Sveitarstjórnarlög

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 20:45:41 (6952)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Þessi umræða hefur svolítið slitnað sundur af ástæðum sem menn þekkja en um það er ekki að fást. Ég hafði hugsað mér að leggja nokkrar spurningar fyrir hæstv. félmrh. og ræða nokkur atriði sem bæði beint og kannski minna beint tengjast þessu dagskrármáli, þ.e. frv. til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum. Það er óhjákvæmilegt að ræða þar svolítið í leiðinni þau áform sem uppi eru um sameiningu sveitarfélaga og áherslur hæstv. ríkisstjórnar í þeim efnum, en einnig er auðvitað nauðsynlegt annaðhvort nú við þessa umræðu eða þó síðar verði, við 2. umr. málsins eða þá ef, sem væntanlega verður, hér koma á dagskrá byggðamál, þá t.d. með því að hæstv. forsrh. leggi sína árlegu skýrslu um byggðamál fyrir þingið og hún verði rædd sem hefur ekki gerst enn, þá gefist tækifæri til að ræða í stærra samhengi þessara hluta, þ.e. umræðunnar um sameiningu sveitarfélaga og eflingu sveitarstjórnarstigsins annars vegar og stefnumörkunar í byggðamálum almennt séð hins vegar og þess sem hæstv. ríkisstjórn er þar með á prjónunum. Það er alveg óhugsandi annað en þau mál komi hér til umræðu áður en Alþingi lýkur störfum miðað við þá pappíra sem eru að hringsóla um landið og tengjast þessum málum. Ég á þar sérstaklega við uppkast eða drög að stefnumótandi byggðaáætlun eða breyttum áherslum í byggðamálum sem Byggðastofnun hefur verið að vinna að í framhaldi af erindisbréfi hæstv. forsrh. til stofnunarinnar. Enn fremur hlýtur auðvitað lokaskýrsla sveitarfélaganefndarinnar að tengjast þessu máli og koma til umræðu í tengslum við það.
    Fyrst vil ég segja það, hæstv. forseti, að það er orðin nokkur saga af samskiptum hæstv. ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, hæstv. forsrh., og sveitarfélaganna í landinu. Það er auðvitað varla von á öðru en menn leyfi sér að rifja það pínulítið upp við þetta tækifæri hvernig þessi samskipti hafa gengið fyrir sig. Það er satt best að segja með ólíkindum og aðdáunarvert, það langlundargeð og sú þolinmæði sem forsvarsmenn sveitarfélaganna í landinu hafa sýnt í samskiptum sínum við hæstv. ríkisstjón og mesta furða að þau stjórnmálatengsl skulu ekki í hafa verið formlega rofin sem undir eðlilegum og venjulegum kringumstæðum eiga að vera milli þessara tveggja óháðu stjórnsýslustiga í landinu, sveitarfélaganna og ríkisins. Þannig hefur framganga og framkoma ríkisvaldsins við sveitarfélögin verið á þessu kjörtímabili. Nú þarf ekki að rekja það í einstökum atriðum fyrir hv. alþm. sem væntanlega þekkja það að hvað eftir annað hefur ríkisstjórnin og meiri hluti hennar á Alþingi því miður í kjölfarið rofið algerlega samstarfsgrundvöll og samkomulag ríkis og sveitarfélaga um sameiginleg mál og samskiptamál. Grófasta tilfellið var auðvitað þegar hæstv. ríkisstjórn einhliða raskaði grundvelli tekjulegra samskipta ríkis og sveitarfélaga með því að gera strandhögg í tekjum sveitarfélaganna og hundruð millj. kr. upptækar í ríkissjóð með álagningu svonefnds lögguskatts sem að lokum varð niðurstaðan, nefskatts á sveitarfélögin til að fjármagna að sagt var kostnað vegna löggæslu í landinu en hefði alveg eins getað verið hluti af rekstrarkostnaði Tryggingastofnunar ríkisins eða eitthvað annað. Svo gersamlega óviðkomandi var það málaflokknum sem slíkum, þessi upptaka á tekjum sveitarfélaganna. Framhald af þessu máli endurspeglast svo í þeirri fjármögnun sveitarfélaganna á tekjum Atvinnuleysistryggingasjóðs sem er við lýði nú samkvæmt gildandi fjárlögum.
    Auðvitað mótmæltu sveitarfélögin þessu harðlega á sínum tíma og reyndu eftir mætti að verjast en þeirra staða er erfið þegar meiri hluti á löggjafarsamkomunni sjálfri á í hlut sem kýs að beita valdi sínu með þeim hætti sem raun bar vitni í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Þess vegna segi ég það, hæstv. forseti, að ég dáist að langlundargeði og úthaldi þeirra sveitarstjórnarmanna í landinu sem enn hafa geð í sér til þess að sitja í nefndum og taka þátt í sameiginlegum verkefnum ríkisstjórnar þessarar sem nú situr og sveitarfélaganna. Þar fara menn sem hafa af miklum forða að taka hvað þolinmæði og langlundargeð snertir.
