Heilbrigðisþjónusta

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 16:48:28 (6937)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Í því frv. sem ég mæli fyrir er verið að leggja til að Heilsuverndarstöð Reykjavíkur verði ákveðinn lagalegur sess í samræmi við breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem tók gildi 1. jan. 1990. Fram til þessa hefur verið bráðabirgðafyrirkomulag á stjórn Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur og hlutverki. Stjórn Heilsuverndarstöðvarinnar tók hins vegar að sér að semja tillögur um breytt verkefni og stjórnskipan og hefur skilað þeim tillögum og þær eru fluttar hingað inn á hið háa Alþingi. Ég kynnti þessar tillögur fyrir heilbr.- og trn. fyrir jólin og ætla að það geti tekist sæmileg samstaða um þá breytingu sem lögð er til í þessu lagafrv.
    Í stuttu máli er megintilgangurinn með frv. sá að Heilsuverndarstöð Reykjavíkur verði ákveðið sérstakt verksvið sem sé þríþætt:
    Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að Heilsuverndarstöð Reykjavíkur hafi umsjón með heilsuverndarstarfi í landinu, samræmi heilsuverndarstarfið og annist þróun heilsuverndarstarfs, rannsóknir og kennslu.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir að Heilsuverndarstöðin annist tiltekna þætti heilsgæslu og heilsuvernd í Reykjavíkurlæknishéraði og Reykjaneslæknishéraði samkvæmt samkomulagi við stjórnir heilsugæslustöðva í þeim héruðum og að fengnu samþykki ráðherra.
    Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að Heilsuverndarstöðin annist forvarnastarf og hýsi ýmsa opinbera starfsemi á því sviði samkvæmt ákvörðun ráðherra. Hér er átt við t.d. manneldisráð, áfengisvarnaráð, tóbaksvarnanefnd, landsnefnd um alnæmisvarnir og tannheilsumál. Í sambandi við tannheilsumál er gert ráð fyrir sameiningu umsjónar með skólatannlækningum í Reykjavík því tannheilsustarfi sem unnið hefur verið í heilbrigðisráðuneyti og því umsjónarstarfi sem unnið hefur verið í Tryggingastofnun ríkisins.
    Þá er gert ráð fyrir því að skipa heilsuverndarráð sem faglegan ráðgjafa sem verði ráðherra og stjórn stöðvarinnar til ráðgjafar. Í ráðinu verði níu fulltrúar, þrír frá þeim heilsuverndargreinum sem starfræktar eru í Heilsuverndarstöðinni en síðan er gert ráð fyrir fulltrúum frá manneldisráði, áfengisvarnaráði, tóbaksvarnanefnd, tannverndarráði og landsnefnd um alnæmisvarnir.
    Í 2. gr. frv. er kveðið á um stjórn Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur og er þar gert ráð fyrir tveimur fulltrúum frá Reykjavíkurborg, einum fulltrúa sem kosinn er af starfsmönnum stöðvarinnar og tveimur sem skipaðir eru af ráðherra án tilnefningar.
    Virðulegi forseti. Það er þegar hafinn undirbúningur að tilflutningi þessara verkefna til Heilsugæslustöðvarinnar í Reykjavík. Skipunartími núverandi stjórnar stöðvarinnar rennur út um mitt ár enda er gert ráð fyrir því að þetta frv. geti öðlast lagagildi 1. júlí 1993. Ég ítreka að ég lít svo á að um þetta mál sé sæmileg samstaða í heilbrn. og milli þingflokkanna og legg því áherslu á að afgreiðslu þessa frv. verði hraðað og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.