Sveitarstjórnarlög

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 15:14:18 (6932)

     Guðjón Guðmundsson :
    Herra forseti. Eins og fram kemur í athugasemdum með þessu frv. er það í öllum aðalatriðum byggt á tillögum sveitarfélaganefndar sem hæstv. félmrh. skipaði í febrúar 1992, en nefndin hefur nýlega lokið störfum og skilað lokaskýrslu sem allir nefndarmenn standa að. Ég vil taka undir það sem hv. þm. Jón Kristjánsson sagði í ræðu sinni um starf sveitarfélaganefndar og þann ágæta samstarfsvilja sem þar ríkti, en nefndin var skipuð sex fulltrúum skipuðum af þingflokkunum, þremur fulltrúum frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, fulltrúa Byggðastofnunar og formanni sem skipaður var af hæstv. félmrh. Andinn í þessu nefndastarfi var mjög góður og allir nefndarmenn lögðust á eitt til að ná sameiginlegri niðurstöðu. Í erindisbréfi sveitarfélaganefndar er henni gert að útfæra nánar tillögur um ný umdæmi sveitarfélaga er tækju eins og kostur er mið af svokallaðri leið tvö í tillögum nefndar um skiptingu landsins í sveitarfélög frá árinu 1991 og að vinna tillögur um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í tengslum við stækkun og eflingu sveitarfélaga og tillögur um hvernig auka megi tekjur þeirra til að standa undir auknum verkefnum.
    Ástæða þess að hæstv. félmrh. lagði svo mikla áherslu á leið tvö var eflaust sú að fulltrúaráð Sambands ísl. sveitarfélaga hafði samþykkt með aðeins tveimur mótatkvæðum að sú leið skyldi farin, en þessi leið gerði ráð fyrir mjög róttækri breytingu á skipan sveitarfélaga í landinu með sameiningu sveitarfélaga innan heilla héraða þannig að öll sveitarfélög innan sama þjónustusvæðis mundu sameinast. Sveitarfélögin í landinu hefðu þá orðið um það bil 25--28 í stað 200 eins og nú er. Sveitarfélög hefðu a.m.k. þúsund íbúa með einni eða tveimur undantekningum þar sem fjarlægðir yrðu miklar innan hins nýja sveitarfélags. Það var álitið að ef þessi leið yrði farin yrðu sveitarfélögin betur í stakk búin til að standa undir þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar varðandi þjónustu sem þau veita íbúunum.
    Við sem skipuðum sveitarfélaganefnd urðum fljótlega sammála um að þessi leið væri ekki fær, m.a. vegna mjög mikillar andstöðu við hana hjá sveitarstjórnarmönnum vítt og breitt um landið. Það virtist mjög almenn skoðun að þetta væri allt of stórt stökk og eins var áberandi að mörgum þótti illt að heimamenn fengju ekki að vera með í tillögugerð, allt kæmi ofan frá. Það varð því samkomulag um það í sveitarfélaganefnd að færa tillögugerðina heim í hérað og að skipaðar yrðu umdæmanefndir heimamanna og þessar nefndir sem verða kosnar af landshlutasamtökunum geri fyrir 15. sept. nk. tillögu að skiptingu landsins í sveitarfélög. Um þessa tillögu kjósi íbúar viðkomandi landshluta síðan innan 10 vikna og kosning fari samtímis fram í hverjum landshluta. Það er mín skoðun að þetta sé góð leið. Þarna er ákvarðanatakan færð alfarið í hendur heimamanna sem er jú það sem fólk vill. Eina kvöðin sem þessu fylgir er sú að alls staðar verði kosið um niðurstöður umdæmanefnda, að íbúar hvers landshluta fái að segja álit sitt á sameiningu sveitarfélaga fyrir næstu áramót. Ég held að það sé nauðsynlegt að ganga úr skugga um afstöðu fólksins til þessara mála. Ef vilji heimamanna stendur ekki til þess að taka stór skref í sameiningarmálum verða stjórnvöld að sætta sig við það að þessi þróun taki lengri tíma.
    Við sem störfuðum í sveitarfélaganefnd hittum mikinn fjölda sveitarstjórnarmanna víða um land. Nefndin hélt um 20 kynningarfundi þar sem nefndarmenn skiptust á um að sækja þessa fundi með formanni nefndarinnar, Sigfúsi Jónssyni, sem hefur lagt í þetta starf mikla orku og unnið að mínu áliti mjög gott starf. Á þessum fundum og eins í viðtölum við fólk utan funda kom það berlega í ljós hvað þetta er viðkvæmt mál því að þannig er nú farið með flesta að þeir hafa sterkar taugar til síns sveitarfélags og vilja veg þess sem mestan. Margir virtust óttast að með sameiningu og stækkun sveitarfélaga verði þau ópersónulegri og að valdið fjarlægist fólkið. Á móti er svo bent á það að möguleikar sveitarfélaganna til að veita þá þjónustu sem fólk vill fá í nútímaþjóðfélagi aukast til muna þegar sveitarfélögin stækka. Ýmis fleiri rök tína menn til, með og á móti sameiningu sem ég ætla ekki að telja upp hér en þessi rök verður fólkið í landinu að vega og meta áður en það gengur til kosninga um þessi mál eftir nokkra mánuði.
    Sú mikla tilfærsla sem orðið hefur á fólki undanfarna áratugi kallar auðvitað á endurskoðun og skipan sveitarfélaga í landinu. Það hafa átt sér stað gríðarlegir fólksflutningar úr dreifbýli í þéttbýli sem hefur leitt til þess að mörg seitarfélög í dreifbýlinu eru orðin mjög fámenn og sum hafa reyndar orðið að sameinast nágrannasveitarfélögunum nauðug viljug vegna þess að íbúafjöldinn hefur verið kominn niður fyrir 50. Fjölmörg sveitarfélög eru mjög fámenn sem sést af því að í árslok 1990 voru 47 sveitarfélög með færri en 100 íbúa og 57 sveitarfélög með 100--200 íbúa. Það er því rúmur helmingur þeirra 200 sveitarfélaga sem er á Íslandi í dag með færri en 200 íbúa.