    En það má til marks hafa um aðdáunarlegt úthald þessara manna að eftir sem áður hafa þeir tekið þátt í og setið í nefndum sem starfað hafa að þessari vinnu varðandi sameiningu sveitarfélaganna og náð þar umtalsverðum árangri ásamt með þeim fulltrúum stjórnmálaflokkanna sem setið hafa í sérstakri stjórnskipaðri nefnd og skilað hefur nýlega skýrslu eins og kunnugt er.
    Það er ekki nokkur vafi á því að það er ástæða til að fagna þeirri þróun sem hefur orðið í þessum málum sl. vikur eða einn til þrjá mánuði, frá þeim hugmyndum sem uppi voru í hæstv. ríkisstjórn um að þvinga í gegn með lögum sameiningu sveitarfélaga ef ekki vildi betur til og taka með ákveðnu valdboði á þessum málum. Það lýsti sér annars vegar í því að um skertan atkvæðisrétt íbúa sveitarfélaganna eða minni sveitarfélaganna yrði að ræða þegar gengið yrði til atkvæða um sameiningu eða ekki sameiningu tiltekinna sveitarfélaga sem og í hinu að látið var skína í það að ef menn ekki hlýddu og greiddu rétt atkvæði þá yrði þeim með lögum skipað að sameinast í stærri sveitarfélög á grundvelli þess að lágmarksíbúatala sveitarfélaga yrði hækkuð.
    Sem betur fer hefur þetta starf og úthald sveitarstjórnarmanna og fulltrúa stjórnmálaflokkanna í stjórnskipaðri nefnd leitt til þess að málin hafa tekið gjörbreytta stefnu, eru komin í allt annan farveg, eins og sjá má af þessu frv. og niðurstöðum í endanlegu áliti eða lokaskýrslu sveitarfélaganefndarinnar. Þar hafa þau sjónarmið unnið fullan sigur að sveitarstjórnirnar sjálfar skuli ráða hver í sínu tilviki niðurstöðum málsins eða lyktum þess. Menn skuli með einföldum og lýðræðislegum hætti ganga til atkvæða um það hver í sínu sveitarfélagi hvað þeir vilji gera og hafa vald til þess að ráða niðurstöðunni.
    Ég tel að einnig hafi orðið framför í málinu hvað það snertir að menn eru í raun og veru horfnir af þessu trúarbragðastríði að sameining sveitarfélaganna ,,af-því-bara`` sé eitthvert allsherjarlausnarorð sem muni leysa atvinnuvandann og byggðamálin bara rétt eins og dögg hverfur fyrir sólu. Það er ekki að sjálfsögðu. Þess vegna hefur athyglin beinst að því, sameining sveitarfélaganna, jú gott og vel en hvað svo og til hvers? Hvaða verkefni á að færa frá ríki til sveitarfélaga, hvernig á að fjármagna þau og hvernig á að gera sveitarstjórnarstigið þá betur úr garði og efla það til þess að takast á við þessi nýju verkefni? Þessu vil ég fagna alveg sérstaklega því jafnágætt mál og sameining sveitarfélaga er í sjálfu sér og mjög víða þar sem hún á við og henni verður við komið með skaplegum hætti, þá er hitt jafnvitlaust og í raun og veru fáránlegt að láta sér detta það í hug að sameining ,,af-því-bara`` án nokkurrar skilgreiningar leysi einhvern vanda í sjálfu sér sem við er að glíma í efnahags- og atvinnumálum eða byggðamálum í landinu. Það er ekki svo. Einhver mörk á korti sem að nafninu til afmarka sveitarfélög skipta litlu máli borið saman við hinar efnislegu aðstæður fólksins í landinu. Þar koma til hlutir sem skipta hins vegar miklu og þar eru auðvitað efst á blaði samgöngumál, tekjur og starfsgrundvöllur sveitarfélaganna, burðir þeirra til að leysa úr sínum verkefnum eða taka við nýjum. Ég tel auðvitað að sá árangur hafi orðið í þessum málum og honum vil ég sérstaklega fagna að æðibunugangurinn sem einkenndi þetta mál í upphafi hefur nokkuð runnið af mönnum, menn eru komnir niður á jörðina, hættir þessum langhlaupum sem einkenndu þetta starf í upphafi af skiljanlegum ástæðum og farnir að skoða þetta meira á efnislegum og rólegum og yfirveguðum forsendum. Það er auðvitað sérstaklega mikilvægt í því sambandi að menn hafa náð samkomulagi um það að valdið skuli liggja hjá sveitarfélögunum sjálfum og meira en það, menn hafa líka náð samkomulagi um það að undirbúningur málsins og tillögugerðin sjálf, tillögurnar sem kosið verði um, verði unnar af heimamönnum. Allt er þetta mjög mikilvægt og veldur auðvitað því að gjörbreyttar aðstæður eru uppi í málinu frá því sem til horfði á síðasta ári þegar hæstv. félmrh. sem um þetta hefur haft forustu virtist vera á góðri leið með að forklúðra þessu máli algjörlega, þ.e. kljúfa þjóðina meira og minna í herðar niður í afstöðu til þessa máls.
    Ég held þess vegna að þeir menn sem hér hafa að málinu komið af hálfu sveitarfélaganna og einnig fulltrúar í sveitarfélaganefnd eigi miklar þakkir skildar fyrir að ná þessum árangri, að ná þrátt fyrir allt þessari niðurstöðu og þessari samstöðu sem um málið tókst að lokum.
