sem kippir grundvellinum undan byggðinni.
    Við höfum orðið vitni að þeirri sóun sem öll þessi atriði lúta að. Vissulega er mikil offjárfesting

á höfuðborgarsvæðinu en fram hjá því verður ekki litið að offjárfesting í hafnargerð, fiskvinnslufyrirtækjum og fikiskipum eru sígild dæmi og eru að margra mati ein af ástæðum skuldsetningar þjóðarinnar sem við erum nú að súpa seyðið af. Þannig hefur það verið í hinum smæstu bæjarfélögum við sjávarsíðuna nauðsyn að eiga sína höfn, sinn togara og sitt frystihús. Möguleikar sveitarfélagsins til að mæta áföllum hafa nær engir verið sökum smæðar og takmarkaðrar fjárhagslegrar getu. Engu að síður hafa þó mörg sveitarfélög verið tilneydd til að leggja fram gífurlegt fjármagn og ábyrgðir löngu áður en til gjaldþrota hefur komið í þeirri von að takast mætti að vinna bug á erfiðleikunum.
    Ég tel að það sé óhjákvæmilegt að stækka sveitarfélögin til þess að treysta byggð í landinu. Með því skapast skilyrði fyrir markvissari fjárfestingu, aukinni sérhæfingu fyrirtækja, hagstæðari rekstraraðstæðum, öflugri vinnumarkaði og sterkari fjárhagslegum bakhjarli byggðanna.
    Einhæfni atvinnulífsins er eins og kunnugt er aðalvandamál margra byggðarlaga. Í raun er um vítahring að ræða. Smæð margra sveitarfélaganna hindrar að þau geti veitt íbúum sínum ýmsa þjónustu sem talin er sjálfsögð í nútímaþjóðfélagi. Skortur á þjónustu felur hins vegar í sér að ekki eru til störf í þjónustugreinum sem gætu laðað að fólk til búsetu í hinum dreifðu byggðum. Þannig hníga rök að því að einhæfni atvinnulífsins megi í verulegum mæli rekja til þess að sveitarfélögin eru of smá til að geta myndað sterkar þjónustuheildir. Þetta kemur víða fram, ekki síst á sviði félagslegarar þjónustu þar sem smæð sveitarfélaga kemur í veg fyrir að grundvöllur sé fyrir rekstri hennar. Víða um landið er því ekki að finna fullnægjandi félagsþjónustu sem fólkið hefur þörf fyrir og veldur því að það hefur leitað til höfuðborgarsvæðisins til að fá þörfum sínum mætt. Þetta má lesa úr Árbók Sambands ísl. sveitarfélaga fyrir árið 1991 þar sem kemur fram að útgjöld til félagsþjónustu eru að meðaltali ekki nema 3,6% rekstrargjalda hinna minni hreppa, 7% hjá stærri hreppum en 15% hjá kaupstöðum og yfir 24% í Reykjavík. Þetta hefur þau áhrif að einstakir þjóðfélagshópar, t.d. aldraðir sem eru háðir þjónustu, verða að taka sig upp oft og tíðum og flytja suður.
    Hagstofan hefur tekið saman upplýsingar um mannfjöldaþróun og búsetu með tilliti til aldurs sl. áratug eða árin 1981--1991. Samkvæmt þessum upplýsingum nam fjölgun aldraðra 65 ára og eldri í landinu öllu fyrstu fimm ár þessa tímabils tæplega 2.400 manns. Af þeirri aukningu var hlutur höfuðborgarsvæðisins á milli 1.600--1.700 manns en hefði einungis átt að vera á milli 1.300--1.400 ef tekið er mið af dreifingu mannfjöldans að öðru leyti. Á seinni hluta tímabilsins, 1986--1991, er þróunin enn ískyggilegri. Þá nemur fjölgunin alls rúmum 2.500 manns. Hlutur höfuðborgarsvæðisins er þá rúmlega 2.000 en ætti ekki að vera nema 1.400--1.500. Hlutur landsbyggðarinnar í aukningunni nemur 500 manns en ætti hins vegar að vera 1.000--1.100 manns. Á þessu 10 ára tímabili hefur því fjölgun 65 ára og eldri á landsbyggðinni verið alls 900--1.000 manns minni en búast hefði mátt við væri allt með felldu.
