Sveitarstjórnarlög

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 16:40:34 (6936)

     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég kem hér til þess að lýsa stuðningi við meginmarkmið þessa frv. en eins og kemur fram í athugasemdum við frv. er það að láta á það reyna í sem flestum sveitarfélögum hver afstaða almennings er til sameiningar sveitarfélaga. Ég held að sú vinna sem unnin hefur verið í nefndum að undirbúningi þessarar sameiningar sé um margt mjög góð og tek undir þá skoðun að við þurfum að sameina fleiri sveitarfélög til þess að bæta þar þjónustu. Hins vegar er kannski eitt og annað sem ég vildi gera athugasemdir við sem er í frv. og kem ég að því síðar.
    Það má segja að á Vestfjörðum höfum við verið eins konar brautryðjendur í sameiningu sveitarfélaga því á sínum tíma, árið 1971, sameinuðust Ísafjörður og Hnífsdalur og á þeim tíma sem liðinn er síðan, það var ég að taka saman, hafa 17 sveitarfélög sameinast og eru þau 7 núna þannig að á Vestfjörðum hefur verið mikið átak gert í þessu, þó að vissulega þurfi að gera miklum mun betur, og ástæðan er fyrst og fremst sú að íbúum fækkar þarna og erfitt er um þjónustu fyrir lítil sveitarfélög.
    Um og upp úr síðustu aldamótum var reyndar allt annað á döfinni. Það sem var þá að gerast í sveitarfélagamálum fyrir vestan a.m.k. og ég býst við víðar á landinu var skipting sveitarfélaga. Þá urðu til þéttbýliskjarnar sem greindust frá meginsveitinni, höfðu aðrar þarfir og önnur viðhorf og þar var stofnað nýtt sveitarfélag oft rétt aðeins í kringum þéttbýlið. Ég nefni t.d. Flateyri úr Mosvallahreppi, Patreksfjörð sem stofnaður var úr Rauðasandshreppi, Hólmavík úr Hrófbergshreppi. Þetta er í rauninni hlutur sem nú tæpri öld síðar er að ganga til baka og sveitirnar sem þá voru tiltölulega sterkar til þess að sinna sínu hlutverki eru orðnar veikari núna og það er þéttbýliskjarninn sem líka er orðinn landlaus í mörgum tilvikum þannig að þessi þróun er á leið í hina áttina núna.
    Það er ekki bara að það sé verið að sameina sveitarfélög, það er reyndar verið að gera fleira. Það er verið að breyta þessum sveitarfélögum, sem við nefndum svo, til annarrar skipunar. Það eru þó nokkuð önnur markmið sem reynt er að ná fram enda sýnt að sveitarfélag, sem spannar yfir vegalengd sem getur kannski skipt hundruðum kílómetra frá einum enda til annars, er ekki alveg undir sömu lögmál sett og hrepparnir voru áður á þeim tíma sem sú skipan var á sett sem hefur haldist um langt skeið í íslensku stjórnarfari.
    Hins vegar get ég ekki að því gert, þó ég taki undir flestar þessar tillögur sem komið hafa fram, að mér finnst of hratt farið og ég held að menn verði að fara að viðurkenna það að einmitt í þessu frv. eru tímamörk svo naum að ekki verður með nokkru móti hægt að ætla það að framkvæmdin geti orðið skilvirk og með eðlilegum hætti. Það er verið að breyta það miklu í þessum málum að við þurfum að fá tíma til þess að athuga hvað verður, hvað tekur við af því skipulagi sem við þekkjum og höfum búið við mjög lengi. Og þeir sem eiga að taka þessum breytingum --- þetta er ekki hlutur sem hægt er að gera með reglustiku, hvorki frá Alþingi né heldur úr sveitarstjórnum --- almenningur sem býr í sveitunum sjálfum verður að taka þátt í þessari þróun og hann verður að samþykkja það í atkvæðagreiðslu.
    Ég fagna því sérstaklega að hér er komið til móts við athugasemdir sem komu við fyrstu álit nefndarinnar þannig að nú er ekki hægt að þvinga sveitarfélög til þess að sameinast þó að íbúarnir allir séu því mótfallnir eins og var fyrr. Það kom reyndar fram hjá hv. 3. þm. Vestf. áðan að engar þvinganir væru hafðar í frammi og hafi aldrei verið, þetta voru vissulega þvinganir þar sem ákvæðin voru þannig, ef ég man rétt, að þá var nægilegt að tveir þriðju hlutar --- ég er ekki með þetta ákvæði hjá mér --- en þessi minnstu sveitarfélög máttu sæta því að sameinast þó allir íbúarnir væru á móti þegar hlutföll voru þeim óhagstæð. Þetta hefur sem betur fer breyst og því ber að fagna.
    Í framsöguræðu hæstv. félmrh. kom réttilega fram að ungt fólk er í vaxandi mæli að flytjast af landsbyggðinni. Þetta er þróun sem lengi hefur átt sér stað, er mjög erfitt að snúa við, en þetta mun ekki breytast með því einu að sameina sveitarfélög. Vafalaust er sú viðleitni liður í þeirri þróun að ná unga fólkinu aftur til baka en það þarf fleira til. Við þurfum að efla byggðirnar, óháð því hvort það eru eitt sveitarfélög eða fleiri, við þurfum að færa þjónustuna út á landsbyggðina því þessi flutningur ungs fólks af landsbyggðinni og til höfuðborgarsvæðisins tengist m.a. því hversu menntunarmöguleikar hafa stóraukist og hversu ungt fólk í mjög auknum mæli leitar nú menntunar. Það leitar menntunar og sem betur fer þá býður þjóðfélagið upp á fjöldamarga og góða kosti en síðan þegar sú menntun er fengin þá eru ekki möguleikar nema í þéttbýlinu af því að þjónustan er þar, þar eru þjónustustofnanir og þess vegna flytur fólkið að heiman. ( Forseti: Forseti vill leyfa sér að spyrja hv. þm. hvort hann eigi langa tölu eftir því um hafði verið samið að fresta þessari umræðu þegar klukkuna vantaði kortér í fimm. Forseti kysi fremur ef ekki er langur kafli af ræðunni eftir að hv. þm. fengi tækifæri til að ljúka henni en annars verður forseti að biðja hv. þm. að fresta máli sínu.) Virðulegi forseti. Ég get nú ekki mælt það kannski alveg í mínútum en spurning er hvað er langt og hvað er skammt. Þetta verður ekki löng ræða sem eftir er að mínu mati en hugsanlega fimm til tíu mínútur. ( Forseti: Má forseti spyrja hv. þm. hvort hann geti sætt sig við að fresta máli sínu um sinn?) Ég er tilbúinn til þess ef forseti óskar þess. ( Forseti: Forseti þakkar hv. þm. Þannig stendur á að ráðherra er tímabundinn og þarf að mæla fyrir máli og venjan er að koma til móts við slíka beiðni. Forseti vill því biðja hv. þm. að fresta ræðu sinni um sinn.) Ber að skilja það svo að hún komi aftur á dagskrá í dag? ( Forseti: Vissulega.) Þá mun ég gera hlé á mínu máli hér og nú.