    Sem sagt, málið er komið í allt annan og geðþekkari farveg og ég vænti þess að árangurinn muni líka verða í samræmi við það. Ég var farinn að halda að til þess horfði að ekki yrði neitt úr neinu hvað snerti sameiningu sveitarfélaga á þessu kjörtímabili og e.t.v. mundi það tefjast og frestast lengur að nokkuð raunhæft gerðist í þessum málum eins og af stað var farið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Nú er ég ekki lengur jafnsvartsýnn, ég tel þvert á móti að verulegar líkur séu á því á nýjan leik að það geti orðið þróun í þessum efnum sem verði mönnum til góðs og hagstæð.
    Auðvitað er rétt að minna á það og það má ekki tala út frá því í þessari umræðu eins og ekkert hafi verið að gerast, eins og menn séu að uppgötva fyrst núna á þessum vetrardögum gildi þess að skoða sameiningu sveitarfélaga. Það vill æðioft gleymast í þessum efnum að við erum í raun og veru að starfa á grundvelli tiltölulega nýlegra, mér liggur við að segja glænýrra, laga um sveitarfélögin og þar á meðal ákvæða um sameiningu þeirra sem eru, ef ég man rétt, í X. kafla sveitarstjórnarlaganna. Um þetta mál var fjallað gríðarlega mikið á síðasta áratug og heilmikil vinna lögð í það að endurskoða þágildandi sveitarstjórnarlög, sömuleiðis lög um tekjustofna sveitarfélaga og tekjuleg samskipti ríkis og sveitarfélaga og ég

leyfi mér að fullyrða að það sé engin ástæða til að láta sem sú vinna sé öll úrelt og ónýt. Það er ekki svo. Þvert á móti hefur á grundvelli þeirra laga heilmikið gerst í sameiningu sveitarfélaga eins og m.a. hv. síðasti ræðumaður minnti á og vitnaði til Vestfjarða. Það má taka dæmin víðar að. Ég get nefnt úr mínu kjördæmi, Norðurl. e., þar hafa á síðustu árum sameinast allnokkur sveitarfélög. Annars vegar í Eyjafjarðarsveit hinni miklu sem nú heitir svo í sveitahreppunum framan Eyjafjarðar eða Akureyrar þar sem orðið er til eitt sveitarfélag úr þremur hreppum. Sömuleiðis má nefna sameiningu sveitarfélaga við Öxarfjörð í hinn nýja Öxarfjarðarhrepp. Hvort tveggja gerðist þetta að frumkvæði heimamanna vegna þess að þar voru aðstæður nokkuð borðleggjandi. Þar lá það á borðinu að sameining sveitarfélaga var hagstæð og hún spratt upp úr stórauknu samstarfi sveitarfélaga, samrekstri þeirra á skólum o.s.frv. og var eðlilegt lokaskref í löngu ferli vaxandi samvinnu og samskipta viðkomandi sveitarfélaga. Þannig á þetta að gerast, þannig er það öllum fyrir bestu að þróunin í þessu sé.
    Þess vegna er með öllu ástæðulaust að láta eins og þetta hjól hafi verið fundið upp í gær eða fyrradag og það sé um líf eða dauða að tefla í þessum efnum eða að ekkert hafi verið að gerast sem til heilla hafi horft að undanförnu á þessu sviði. Það er ekki svo.
    Þrátt fyrir þetta hef ég nokkrar athugasemdir, hæstv. forseti, við frv. eða kannski má kalla það spurningar.
    Í fyrsta lagi hef ég nokkrar áhyggjur af því að tímaramminn sem utan um þetta er settur og fram kemur í 1. tölul. 1. gr. frv., seinni mgr., þar er fjallað um að tillögur umdæmanefndar --- ef hv. formaður þingflokks Alþfl. vildi hætta þessu flími og vera ekki að trufla hæstv. félmrh. sem ég er að eiga orðastað við, vonandi. ( ÖS: Hún er nú mín kona.) Það er að vísu rétt en ég þarf samt að ná athygli hæstv. félmrh. og ég veit að hv. formaður þingflokks Alþfl. getur fengið sér sæti og tekið í nefið og verið rólegur smástund á meðan við ræðum þetta mál.