    Einn veigamesti þáttur þessa máls, að þjónustustarfsemi hefur ekki náð að skjóta rótum á landsbyggðinni eins og nauðsynlegt er, felst í því að sveitarstjórnirnar hafa ekki verið í stakk búnar til að sinna þeim stjórnsýsluverkefnum sem eðlilegt og hagkvæmt væri að þær hefðu ef þær hefðu til þess bolmagn. Þannig hefur ríkisvaldið stöðugt tekið að sér fleiri og fleiri ný stjórnsýsluverkefni og eflst og styrkst á meðan sveitarstjórnarstigið hefur veikst.
    Ég vil einnig nefna, virðulegur forseti, að í fyrrnefndir athugun Hagstofunnar kom í ljós að brottflutningur ungs fólks af landsbyggðinni er mjög mikill. Á árunum 1981--1986 var fækkun fólks á aldrinum 15--24 ára í landinu öllu sem nam rúmlega 1.800 manns, þar af voru um 1.500 af landsbyggðinni en ekki nema rúmlega 300 af höfuðborgarsvæðinu. Á seinni helmingi tímabilsins versnaði ástandið enn. Fækkun aldurshópsins í landinu öllu nam þá rúmlega 500 manns en fækkun þessa aldurshóps á landsbyggðinni var rúmlega 1.300 í stað 200 ef allt væri með felldu. Á höfuðborgarsvæðinu var hins vegar fjölgun í þessum aldurshópi um rúmlega 800 en hefði átt að vera fækkun miðað við eðlilegt hlutfall af fækkun einstaklinga í þessum árgöngum sem nemur tæplega 300. Þessar tölur segja okkur að landsbyggðin hefur misst 1.800--1.900 ungmenni til höfuðborgarsvæðisins umfram þá eðlilegu fækkun sem orðið hefur í þessum aldurshópi.
    Þegar ný sveitarstjórnarlög voru samþykkt árið 1986 voru sett ákvæði um að lágmarksíbúatala í sveitarfélagi væri 50. Síðan lögin voru sett harfa orðið 17 sameiningar sveitarfélaga þar sem sveitarfélögum hefur fækkað um 27 talsins. Í 114. gr. laganna frá 1986 segir að félmrn. geti að fenginni umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga sett almennar reglur þess efnis að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga veiti fjárhagslega aðstoð til þess að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga. Þær reglur voru settar 30. júní 1987. Í þeim kemur fram að sjóðurinn greiðir sveitarfélögum kostnað þeirra og aðkeypta vinnu við undirbúning og framkvæmd sameiningar. Einnig sérstakt framlag til að jafna rekstrar- og skuldastöðu sveitarfélaga við sameiningu og verulegan hluta af launum framkvæmdastjóra sem ráðinn er í kjölfar sameiningar. Þessar ráðstafanir einar og sér hafa m.a. leitt af sér sameiningu fimm sveitarfélaga.
    Í tíð síðustu ríkisstjórnar var ákveðið að skoða þá leið að stækka sveitarfélögin og í janúar 1991 skipaði ég nefnd til að gera samræmdar tillögur um æskilegar breytingar á skiptingu landsins í sveitarfélög. Í skipunarbréfi nefndarinnar sem sett var á fót í janúar 1991 var tekið fram að ekki skyldi einungis miða við einhverja lágmarksíbúatölu í sveitarfélagi heldur einnig að hvert sveitarfélag yrði eitt þjónustusvæði sem gæti myndað sæmilega sterka félagslega heild. Einnig var nefndinni ætlað að kanna hvort samstaða gæti náðst um slíkar hugmyndir og að gera tillögur um æskilega skiptingu landsins í sveitarfélög.

    Nefndin hélt fundi með langflestum sveitarstjórnum landsins og skilaði tillögum þann 1. okt. 1991. Þá um haustið var áfangaskýrsla nefndarinnar kynnt á fundum með sveitarstjórnum um allt land. Nefndin útfærði hugmyndir um þrjár mismunandi leiðir sem eru eftirfarandi:
    1. Sameining a.m.k. tveggja til fjögurra nágrannasveitarfélaga sem leiða mundi til myndunar tiltölulega fjölmennra sveitarfélaga með a.m.k. 500--1.000 íbúa. Fjöldi sveitarfélaga í landinu yrði 60--70 talsins. Aðeins í örfáum tilvikum þar sem strjálbýli er mikið mundi sveitarfélag hafa færri en 500 íbúa.
    2. Sameining allra sveitarfélaga innan héraðs eða sýslu. Sveitarfélögin mundu ná yfir mjög stór svæði og aðeins í undantekningartilvikum yrðu þau með færri en 1.000 íbúa. Sveitarfélögin í landinu yrðu þá 30--35.