    Sveitarfélaganefnd ræddi ítarlega um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga en ákveðið var að setja ekki fram fastmótaðar tillögur um tilflutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga í þessari skýrslu. Í skýrslunni er þó að finna mjög ítarlegan kafla um þau mál þar sem nefndin setur fram þau markmið um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga að í fyrsta lagi skuli verkaskiptingin vera skýr og hver málaflokkur heyra eftir því sem kostur er aðeins undir einn aðila þannig að saman fari frumkvæði, framkvæmd og fjárhagsleg ábyrgð á stofnkostnaði og rekstri. Og í öðru lagi að sveitarfélögin skuli einkum hafa með höndum staðbundin verkefni en ríkisvaldið annast verkefni sem hagkvæmara er að leysa á landsvísu. Á það er bent að sveitarfélögin eru mjög misjafnlega í stakk búin til að sinna þeim verkefnum sem þeim ber samkvæmt lögum vegna mismunandi stærðar. Einnig að sameiginleg þátttaka ríkis og sveitarfélaga innan sama málaflokks veldur því gjarnan að mismunandi sjónarmið eru uppi og pólitískar áherslur mismiklar eftir því hvor aðilinn á í hlut.
    Samanburður á verkefnum sveitarfélaga á Norðurlöndum sýnir að þau eru langminnst á Íslandi. Grunnskólarnir eru t.d. alls staðar verkefni sveitarfélaga nema hér á landi. Þessi samanburður sýnir að hlutfall sveitarstjórna í samneyslu er aðeins 4,3% hér á landi en frá 14,6% og upp í 21,8% á hinum Norðurlöndunum. Það er engin spurning að ef það tekst að stækka sveitarfélögin með sameiningu þá mun í kjölfarið fylgja verulegur tilflutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga.
    Skoðanir sveitarstjórnarmanna á verkaskiptingunni eru nokkuð misjafnar og ráðast mjög af stærð sveitarstjórna. Það er verulegur áhugi á auknum verkefnum í stærri sveitarfélögunum en nokkur ótti í þeim fámennari þar sem menn sjá ekki fram á að sveitarfélagið ráði við stærri verkefni. Fulltrúaráðsfundur Sambands ísl. sveitarfélaga ályktaði um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga á fundi sínum í febrúar sl. en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Fulltrúaráðið telur að með áfangaskýrslu sveitarfélaganefndar um aukið hlutverk sveitarfélaga og með kynningarfundum um land allt hafi góður grunnur verið lagður að samræmdum tillögum sveitarstjórnarmanna um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Fulltrúaráðið telur rétt að fela sveitarfélögunum að fullu rekstur grunnskóla og heilsugæslustöðva, svo og yfirtöku verkefna á sviði málefna fatlaðra og aldraðra.``
    Í skýrslu sveitarfélaganefndar er lagt til að félmrn., menntmrn., fjmrn., samtök kennara og Samband ísl. sveitarfélaga undirbúi tillögur sem miði að því að rekstur grunnskóla flytjist að fullu yfir til sveitarfélaga frá og með 1. ágúst 1995. Þá leggur nefndin til að stofnað verði til allt að fimm reynslusveitarfélaga og að ákveðin verkefni sem nú eru verkefni ríkisins eða samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga verði flutt yfir til þeirra. Einnig verði felldar niður á reynslusveitarfélögunum ýmsar kvaðir sem lagðar eru á sveitarfélög með lögum og reglugerðum. Með þessu fær ríkisvaldið tækifæri til að gera tilraun með breytta starfshætti í þeim málaflokkum sem reynslusveitarfélögin taka að sér, en gert er ráð fyrir að þessi tilraun standi frá því í ársbyrjun 1995 til ársloka 1998.
    Þar sem hér er um annað þingmál að ræða en nú er á dagskrá ætla ég ekki að fara fleiri orðum um reynslusveitarfélögin. Þau verða á dagskrá hér á eftir en ég tel að þar sé um mjög áhugaverða tilraun að ræða.
    Hæstv. forseti. Ég tel það eitt brýnasta hagsmunamál landsbyggðarinnar að efla sveitarstjórnarstigið. Liður í því er tvímælalaust stækkun sveitarfélaganna til að þau geti veitt íbúum sínum sem besta þjónustu. Ein höfuðforsenda þess að stækkun sveitarfélaga geti leitt til bættrar þjónustu við íbúanna er tvímælalaust að samgöngur verði greiðari innan hinna stóru sveitarfélaga. Greiðar samgöngur skapa betri grundvöll fyrir rekstur ýmissar þjónustu við íbúana og gerir hana aðgengilegri jafnframt því sem greiðar

samgöngur leiða til þess að íbúarnir geti sótt atvinnu um lengri veg.
    Ég vil að lokum segja það að ég tel það góða niðurstöðu sveitarfélaganefndar, sem hæstv. félmrh. hefur með þessu frv. gert að sinni, að færa tillögugerð og ákvarðanatöku varðandi sameiningu sveitarfélaga í hendur heimamanna í hverjum landshluta. Það held ég að skili þeirri niðurstöðu sem fólkið í landinu muni best sætta sig við.