    Í seinni mgr. 1. tölul. 1. gr. er fjallað um að tillögur umdæmanefndar skuli vera tilbúnar eigi síðar en 15. sept. nk. Nú verður þetta frv. væntanlega ekki að lögum fyrr en eftir páskaleyfi í lok apríl eða í byrjun maímánaðar, jafnvel þó að trippin verði hratt rekin, og það þýðir auðvitað að þarna er ekki mikill tími til stefnu fyrir þá vinnu sem er hvað vandasömust í þessu öllu saman og það er að gera tillögur um sveitarfélagamörkin sem síðan verði kosið um. Það er að mínu mati langvandasamasta og mikilvægasta efnisatriðið í þessu máli, það er að vel takist til í sambandi við þá tillögugerð og hún verði skynsamleg og vel grunduð, þannig að hún verði sem víðast samþykkt ef menn á annað borð binda vonir við einhvern umtalsverðan árangur í þessum efnum. Þess vegna hef ég af því nokkrar áhyggjur að þarna sé fullhratt rekið á eftir mönnum og mér finnst að það gæti verið skynsamlegt að hafa þarna a.m.k. eitthvert svigrúm ef t.d. ófyrirséðar aðstæður torvelda það einhvers staðar að menn nái saman fyrir þessi tímamörk um tillögur. Mér sýnist að lagaákvæði svona upp sett hafi það í för með sér að þó svo að menn séu með málið í uppnámi og hafi ekki náð saman sem ekki er hægt að útiloka --- við skulum segja þann 13. eða 14. sept. --- þá verði menn samkvæmt lagabókstafnum að dengja út einhverri tillögu til þess að hægt sé að kjósa um hana, jafnvel í ágreiningi eða berast á atkvæðum um það hvernig hún skuli vera útfærð. Þetta er ekki skynsamlegt að mínu mati ef menn eru fyrst og fremst að hugsa um uppskeruna og ég leyfi mér að stinga upp á því að þarna verði a.m.k. hafður einhver varnagli gagnvart því að það sé heimilt að framlengja þennan frest ef svo ber undir.
    Síðan má segja nokkuð sama að mínu mati um tímaáætlunina fyrir atkvæðagreiðslurnar sjálfar, það er ansi knappur tími sem í það er gefinn að kynna og undirbúa til kosninga þessar tillögur.
    Áfram má segja það sama um 3. töluliðinn þar sem gert er ráð fyrir því að í framhaldi af því að nú verði ekki samþykkt sameining eða það verði ekki af sameiningu á grundvelli atkvæðagreiðslu um tillögur sem kæmu þá til samkvæmt 1. tölul. og yrði kosið um samkvæmt 2. tölul., þá sé heimilt að leggja fram nýja tillögu. Það skuli gert fyrir 15. jan. og það skulu sömu tímamörk gilda um þá meðferð, þ.e. kosninguna og annað sem í kjölfarið fylgir. Þó svo að þetta sé um hávetur þá er eftir sem áður gert ráð fyrir því að tímaramminn sé þetta knappur. Það finnst mér dálítið óvarlegt. Það er sök sér að reyna þetta í september þegar færð er góð og allir vegir opnir og mönnum ætti að vera það auðveldara en ella að kynna málið og undirbúa kosninguna og láta hana fara fram. Því er auðvitað ekki að heilsa með sama hætti í janúar. Nú liggur það fyrir að varatillagan, ef svo má að orði komast, yrði gerð við þær erfiðu aðstæður að fyrri útgáfan hefði verið felld eða ekki komist á. Þá er væntanlega að sama skapi vandasamt að undirbúa og koma til kosninga nýrri tillögu því þar er þá við einhverja andstöðu eða einhverja erfiðleika að etja sem hafa valdið því að fyrri tillagan var ekki samþykkt.
    Þetta tel ég að hv. nefnd sem fær þetta mál til athugunar þurfi að athuga og fyrir alla muni ekki negla sig svoleiðis niður í þessum efnum að af því geti hlotist slys. Ég sé ekki að það sé nein sérstök ástæða til slíks.
    En það er annað sem ég vil ræða við hæstv. félmrh. í tengslum við þennan 3. tölulið og endurteknu kosninguna eða varatillöguna, það eru ummæli mjög svo ógætileg sem hæstv. félmrh. hefur viðhaft í fjölmiðlum í tengslum við þetta mál, sem ganga út á það í grófum dráttum sagt að menn skuli gæta sín að vera ekki með mótþróa og fella þær tillögur sem fyrir þá verði lagðar til að kjósa um því ef það gerist í miklum mæli þá sé ekki um annað að ræða en að lögþvinga sameininguna í gegnum það að hækka lágmarksíbúatölu sveitarfélaga sem heimilt er samkvæmt sveitarstjórnarlögum.

    Ég held að það sé í fyrsta lagi þannig að ef hæstv. félmrh. hafi einhvern áhuga á því yfirleitt að fá tillögurnar samþykktar þá ætti hún að forðast ummæli af þessu tagi. Ég er alveg sannfærður um að það mun hafa þveröfug áhrif á viðhorf manna ef þeir ganga til þessa starfs og þessara kosninga undir hótunum sem verður að kallast því miður af þessu tagi. Það er auðvitað alveg gjörsamlega óviðunandi að menn gangi í þessar kosningar undir slíkum þrýstingi eða slíkum hótunum. Og þegar betur er að gáð þá þyrfti þetta auðvitað að gerast þannig að fyrst yrði ákveðin lágmarksíbúatalan ef menn vilja breyta henni og síðan yrði kosið um nýjar sameiningartillögur vegna þess að þá liggur það fyrir hver verði framtíðarlágmörkin í þessum efnum og þá geta menn gengið út frá því í sínum kosningum. Það er auðvitað mikið nær að hafa það þannig en hafa hangandi yfir mönnum hótun um að þessu verði breytt, e.t.v. að geðþótta í 400 eða 1.000 eða guð má vita hvað, ef menn séu með múður og sameinist ekki í stórum stíl.