    3. Engar opinberar aðgerðir sem þvinga eða hvetja til sameiningar sveitarfélaga yrðu gerðar en samstarf sveitarfélaga eflt innan héraðsnefnda og byggðasamlaga. Héraðsnefndir yrðu lögbundnar sem samstarfsnefndir sveitarfélaga.
    Nefndin taldi að leið þrjú mundi minnstum árangri skila af leiðunum þremur en gerði ekki upp á milli leiða eitt og tvö. Að loknum kynningarfundi nefndarinnar með sveitarstjórnarmönnum hélt Samband ísl. sveitarfélaga fulltrúaráðsfund þann 23. nóv. 1991. Á fundinum var samþykkt að lýsa yfir stuðningi við hugmynd um stækkun og eflingu sveitarfélaganna með sameiningu þeirra sem taki eins og kostur er mið af leið 2 eða þeirri leið sem lengst gekk. Jafnframt lýsti fundurinn yfir þeirri skoðun sinni að samhliða stækkun sveitarfélaga verði færð til þeirra ný og aukin verkefni og tekjustofnar endurskoðaðir og tryggðir í samræmi við það. Þar sem verkefni nefndar þeirrar sem skipuð var í janúar 1991 voru eingöngu bundin við tillögur um skiptingu landsins í sveitarfélög var ákveðið að skipa nýja nefnd með nýtt og aukið verksvið.
    Hinn 26. febr. 1992 var sveitarfélaganefnd skipuð. Hún vann næstu mánuði mjög ötullega og kallaði til fundar við sig fulltrúa ráðuneyta og hagsmunasamtaka og átti fund með sveitarstjórnum. Áfangaskýrsla nefndarinnar var lögð fram í október 1992. Þar voru settar fram hugmyndir um:
    Í fyrsta lagi breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélga, þ.e. tillögur um hvaða verkefni væri heppilegt að færa frá ríkinu til sveitarfélaga í kjölfar stækkunar þeirra, og tillögur um hreinni verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga en nú er.
    Í öðru lagi úrfærsla á tillögum um ný umdæmi sveitarfélaga, þ.e. tillögur um fyrirkomulag kosninga um ný umdæmi sveitarfélaga bæði á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu.
    Í þriðja lagi tillögur varðandi tekjustofna sveitarfélaga, þ.e. tillögur um auknar tekjur til að standa undir auknum verkefnum.
    Í fjórða lagi almennar aðgerðir ríkisvaldsins í tengslum við sameiningu sveitarfélaga, þ.e. tillögur í atvinnumálum, vegamálum og um breytingar á umboðsvaldi ríkis í héraði.
    Í fimmta lagi tillögur um reynslusveitarfélög.
    Að loknum kynningarfundi með sveitarstjórnarmönnum um land allt bárust nefndinni ályktanir margra sveitarstjórna og samtaka þeirra. Samband ísl. sveitarfélaga óskaði eftir því við landshlutasamtök sveitarfélaga að þau könnuðu hug sveitarstjórna á sínu svæði og sendu frá sér álitsgerð um málið til undirbúnings fyrir fund fulltrúaráðs þess sem haldinn var 26. og 27. febr. sl. Fulltrúaráðið samþykkti að fengnum umsögnum og álitsgerðum sveitarstjórna og samtaka þeirra ályktun varðandi áfangaskýrsluna en þar segir m.a.:
    ,,Fulltrúaráðsfundur telur að brýna nauðsyn beri til þess að efla sveitarfélögin og sveitarstjórnarstigið með sameiningu sveitarfélaga. Þannig geta sveitarfélög enn betur sinnt margþættu hlutverki sem þau hafa nú á hendi og verið jafnframt hæfari til að taka við fleiri verkefnum eins og áfangaskýrslan gerir ráð fyrir. Fulltrúaráðið samþykkir að áfram verði unnið að eflingu og stækkun sveitarfélaganna. Í því skyni verði tekið á eftirtöldum atriðum:
    Í fyrsta lagi að komið verði á fót sérstökum umdæmanefndum í landshlutum er leggi fram tillögur um skiptingu umdæmisins í sveitarfélög að teknu tillit til skoðana sveitastjórna og íbúa svæðisins. Umdæmanefndirnar sjá um kynningu og kosningu um tillögurnar í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir.
