Sveitarstjórnarlög

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 16:30:50 (6935)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Hér er komið að máli sem hefur verið mjög mikið í umræðunni úti í sveitarfélögunum og þó að þetta mál hafi ekki verið hér á dagskrá þingsins svo mjög enn þá, þá fer það ekkert á milli mála að hér er um að ræða eitt af stóru ákvörðunaratriðunum sem örugglega á eftir að koma nokkuð til umræðu í þinginu, bæði í félmn. og einnig væntanlega við 2. umr. þess máls, enda hefur það komið fram fyrr í umræðunni að menn hafa ætlað sér að bíða nokkuð umfjöllunar hv. félmn. áður en þeir tjá sig ítarlega um þessi mál.
    Það sem auðvitað liggur hér að baki hugmyndinni um það að breyta sveitarstjórnarlögunum til þess að auðvelda sameiningu sveitarfélaga er auðvitað sú meginhugsun að úti í sveitarfélögunum sjálfum er vaxandi krafa um aukna þjónustu af öllu tagi. Þessa kröfu sjáum við bæði á sviði skólamála, dagvistarmála og margra annarra þeirra málaflokka sem sveitarfélögin hafa með að gera en einnig ýmissa annarra málaflokka sem hingað til hafa verið á hendi ríkisvaldsins en ekki hefur verið hægt að flytja til sveitarfélaganna vegna smæðar þeirra og þess hversu veikburða mörg þeirra eru. Það hefur komið fram að býsna stór hluti sveitarfélaganna telur innan við 200 íbúa og það gefur auðvitað auga leið að marga þá þjónustu sem nú þykir eðlileg í nútímasamfélagi er ekki hægt að veita á vettvangi þessara litlu sveitarfélaga. Um leið og samgöngur aukast og ferðalög fólks um landið aukast og fólk fer oftar til náms vítt og breitt um landið þá er það auðvitað þannig að krafa fólks um það að hafa sem líkasta þjónustu vex og þess vegna er það ekki óeðlilegt, öllu heldur er það mjög skiljanlegt og sjálfsagt, að sú krafa komi upp að sveitarfélögin geti verið í færum til þess að auka sína þjónustu. Hið rökrétta framhald þess er auðvitað það að sveitarfélög hafa sameinast og sú þróun hefur auðvitað átt sér stað á síðustu árum, m.a. mjög á Vestfjörðum og hún mun auðvitað aukast og ég lít þannig á að það frv. til laga sem við erum hér að fjalla um sé í raun og veru svar við þessari þróun, inngrip í þessa þróun og til þess gerð að auðvelda það að þessi sameining geti átt sér stað.
    Það er auðvitað þannig að það hefur mjög margt breyst í okkar þjóðfélagi sem gerir það að verkum að sameining sveitarfélaganna er eðlileg. Í fyrsta lagi, eins og margoft hefur komið fram í þessari umræðu og hæstv. félmrh. rakti, þá hafa fólksflutningar hér innan lands orðið til þess að ýmis sveitarfélög eru fámenn og þess vegna kallar það eitt og sér á sameiningu. Í annan stað hitt, sem auðvitað skiptir mjög miklu máli og það er að vegasamband milli landshluta og milli sveitarfélaga hefur gjörbreyst og stórbatnað. Það sem einu sinni þótti eðlilegt af landfræðilegum ástæðum að skipta niður sveitarfélögum í minni einingar, þær forsendur eru ekki til staðar í dag vegna þess að sveitarfélögin hafa tengst með betri samgöngum.
    Loks er það atriði sem ég hef ekki heyrt minnst á í þessari umræðu en ég held að skipti mjög miklu máli, a.m.k. er það mín reynsla af starfi í sveitarstjórnarmálum sem ég hef haft, að vísu ekki innan sveitarstjórna heldur í ýmsum nefndum á vegum sveitarstjórna, og það er að ég held að stjórnskipulag sveitarfélaganna sjálfra sé á margan hátt orðið gamaldags, úrelt og mjög þungt í vöfum. Sannleikurinn er sá að mörg þessara sveitarfélaga sem telja kannski innan við þúsund íbúa og margir þessir kaupstaðir sem eru með á milli eitt þúsund og tvö þúsund íbúa, eru byggðir upp stjórnsýslulega eins og um væri að ræða hér um bil stórborg. Þar er bæði um að ræða óteljandi nefndir sem út af fyrir sig þarf ekki að vera mjög slæmt nema að því leytinu að auðvitað gerir það stjórnskipulagið allt miklu þyngra í vöfum. Síðan eru hreppsráð og hreppsnefndir. Auðvitað er þetta óskaplega þungt í vöfum og jafnvel hin smæstu mál hafa menn orðið að taka inn í þennan feril og það allt saman gert þetta ákaflega þungt í vöfum. Þetta eitt út af fyrir sig tel ég vera ærið mikil rök fyrir því að breyta sveitarfélögunum með þeim hætti sem hér er verið að leggja til, með öðrum orðum að stækka þau, en að þar komi engin þvingun til.
