Sveitarstjórnarlög

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 21:38:09 (6954)


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin. Það segir reyndar í frv. að fyrir 1. júní 1993 skuli félmrh. skipa sérstaka samráðsnefnd þannig að ég geri ráð fyrir að fyrir þann tíma, ef frv. verður samþykkt, verði hún skipuð.
    Ég spurði einnig um hvað liði 6. lið í tillögum sveitarfélaganefndar í sambandi við að ráðuneytin og samtök kennara og Samband ísl. sveitarfélaga undirbúi tillögur sem miði að því að rekstur grunnskóla flytjist að fullu yfir til sveitarfélaga frá og með 1. ágúst 1995, hvort verið er að vinna að því eða hvort á að bíða þar til frv. verður samþykkt og hugað að því síðar eða hvort verið er að undirbúa það að flytja rekstur grunnskólans yfir. Maður hefur heyrt mjög mikið talað um að það væri það fyrsta sem yrði gert í sambandi við að flytja verkefni til sveitarfélaganna þannig að ég mundi gjarnan vilja að hæstv. félmrh. svaraði því hvað líður því að fara að þeim tillögum sveitarfélaganefndar sem ekki eru í þessu frv.