    Ég teldi mikið nær að það yrði látið á það reyna, þess vegna hér á Alþingi í vor, hvort samstaða er um það að annaðhvort festa í sessi núverandi mörk eða breyta þeim og hækka þá væntanlega eitthvað og ganga frá því áður en kosið verður. Það er a.m.k. mín tilfinning að það sé alveg þveröfug röð á hlutunum sem mundi verða samkvæmt þessu ef menn eiga ekki að gefa sér það að við þessum mörkum verði ekki hreyft, sem væri auðvitað eðlilegast. Þeir væru að ganga til kosninga um sameiningu eða ekki sameiningu sveitarfélaga á grundvelli gildandi laga um málefni sveitarstjórnanna og þau mörk sem þar eru yrðu látin halda sér og það væri á þeim grundvelli, í því ljósi, sem menn gengju til kosninganna.
    Ég tel a.m.k. alveg ljóst að hæstv. félmrh. gerir illt eitt með því að láta að því liggja að þeim sem kunna að hafa einhverjar aðrar skoðanir en hæstv. ráðherra á því hvar þeirra málum sé best borgið í sínum sveitarfélögum og mundu leyfa sér í einhverjum tilvikum að fella tillögur að sameiningu við einhver nágrannasveitarfélög að það verði þá bara komið aftan að þeim með því að síðan verði lögunum breytt og þeir píndir hvort sem er í einhverja samvinnu. Það eru ekki heiðarleg vinnubrögð, heiðarleg framkoma gagnvart þeim sveitarfélögum. Það er mikið nær að fyrir liggi t.d. að árið 1995 eða eitthvað svoleiðis muni þessi mörk breytast með einhverjum tilteknum hætti og út frá því geti menn gengið þegar menn taka ákvarðanir um sín mál.
    Í fjórða lagi er það orðalag, hæstv. forseti, í athugasemdum við frv. sem ég vil spyrja hæstv. félmrh. út í. Kannski hefur það komið fram að einhverju leyti í umræðunni, ég heyrði það þó a.m.k. ekki nákvæmlega í framsöguræðu hæstv. ráðherra, þar sem sagt er neðst á bls. 2 í athugasemdum við frv. að með frv. þessu sé í öllum aðalatriðum orðið við tillögum sveitarfélaganefndarinnar. Ég óska eftir því að það verði aðeins útskýrt fyrir mér og e.t.v. fleirum sem ekki hafa numið þann fróðleik hver þessi aukaatriði eru þá sem ekki eru eins og þar sem ekki er komið til móts við tillögur sveitarfélaganefndarinnar. Mér finnst það skipta máli að það liggi nokkuð ljóst fyrir strax við 1. umr. hver þessi frávik eru.
    Í fimmta lagi, hæstv. forseti, vil ég nefna byggðamálin á nýjan leik og þá skýrsluna miklu eða uppkastið sem komið hefur frá Byggðastofnun og einstöku menn hafa komið höndum yfir með mismunandi aðferðum um breyttar áherslur í byggðamálum og tillögu stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 1993--1996. Af því að svo stórmerkilega vill nú til að hæstv. forsrh. heiðrar okkur með nærveru sinni, þá leyfi ég mér að endurtaka spurningu mína hvort ekki sé að vænta skýrslu frá hæstv. forsrh. um byggðamál og umræðu um hana hér á Alþingi eins og venja hefur verið. En ef minni mitt svíkur ekki, þá hefur slík umræða ekki farið hér fram í vetur en var a.m.k. árlegur atburður.
    Ef á annað borð á að taka þessa skýrslu alvarlega eða þetta uppkast eru það auðvitað stórtíðindi í umræðu um þessi mál því að þar er verið að boða að verulegu leyti breyttar áherslur og allt aðra nálgun í umræðum um byggðamál en við höfum átt að venjast á Íslandi, mér liggur við að segja frá landnámsöld ef hægt er að orða það svo, alla vega svo lengi sem menn hafa rætt þessi mál mér vitanlega, þá hefur það nú talist hafa nokkurt gildi að reyna að varðveita og styðja byggðina í landinu sem víðast. Hér er farið út á allt aðra braut. Mér liggur við að segja að hér sé brotið í blað hvað varðar skilgreiningu á því hvað sé byggð. Ég held að hér sé verið að fara út á þá óheillabraut að skilgreina byggðina ekki sem einhvers konar keðju eða belti eins og hún er auðvitað í eðli sínu heldur sem bletti eða punkta. Það er að mínu mati stórháskaleg nálgun. Byggðin á Íslandi, eins og hún dreifist af landfræðilegum og efnislegum ástæðum með ströndinni hringinn í kringum landið, er auðvitað miklu nær því í eðli sínu að vera belti eða keðja heldur en þessir blettir eða kjarnar sem samkvæmt skýrslunni á að búa til þar sem á að þjappa saman uppbyggingu og öll áhersla stjórnvalda á að ganga í það að efla fáeina kjarna eða bletti í landinu, en ekki í grófum dráttum reyna að styðja við byggðina þar sem hún er og leggja fólki lið og veita því þjónustu þar sem það býr heldur einhvers staðar annars staðar að hluta til. Ég held að þetta sé virkilega stórhættuleg nálgun og hún hlýtur að koma inn í umræður um það sem hér er á dagskrá, sameiningu sveitarfélaga, samstarf sveitarfélaga og byggðamynstrið í landinu. Það er t.d. þannig að heilar sýslur eru samkvæmt þessari tillögu Byggðastofnunar settar út af sakramentinu. Það eiga engir kjarnar að vera þar sem uppbygging verður á þjónustu af hálfu hins opinbera. Og hvað eiga menn þá að hugsa í þeim sveitarfélögum, þeim sýslum, Strandasýslu, Norður-Þingeyjarsýslu, á Austurlandi og víðar þar sem svona háttar til? Menn geta væntanlega ekki tekið þetta öðruvísi en sem skilaboð um að mönnum sé nokkuð sama hvort þeir lifi eða deyi. Þeir megi út af fyrir sig hokra þarna ef þeir nenni því. En af hálfu stjórnvalda verði ekki lyft litla fingri til að létta þeim lífsbaráttuna. Og þá hlýtur maður að spyrja sig að því: Til hvers er þá verið að eyða orku í að sameina sveitarfélög á þessum svæðum? Skiptir það þá einhverju máli? Mega þau ekki