    Þetta er, eins og fram hefur komið í þessari umræðu, býsna viðkvæmt mál. Í mörgum sveitarstjórnum líta menn hér um bil á það sem helgispjöll að tala um að leggja niður eitthvert lítið sveitarfélag. Einu sinni fór fram umræða um þetta vestur við Djúp og ég hef stundum vitnað til þess að þá sagði einn ágætur maður þar að það yrði helsti gallinn við það að sameina sveitarfélögin við Djúp að mannvirðingarmönnum við Ísafjarðardjúp mundi fækka. Mig grunar einhvern veginn að þegar allt kemur til alls þá hafi þetta sjónarmið, sem þarna var sett fram í gríni, dálítið vægi í umræðunni. (Gripið fram í.) Nú hefur hæstv. heilbrrh. upplýst mig um það að þetta hafi verið sagt í fúlustu alvöru og ekki dreg ég þær upplýsingar hans í efa.
    Það sem hefur tafið þessa umræðu er auðvitað það að menn hafa verið haldnir þeirri grillu að það hafi verið ásetningurinn á einhverjum tímapunkti að þvinga sveitarfélög til sameiningar. Ég kannast ekki við það að ef maður les t.d. skýrslu sveitarfélaganefndar, skýrsluna sem kom út á þessum vetri, þá sé hægt að lesa út úr henni tilraun til lögþvingunar á stækkun sveitarfélaga. Ég held að það sé útúrsnúningur og rangt, röng túlkun á starfi þeirrar nefndar. Og með því frv. sem hér er lagt fram eru auðvitað tekin af öll tvímæli um að það er ekki verið að ætla sér að þvinga sveitarfélög til sameiningar, þvert á móti er einmitt gert ráð fyrir því að það séu stjórnir landshlutasamtakanna úti í héruðunum sem skipi umdæmanefndirnar, kjósi umdæmanefndirnar sem hafi með þessi mál að gera. Áður en til þess komi að taka ákvörðun um þetta er auðvitað ljóst að íbúarnir verða spurðir álits og þess vegna held ég að eitt af því mikilvæga sem fylgir þessu frv. sé nákvæmlega það að verið er að eyða þeim ótta sem vissulega var fyrir hendi um að það ætti að þvinga sveitarfélög til sameiningar.
    Ég held að forsendan fyrir því að sveitarfélögin nái að sameinast og það skapist friður um það sé sú að hægt sé að eyða þeim ótta sem nú er fyrir hendi, sérstaklega í minni sveitarfélögunum um það að að sameining muni leiða til þess að hin stærri muni gleypa hin minni. Ég vil láta það koma fram sem mitt sjónarmið í þessum efnum að ég tel að samhliða því þegar menn fara að tala um það að sameina sveitarfélög, eins og hæstv. félmrh. hefur gert, í því skyni að færa vald út til byggðanna, þá verði að gæta þess að skipa þeim málum með þeim hætti að þau minni sveitarfélög sem ætli sér að sameinast hinum stærri fái það ekki á tilfinninguna að allt vald verði síðan dregið frá þeim til stóra sveitarfélagsins. Litlu sveitarfélögin verði þess vegna svona lítils virði og skipti mjög litlu máli í hinu nýja sveitarfélagi. Ég held að það hafi verið allt of rík tilhneiging hjá ríkisvaldinu þegar fluttar hafa verið stofnanir út á land að horfa alltaf til þess að þessi þjónusta kæmi niður bara hjá stóra sveitarfélaginu þó vel megi koma þeirri þjónustu fyrir hjá minni sveitarfélögum líka vegna þess að alls konar fjarskipti og samgöngur hafa verið að batna og þess vegna er auðvitað alveg fullkomin ástæða til þess að dreifa þessari þjónustu á sveitarfélögin.
    Annað sem ég held að sé nauðsynlegt að hafa í huga og hæstv. félmrh. þyrfti að tjá sig um, þó það verði ekki fyrr en við 2. umr. þessa máls. Þannig er að mörg sveitarfélög hafa af því nokkurn beyg varðandi sameininguna að þau eru mjög misjafnlega fjárhagslega á vegi stödd. Auðvitað þarf það að liggja mjög vel fyrir hvernig með þau mál verður farið í því uppgjöri sem óhjákvæmilegt er þegar til sameiningarinnar kemur.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að halda langa ræðu við þessa umræðu, það gefst tækifæri til þess að fjalla um málið í félmn. og við 2. umr. Ég vil aðeins leggja áherslu á það að sameining sveitarfélaga er ekki gerð fyrir ríkisvaldið, hún er gerð fyrir íbúa sveitarfélaganna og fyrir sveitarfélögin sjálf til þess að gera þau betur í stakk búin til þess að sinna þeirri þjónustu sem nauðsynleg er og íbúarnir kalla eftir. Ég nefndi það áðan og ég tel að það sé aðalatriði að ástæða sameiningar sveitarfélaga er sú að menn vilja auka þjónustuna úti í byggðunum og vilja bæta þjónustuna hjá fólkinu sjálfu og þess vegna verði menn að átta sig á því að markmiðið með sameiningu sveitarfélaga er ekki það að gera þetta fyrir ríkisvaldið, eins og stundum hefur örlað á, heldur fyrir sveitarfélögin sem úti á landi eru og fyrir íbúana sem þar eru til þess að bæta þeirra þjónustu og til hagsbóta fyrir alla heimamenn.