Aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 17:23:06 (6943)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég vil í upphafi fagna því að þessi tillaga kemur hér til umræðu. Á einu stigi í vetur hafði ríkisstjórninni dottið í hug að afgreiða þetta mál án tilhlutunar Alþingis. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir það að hafa orðið við óskum okkar stjórnarandstæðinga um að skrifa undir með fyrirvara um samþykki Alþingis.
    Ég lít svo á að sú ákvörðun, sem hér er verið að taka, þ.e. að gerast aukaaðili að Vestur-Evrópusambandinu, sé röng ákvörðun. Við erum með því að gerast aðilar að hernaðararmi Evrópubandalagsins og þangað höfum við ekkert að gera að mínu mati. En það virðist vera stefna ríkisstjórnarinnar að tengjast EB sem fastast. Það er þegar búið að taka nokkur skref, a.m.k. þrjú, í þá áttina. Við erum að verða aðilar að EES sem margir líta á sem fordyri Evrópubandalagsins. Við höfum gert samning við Evrópubandalagið sem felur það í sér að þeir fá heimildir til veiða á Íslandsmiðum sem er grundvallarbreyting á fiskveiðipólitík okkar, við höfum neitað því fram að þessu að láta fiskveiðiheimildir í skiptum fyrir tollafríðindi. Og nú er þessi aukaaðild að hernaðararmi Evrópubandalagsins þriðja skrefið.
    Ég sagði að mér fyndist þetta röng ákvörðun. Þessi aukaaðild hefur í för með sér kostnað. Það sést að vísu ekki á þingskjalinu hvað hann er mikill, en það liggur fyrir að við þurfum að greiða eins og segir hér, með leyfi forseta:
    ,,Aukaaðildarríki þurfa að greiða árlega fjárframlag til VES en framlög verða endanlega ákveðin innan tíðar.``
    Við vitum sem sagt ekkert um hvað þessi framlög kunna að koma til með að vera há eða verða há með tímanum. Þetta getur skapað okkur áhættu. Það eru hernaðarátök á Balkanskaga sem er nú í hlaðvarpa Vestur-Evrópusambandsins og við getum með óbeinum hætti óviljandi dregist inn í þau átök.
    Ég bendi á að eitt Evrópubandalagsríkið, það ríki sem okkur er skyldast af þeim, þ.e. Danmörk, hefur kosið að standa utan við Vestur-Evrópusambandið. Það hefur talið sínum öryggismálum fullboðlega fyrir komið með aðildinni að NATO. Mér finnst reyndar vera þversögn í því að hafa uppi dýrðaróð um NATO, eins og hæstv. utanrrh. gerði hér áðan, á annan bóginn en halda svo fram hjá NATO á hinn bóginn með aðild að Vestur-Evrópusambandinu. Ég lít svo á að Vestur-Evrópusambandið hljóti að veikja NATO en ekki styrkja og mér er ómögulegt að fallast á þau rök að NATO verði sterkara þó að Vestur-Evrópusambandið eflist.
    Járntjaldið sem við höfum nú búið við um nokkurra áratuga skeið er fallið en það er annað tjald að rísa, að vísu ekki úr járni, enn þá a.m.k., kannski fyrst og fremst úr peningum og það er á milli Evrópubandalagsins og Bandaríkjanna. Átakalínan hefur færst í vestur og nær Bandaríkjunum, vestur fyrir Evrópubandalagið og þar munu verða hagsmunaárekstrar í framtíðinni og við höfum þegar fengið smjörþefinn af þeim. Ríkisstjórnin hefur valið okkur stað Evrópumegin við þessa girðingu og það held ég að sé ákvörðun sem ekki sé skynsamleg.