    Í öðru lagi verði skipuð yfirumdæmanefnd sem hafi á hendi eftirlit og samræmingu með störfum umdæmanefnda og aðstoði þær í störfum þeirra.
    Í þriðja lagi verði kosið um sameiningu sveitarfélaga í hverju sveitarfélagi fyrir sig nema samkomulag náist um annað. Lagt er til að lögum verði breytt þannig að einfaldur meiri hluti greiddra atkvæða ráði úrslitum kosninga.
    Í fjórða lagi verði á næsta landsþingi sambandsins tekin afstaða til þess hvort lágmarksíbúatala í hverju sveitarfélagi skuli hækkuð.
    Í fimmta lagi verði unnið að stofnun reynslusveitarfélaga skv. XXII. kafla áfangaskýrslunnar. Á vorþingi 1993 verði sveitarstjórnarlögum breytt og bætt inn ákvæðum um reynslusveitarfélög.
    Fulltrúaráðið telur brýnt að sameining sveitarfélaga gangi hratt og vel þannig að sveitarfélögin geti sem fyrst tekið við auknum verkefnum frá ríkinu.
    Fulltrúaráðið hafnar að svo stöddu hugmyndum um að skipta sveitarfélögunum í tvo flokka hvað varðar verkefnatilfærslu og telur að sömu verkaskiptareglur eigi að gilda fyrir öll sveitarfélög, annað muni leiða til frekara misvægis í þjónustu við íbúa landsins en nú er.``

    Þá samþykkti fulltrúaráðið einnig ályktun um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, en þar segir m.a.:
    ,,Fulltrúaráð Sambands ísl. sveitarfélaga áréttar fyrri samþykktir um mikilvægi þess að efla sveitarstjórnarstigið með því að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga. Þannig nýtist best frumkvæði og ábyrgð heimamanna til að fara með stjórn þeirra mála sem eðlilegt er að leysa í héraði. Jafnframt væri þar með lagður traustari grunnur að skilvirkum ákvörðunum á sviði opinberrar stjórnsýslu enda verður að ætla að ráðstöfun fjár til staðbundinnar opinberrar þjónustu sé almennt betur komin í höndum þeirra aðila sem þjónustunnar eiga að njóta.``
    Enn fremur sagði í samþykkt fulltrúaráðsins:
    ,,Fulltrúaráðið telur að með áfangaskýrslu sveitarfélaganefndar um aukið hlutverk sveitarfélaganna og með kynningarfundum um land allt hafi góður grunnur verið lagður að samræmdum tillögum sveitarstjórnarmanna um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga.
    Fulltrúaráðið telur rétt að fela sveitarfélögunum að fullu rekstur grunnskóla og heilsugæslustöðva svo og yfirtöku verkefna á sviði málefna fatlaðra og aldraðra. Jafnframt tekur fulltrúaráðið undir aðrar þær hugmyndir um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem settar eru fram í áfangaskýrslunni og lúta að því að gera núverandi verkaskiptingu skýrari og einfaldari.``
    Virðulegi forseti. Umdæmi sveitarfélaga voru mótuð á tímum þegar allt aðrar aðstæður voru í landinu en nú. Byggðin í landinu hefur gjörbreyst á þessari öld, bylting orðið í samgöngum og atvinnuháttum og kröfur til samfélagsins um sameiginlega velferðarþjónustu eru allt aðrar. Í flestum nágrannalöndunum var gert átak í sameiningu sveitarfélaga fyrir 20--30 árum síðan. Mat á heppilegri stærð sveitarfélaganna byggist á tveimur ólíkum mælikvörðum. Annars vegar þarf lágmarksíbúafjölda í hverju sveitarfélagi til að standa undir lögbundnum verkefnum og kröfum íbúanna. Hins vegar er hámarksstærð hvers svæðis þar sem hægt er með góðu móti að mynda eitt sveitarfélag.
    Almennt má segja að sveitarfélög sem hafa færri en um það bil 400--500 íbúa verði að leysa mörg verkefni sín með samstarfi við nágrannasveitarfélög. Reynslan sýnir að sveitarfélög þurfa að hafa a.m.k. 800--1.000 íbúa til að geta staðið fyrir rekstri og uppfyllt kröfur löggjafans um margvíslega þjónustu við íbúana. Einnig er æskilegt að sveitarfélög séu af þessari stærð til þess að geta staðið sjálf undir kostnaði við sorpeyðingu og byggingu hafna, gatnakerfis, holræsa og vatnsveitna þannig að nútímakröfur séu uppfylltar. Til þess að sveitarfélög geti tekið við nýjum verkefnum í einhverjum mæli er æskilegt að þau hafi a.m.k. 800--1.000 íbúa. Mikilvægt er einnig að sveitarfélög nái yfir heilleg þjónustu- og skipulagssvæði og að í hverju sveitarfélagi sé þjónustukjarni, einn eða fleiri.