vera hvort sem heldur er fá eða mörg úr því að þar á ekki að byggja upp neitt samhangandi svæði, þjónustu eða atvinnu sem myndar einhverja eina eðlilega heild? Ég held að þetta gangi ekki upp. Og þarna þarf að samræma áherslur nema stjórnvöld vilji hafa það þannig að það sé bara hver höndin upp á móti annarri. Í einni skýrslunni frá ríkisstjórninni sé þetta svona og í annarri á hinn veginn. Nema að lokum eigi þetta allt saman að falla saman í þá mynd að hugsunin sé að grisja byggðina í landinu og leggja í eyði tilteknar sýslur og ákveðin svæði. Það er auðvitað það sem maður hlýtur að spyrja sig að þegar maður fær svona pappíra í hendur og þá held ég að það eigi líka að segjast eins og það er en ekki vera að dulbúa það á einhverju rósamáli af því tagi sem er í skýrslu Byggðastofnunar eða drögum eða uppkasti eða hvað það nú kallast.
    Nú er rétt að taka það fram til að halda allri sanngirni til haga að mér er það vel ljóst að hinir kvöldu klárar á Byggðastofnun eru ekki sekir í þessu máli því þeir eru fyrst og fremst að vinna samkvæmt fyrirskipun og erindisbréfi frá hæstv. forsrh. þar sem þeim er uppálagt að það skuli útfæra vaxtarkjarnastefnu hæstv. ríkisstjórnar og Byggðastofnun eru algerlega skammtaðar forsendur til þess að vinna þessa skýrslu út frá því erindisbréfi sem hún fékk frá hæstv. forsrh. Ég leyfi mér að spyrja hæstv, félmrh. sem væntanlega á eftir að svara hér: Hvað segir hæstv. félmrh. um þessa skýrslu, um þessi drög? Hver er skoðun hæstv. félmrh. á því samhengi sem menn hljóta auðvitað að setja umræður um málefni sveitarfélaganna og sameiningu þeirra í þegar fyrir liggur pappír af þessu tagi unninn að beiðni hæstv. forsrh. um málefni byggðarinnar í landinu?
    Ég held, hæstv. forseti, að þetta beri okkur allt að sömu niðurstöðunni sem ég er sannfærður um að reynslan mun sýna eða mundi sýna ef menn færu þá ógæfulegu leið sem upphaflega var áformað og enn virðist að hluta til vera hugsunin hjá hæstv. ríkisstjórn samanber vaxtarkjarnahugmyndina að taka til við að miðstýra með einhverri áætlunargerð og skipulagningu þróun byggðarinnar í landinu út frá skrifborðum í Reykjavík. Það er raunar það sem þetta er. Ég hef ekki séð annan eins miðstýringarpappír í háa herrans tíð, ekki síðan ég var hérna fyrir 20 árum að blaða í fimm ára áætlununum sálugu frá Sovétríkjunum eins og þessa skýrslu hér. Hún er slík miðstýringarárátta að það skulu einhverjir snillingar ákveða það að hér skuli vera vaxtarkjarni en annars staðar ekki, gjarnan þvert á það hvernig þróun byggðarinnar hefur þróast, fólksfjöldinn t.d. hefur breyst undanfarin ár á viðkomandi svæðum.
    Það er ákaflega athyglisvert þegar þessi skýrsla er tekin hvaða svæði eru ekki vaxtarsvæði samkvæmt skilgreiningu Byggðastofnunar. Á Vestfjörðum er það svo að þar hefur mestur uppgangsstaður um langt árabil verið Hólmavík í Strandasýslu. Þar hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarin allmörg ár. Þar er næg atvinna og þar er íbúafjöldinn nú kominn yfir 500 þannig að Hólmavík er orðin fjórði stærsti staður á Vestfjörðum ef ég man rétt. En það hefur hins vegar fækkað eða staðið í stað íbúafjöldinn á svo til öllum öðrum þéttbýlisstöðum á Vestfjörðum. Mundu menn þá ekki halda að Hólmavík væri vaxtarsvæði samkvæmt skilgreiningu Byggðastofnunar? Nei, ekki aldeilis. Nei, nei, nei. Hólmavík er ekki vaxtarsvæði þó þar hafi fólkinu fjölgað meir en nokkurs staðar annars staðar á Vestfjörðum um langt árabil. Nei, þá skal Hólmavík ekki vera vaxtarsvæði. Þar á ekkert að gera. En hins vegar er Patreksfjörður hugsanlega kandídat í vaxtarsvæði þar sem fólkinu hefur fækkað jafnt og þétt. Er þetta mjög skynsamleg áætlunargerð? Er þetta ekki miðstýringarárátta að það skuli þá með illu snúa þessu við og láta fækka á Hólmavík af því að mönnum finnst það í Byggðastofnun eða í forsrn. að þar eigi fólkinu ekki að fjölga. Væntanlega er það útkoman. Svona er þetta um fleiri staði.