    Það eru engir öryggishagsmunir samfara aðild að Vestur-Evrópusambandinu. Hér segir t.d. í þingskjalinu:
    ,,Vestur-Evrópusambandið hefur hvorki öryggisskuldbindingar né varnarskyldur gagnvart ríkjum sem hlotið hafa aukaaðild.``
    Vestur-Evrópusambandið hefur engar skyldur við okkur, hvorki öryggisskuldbindingar né varnarskyldur. Við höfum heldur ekki möguleika til þess að hafa afgerandi áhrif á ákvarðanir bandalagsins því að eins og segir hér í þingskjalinu, með leyfi forseta:
    ,,Aukaaðilar geta á hinn bóginn ekki hindrað ákvarðanir sem samstaða hefur náðst um á meðal aðildarríkja.``
    Við höfum ekki neitunarvald í þessu kompaníi. Þetta finnst mér vera misráðið og ég sé ekki að við höfum hagsmuni að neinu leyti af þessari aukaaðild og þetta sé einungis einn liður í þeirri hernaðaráætlun að koma okkur inn í Evrópubandalagið.
    Hæstv. utanrrh. talaði um það hér rétt áðan að hann vonaðist til þess að við hér á Alþingi stilltum saman strengi um málið og hann drap í nokkrum orðum á öryggismálaskýrsluna sem við fengum fyrir stuttu síðan. Þessi öryggismálaskýrsla er nú ekki beint sett fram í þeim tilgangi að stilla saman strengi. Ríkisstjórnin eða utanrrh. valdi þrjá sérfróða menn úr utanríkisþjónustunni eða tengda henni í nefnd til þess að taka saman þessa skýrslu og síðan valdi hann tvo mektuga stjórnmálaforingja, hvorn úr sínum stjórnarflokknum til að taka þátt í þessu starfi, hv. 3. þm. Reykv., Björn Bjarnason, og hv. 6. þm. Reykn., Karl Steinar Guðnason. Þar var nú ekki verið að leita eftir neinni breiðri pólitískri samstöðu, heldur til þess að skilgreina öryggismálastefnu sem ríkisstjórnin gæti farið eftir, ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Ef hugmyndin hefði verið að reyna að fá einhverja sátt um öryggismálastefnu, þá hefði auðvitað verið eðlilegt að stjórnarandstaðan hefði átt einhverja aðild að þessari vinnu.
    Út af þessari öryggismálaskýrslu verð ég nú að játa það að mér finnst hún ekki miklum tíðindum sæta. Hún ber þess merki að menn hafi frosið töluvert mikið í kalda stríðinu og séu ekki þiðnaðir enn þá. Hún er fyrst og fremst saman sett til þess að reyna að rökstyðja þessa ákvörðun að gerast aðilar að Vestur-Evrópusambandinu og gengur að verulegu leyti út á það. En kalda stríðið er búið og ég held að margar ályktanir í öryggismálaskýrslunni séu hæpnar. Kalda stríðið er búið og við lifum í breyttum heimi.
    Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir Íslendinga, kannski framar mörgum öðrum þjóðum að reyna að reka nokkuð sjálfstæða og mynduga utanríkismálastefnu. Ísland hefur ýmislegt að segja umheiminum og ég tel að Ísland eigi að láta það óhikað í ljósi, ekki að vera að dindlast aftan í hernaðararmi Evrópubandalagsins. Ég tel að Ísland eigi að leggja aukna áherslu á þátttöku í starfi Sameinuðu þjóðanna og það sé okkar helsta von. Það er sérstök ástæða til að þyngja þann róður vegna nýrra verkefna sem hafa verið tekin upp á arma Sameinuðu þjóðanna í kjölfar umhverfismálaráðstefnunnar í Ríó á sl. sumri. Þar er verk að vinna sem varðar Íslendinga afar miklu, þ.e. verndun hafsins sem samkvæmt niðurstöðum Ríó-ráðstefnunnar var ekki veitt nægilegt rúm í ályktunum. Ég held sem sagt að þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að gerast aukaaðilar sé röng og ég leggst gegn samþykkt þessarar tillögu.