    Virðulegi forseti. Í því frv. sem hér er til umfjöllunar eru lagðar til breytingar á sveitarstjórnarlögum þess efnis að við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða sem felur í sér skipan umdæmanefnda um allt land sem geri tillögur um nýja skiptingu landsins í sveitarfélög og ákvæði til bráðabirgða einnig um fyrirkomulag atkvæðagreiðslu í öllum sveitarfélögum landsins um þær tillögur og hvernig með skuli farið. Að höfðu samráði við samtök sveitarfélaga hefur sveitarfélaganefnd í lokaskýrslu sinni lagt til að settar verði á fót umdæmanefndir í öllum landshlutum sem geri fyrir 15. sept. 1993 tillögur að nýrri skiptingu landshluta í sveitarfélög sem greidd verði atkvæði um samtímis í hverjum landshluta. Er það efni þessa frv. sem hér er til umræðu. Um atkvæðagreiðslu fari eftir ákvæðum III. kafla laganna eftir því sem við á og að meiri hluta greiddra atkvæða þurfi til að tillaga um sameiningu teljist samþykkt. Umræðum í sveitarstjórnum skuli lokið innan 6 vikna frá því að tillaga var sett fram og atkvæðagreiðslu um hana skal lokið innan 10 vikna. Hljóti tillaga ekki samþykki í öllum hlutaðeigandi sveitarfélögum en í a.m.k. 2 / 3 þeirra er viðkomandi sveitarstjórnum heimilt að ákveða sameiningu þeirra sveitarfélaga, enda hamli ekki landfræðilegar aðstæður. Verði niðurstaða atkvæðagreiðslunnar sú að sameining nái ekki fram að ganga og umdæmanefnd telji að vilji íbúanna standi til annars konar sameiningar er henni heimilt að leggja fram nýjar tillögur fyrir 15. jan. 1994 og gilda sömu tímamörk um umræður og atkvæðagreiðslu. Umdæmanefndirnar ljúki störfum í seinasta lagi 31. mars 1994, en þá falli bráðabirgðaákvæðin úr gildi.
    Sveitarfélaganefnd leggur til að sett verði á fót samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaga sem skal vera umdæmanefnd til ráðuneytis í störfum sínum. Að loknu starfi umdæmanefndar 1. apríl 1994 er lagt til að samráðsnefnd hefji undirbúning að tillögugerð um frekari framvindu málsins. Skal samráðsnefnd skila tillögum sínum eigi síðar en 1. ágúst 1994 svo að tími vinnist til að kynna tillögurnar fyrir sveitarstjórnum fyrir landsþing. Að loknu landsþingi skal samráðsnefndin leggja endanlegar tillögur fyrir ráðherra.
    Virðulegi forseti. Ef Ísland væri skipt í færri og stærri sveitarfélög yrðu þau mun betur í stakk búin til að standa undir þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar varðandi þjónustu er þau veita íbúunum. Skilyrði mundu skapast fyrir hreinni verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga en nú er og þau gætu tekið við auknum verkefnum af ríkisvaldinu. Sveitarfélögin næðu í flestum tilfellum yfir heildstæð þjónustusvæði, stjórnunarkostnaður þeirra lækkaði og hagkvæmni í fjárfestingum og rekstri ykist að líkindum verulega. Stjórnsýsla sveitarfélaganna yrði mun einfaldari í sniðum en nú er og atvinnusvæði stækkuð. Átak í sameiningu sveitarfélaga í samstarfi við samtök þeirra er því eitt brýnasta verkefni stjórnsýslunnar í dag.
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta frv. Ég vil í lokin fagna því hve góð og breið samstaða náðist um þá niðurstöðu sem hér er kynnt í formi frv. um breytingu á sveitarstjórnarlögum og um þá samstöðu sem náðist milli fulltrúa allra stjórnmálaflokka, Sambands sveitarfélaga og sveitarstjórnanna almennt um þessa niðurstöðu sem hér er fengin. Ég vænti þess að þó að skammt lifi af þessu þingi fái þetta frv. afgreiðslu fyrir vorið áður en þingi verður slitið. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.