    Annar helsti uppgangsstaður á Vestfjörðum ef ég man rétt, er Tálknafjörður. Það er að sjálfsögðu ekki vaxtarsvæði, Tálknafjörður. Nei, nei, nei. Fólkinu hefur að vísu óvart verið að fjölga þar. Þar hefur atvinnuástandið verið betra en víðast hvar annars staðar á Vestfjörðum en það skal ekki vera vaxtarsvæði þó að fólkinu fjölgi þarna. Svona dæmi má taka víðar að. Ég tek dæmi úr minni heimasýslu, Norður-Þingeyjarsýslu. Þar vill nú svo til að í austustu hreppum og reyndar í flestum sveitarfélögum í Norður-Þingeyjarsýslu hefur núna fjölgað fólki undanfarin nokkur ár þar á meðal t.d. á Þórshöfn um líklega 60 manns á 3--4 árum. Það er að sjálfsögðu ekki vaxtarsvæði, nei, nei, nei. En ýmis önnur bæjarfélög þar sem íbúafjöldinn hefur staðið í stað eða hefur minnkað skulu vera vaxtarsvæði. Ég held að svona tiktúrur ef ég leyfi mér að kalla það svo eigi ekki heima og ég leyfi mér að segja það alveg eins og er í fullri hreinskilni, ég get ekki sagt annað: Ég tel að það eitt að velja þessum kjörnum þetta nafn, vaxtarsvæði, það eitt sé brottrekstrarsök þessara sérfræðinga sem setja slíka hluti á blað vegna þess að að hlýtur að leiða af sér þá gagnályktun að hin svæðin séu ekki vaxtarsvæði, þar eigi að fækka. Nú er það að vísu svo þannig svo höfundaréttinum sé til haga haldið, hann er víst dýrmætur, þá er það auðvitað stefnumörkun hæstv. ríkisstjórnar þar sem þessi nafngift kemur fram. En sama er. Hún er náttúrlega algerlega ónothæf í þessari umræðu m.a. af þessum sökum einum sem ég bendi á að menn hljóta að gagnálykta svo ef ákveðin svæði eru skírð, gefin út, stimpluð sem vaxtarsvæði að hin séu það ekki. Þetta verður auðvitað að taka í samhengi. Það er alveg tómt mál að vera að tala um sameiningu sveitarfélaga í einhverum trúarbragðastíl og þar með muni vandamál landsbyggðarinnar, atvinnulífs og efnahagsmála meira og minna hverfa eins og dögg fyrir sólu ef á sama tíma eru svona hlutir í farvatninu gagnvart heilu sýslunum. Menn skulu a.m.k. taka þær út fyrir sviga og geyma það að vera með miklar vangaveltur um nytsemd þess að sameina þar sveitarfélög.
    Þetta fannst mér óhjákvæmilegt að nefna hér, hæstv. forseti, í samhengi við þetta mál. Ég gæti sagt býsna margt fleira um þetta en í trausti þess að tækifæri gefist til þess að ræða stærra samhengi þessara

hluta, byggðamálanna og málefna sveitarfélaganna síðar hér á þessu þingi, þá læt ég þetta duga.
