Sveitarstjórnarlög

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 21:54:07 (6967)


     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Það eru aðeins örstutt tvö atriði. Í fyrsta lagi tel ég það mjög mikilvægt sem var rætt áðan, þ.e. hvernig verður farið með lágmarksíbúafjölda í sveitarfélögum. Ég held að það verði ekki til bóta ef það hangir í lausu lofti og jafnvel sem einhvers konar hótun yfir þeim atkvæðagreiðslum sem munu fara fram í þessum sveitarfélögum að ef menn samþykki ekki sameiningu þá muni hæstv. félmrh. koma með tillögu um lágmarkið. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að menn reyni að ná samkomulagi um þá hluti strax. Það er mín skoðun á því máli að það eigi alls ekki að ræða um að setja nýtt lágmark. Ég tel að það eigi að fara með þeim friði að fólki í litlu sveitarfélögunum allt í kringum landið að það eigi ekki að vera með neins konar hugmyndir um breytingar á lágmarki íbúafjölda í þessum sveitarfélögum á meðan umræða um sameiningu gengur yfir. Það eigi hreinlega að setja það inn í framtíðina hvort einhver hærri lágmörk verði upp tekin en nú þegar eru.
    Það var annað sem ég gleymdi þegar ég tók til máls í dag. Það er það sem kemur fram í 1. lið. Þar er talað um að tillögur umdæmanefndar skuli vera tilbúnar fyrir 15. sept. Því næst er sagt: ,,Tveimur umræðum í sveitarstjórnum um tillögur umdæmanefndar skal lokið án atkvæðagreiðslu sveitarstjórna innan sex vikna frá því að tillögur eru lagðar fram.``
    Ég tel að þetta sé eitthvað sem nefndin verði að taka til alvarlegrar athugunar. Ég sé ekki tilganginn í umræðum sveitarstjórnarmanna um tillögur sem búið er að gera og ekki má gera breytingar á og ekki má gera ályktanir um. Um hvað eiga sveitastjórnarmenn eiginlega að tala? Það hefur engan tilgang að setja á tvær umræður í sveitastjórnum eftir að búið er að búa til þessar tillögur þegar engin áhrif verður hægt að hafa á það hvernig þær líta út því þær eru komnar í það form sem þær munu verða í. Mér finnst ekki boðlegt, þó ég viti reyndar að þetta ákvæði var í fyrri lögum, að bjóða upp á það aftur að þannig skuli að málum staðið. Ég hefði talið miklu eðlilegra að hér hefði verið sett fram ákvæði um að sveitarstjórnum bæri að gangast fyrir fundum með íbúum sinna sveitarfélaga þar sem þessi mál væru rædd og kynnt en ekki að í viðkomandi sveitarstjórnum fari fram tvær umræður og að sveitarstjórnin megi ekki einu sinni hafa skoðun. Það megi ekki einu sinni gera ályktanir um þær tillögur sem ætlast er til að séu ræddar á fundum sveitarstjórnarmanna um þessi efni. Þess vegna tók ég til máls núna að ég vildi gjarnan koma því á framfæri við nefndina að hún taki þetta ákvæði til athugunar.