    Ég segi það að lokum um sameiningu sveitarfélaga að hún er að sjálfsögðu af hinu góða og sú þróun sem þar hefur verið í gangi er ánægjuleg þar sem á allmörgum stöðum á landinu hafa sveitarfélög ýmist þegar sameinast eða eru á góðri leið með að sameinast sveitarfélög í stórum stíl. Það er auðvitað þannig að mjög víða eru sveitarfélögin að nálgast hvert annað í gegnum stóraukið samstarf, í gegnum samrekstur á mörgum sviðum. Það er t.d. víðast hvar orðið svo að allmörg sveitarfélög eru í samstarfi um rekstur í heilbrigðisþjónustu og rekstur skóla, framhaldsskóla. Í velflestum kjördæmum landsins er það orðið þannig að flest eða öll sveitarfélögin eru í einhvers konar skipulögðu samstarfi um rekstur framhaldsskólans, um rekstur heilsugæslustöðva og sjúkrastofnana. Og á minni svæðum eru nokkur sveitarfélög gjarnan orðin í mjög nánu samstarfi um ýmsan annan rekstur svo sem sorphirðu og fjölmargt af því tagi sem lýtur að daglegri þjónustu við íbúana. Þetta er að sjálfsögðu að færa sveitarfélögin saman þangað til að lokum verður fyrst og fremst stigsmunur á því en ekki eðlis hvort sveitarfélögin leysa þetta í skipulögðu samstarfi á hverju málasviði fyrir sig eða með endanlegri sameiningu. Þannig er það auðvitað að verða mjög víða. Þegar rekstur á skólum, heilsugæslustöðvum, sorphirðu, rekstur á slökkviliði, sjúkraflutningum og fjölmörgum slíkum þáttum er orðinn sameiginlegur, þá fer það auðvitað smátt og smátt að verða ,,smag sag`` ef svo má að orði komast, stigsmunur en ekki eðlis á því hvort um endanlega sameiningu verður svo að ræða að lokum. Og hún mun síðast fylgja í kjölfarið. En það tekur tiltekinn tíma. Þetta þarf að fá frið til að þróast og ef þetta gerist þannig á grundvelli sjálfstæðra ákvarðana sveitarfélaganna sjálfra og af fúsum og frjálsum vilja, þá er það miklu farsælla en að þrýsta þessu á með lögþvingun eða undir hótunum eða með öðrum slíkum hætti. Gerist það, þá munu menn byggja inn í hin nýju sveitarfélög ýmis óleyst vandamál sem ég hef meiri trú á að muni leysast farsællega á grundvellli frjálsra samskipta sveitarfélaganna sjálfra. Og þegar það er búið, þegar þau mál hafa leyst, þá er kominn tími til að sveitarfélögin sameinist. En á meðan enn eru uppi skiptar skoðanir t.d. um það hvar eigi að reka grunnskóla, hve marga í einni sýslu eða í nokkrum samliggjandi sveitarfélögum og það er ekki komin niðurstaða í það mál, það er ekki orðið samkomulag á viðkomandi svæði um slíka hluti, ef menn eru þá lögþvingaðir til þess að sameinast, hvað gerist þá? Þá byggja menn inn í hið nýja sveitarfélag þessi óleystu vandamál sem munu ekki gufa upp. Þvert á móti gætu þau orðið hálfu illvígari viðureignar ef þannig er staðið að hlutunum. En ég held að menn eigi að ræða þetta á þessum nótum, opinskátt og hreinskilnislega út frá þeirri hugsjón að menn ætli að ná árangri því að auðvitað er það það sem skiptir máli og það er það mikilvægasta. Og það er engin deila um það í landinu, það er samstaða um að það er vænlegt að efla sveitarstjórnarstigið og efla sveitarfélögin og til þess þurfa þau auðvitað að stækka því að mörg þeirra og mjög mörg eru allt of lítil til þess að ráða við einhver umtalsverð verkefni. Þar sem hinar efnislegu forsendur eru fyrir hendi, þar sem landfræðilegar og atvinnulegar forsendur eru til þess að sveitarfélög sameinist, þar sem til getur orðið eining sem er eining í sjálfu sér, þar á auðvitað að sameina sveitarfélög en annars staðar ekki vegna þess að það er misskilningur að þú leysir einhver vandamál út af fyrir sig bara si svona: Af því bara að þú sameinir sveitarfélög.
    Eitt mun ekki breytast við sameiningu sveitarfélaga og það eru vegalengdir, staðsetning fjallgarða og samgönguhindrana í landinu. Það mun ákvæmlega engu máli skipta um t.d. vegalengdina frá Langanesi og inn á Tjörnes hvort þar eru fimm sveitarfélög eða ekki. Það verður jafnalangt upp á sentímetra frá sýslumörkum á Brekknaheiði og inn á Tjörnes. Sem sagt, hinar efnislegu aðstæður manna breytast ekki við það þó að á kortið séu dregnar einhverjar nýjar línur.
    Mér hefur stundum fundist umræðan um þetta pínulítið minna mig á þær hroðalegu ófarir sem nýlenduveldin lentu í í Afríku á sínum tíma þegar þau fóru að búa þar til lönd og gerðu það mjög gjarnan þannig að það voru búin til lönd þar sem voru 2--3 hálfar þjóðir. Annar helmingurinn var í þessu ríki og hinn helmingurinn í hinu. Og hvað hefur það leitt af sér? Jú, jú, það þekkja menn. Það eru ófarir sem segir mönnum auðvitað bara það að það er ekki hægt að búa til með einhverjum svona mannasetningum við skrifborð einhvers staðar í fjarlægum borgum eða öðrum heimsálfum einingar sem eru ekki einingar af sjálfu sér. Landfræðilega, atvinnulega, menningarlega, sögulega eða með slíkum hætti. Það er misskilningur og hann þurfa menn að losna við sem allra fyrst, líka í þessari umræðu.
    Hæstv. forseti. Þá endurtek ég það að lokum sem ég sagði í upphafi að ég fagna þó þeim árangri sem orðið hefur í þessari umræðu og þeim tiltölulega skynsamlegu nótum sem þetta mál hefur þróast inn á og ég vona bara að hæstv. félmrh. sem með þetta mál fer og er kappsamur, hæstv. ráðherra, um framgang málsins, skynji hvað málinu er fyrir bestu. Það er að reyna að halda áfram að þróa það á þessari braut í sæmilegu samkomulagi og samstarfi og keyra það ekki hraðar áfram en forsendur gefa tilefni til.