Reynslusveitarfélög

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 22:16:38 (6971)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þessi þáltill. er að sjálfsögðu framhald af því ef frv. um ákvæði til bráðabirgða vegna sameiningar sveitarfélaga verður samþykkt. Þá er fyrirhugað að stofna reynslusveitarfélög. Mér skilst að það sé í tengslum við það frv. þó að það sé sérmál.
    Það sem kemur fram í þessari stuttu tillögu er að til þess að undirbúa þetta verði, eins og segir hér, skipuð fjögurra manna verkefnisstjórn. Ég mundi vilja spyrja hvort það sé heilög tala hjá hæstv. félmrh. að þetta sé fjögurra manna verkefnisstjórn eða hvort það byggir á sérstökum tillögum sveitarfélaganefndar. Ég hef ekki séð það í skýrslunni en kannski hefur mér sést yfir það.
    Hér er lagt til að reynslusveitarfélögin starfi í fjögur ár frá 1. jan. 1995 til loka desember 1998. Óneitanlega er hér verið að taka mið af því að Norðurlöndin hafa gert tilraunir með ýmiss konar tilraunasveitarfélög þó að það hafi kannski ekki verið beinlínis til þess að sameina þau heldur til þess að flytja verkefni frá ríkinu til sveitarfélaganna. Það er einnig markmiðið hér með sameiningu sveitarfélaga, ef af henni verður, að þau geti tekið við verkefnum frá ríkinu og verkaskiptingin verði hreinni. Þau fái til sín meira vald og meira fjármagn.
    Ég tók eftir því í skýrslu sveitarfélaganefndar um tilraunasveitarfélögin að á bls. 17 segir að það sé æskilegt að sveitarfélögin hafi 800 til 1.000 íbúa og það er tiltekið hvaða þjónustu þau gætu hugsanlega staðið að við íbúana. Í skýrslunni segir að það sé æskilegt að sveitarfélög af þessari stærð geti sjálf staðið undir kostnaði við m.a. sorpeyðingu og byggingu hafna. Mér finnst svolítið einkennilegt að sveitarfélögin eigi allt í einu, þó það séu kannski 800 eða 1.000 manna sveitarfélög, að geta staðið að byggingu hafna. Ég mundi vilja fá nánari skýringu á því hvernig það á að vera. Jafnvel þó að við höfum séð á þinginu frv. til laga um breytingu á hafnalögum, þá er það ekki komið í gegnum þingið og ég minnist þess ekki heldur að hafa séð í því frv. að sveitarfélögin ættu sjálf að standa undir byggingu hafna þó kveðið sé á um einhverjar breytingar á kostnaðarskiptingunni. En það stendur alla vega hér að þetta sé æskilegt. Ég mundi gjarnan vilja fá skýringar á því.
    Á Norðurlöndunum var, eins og ég sagði, þetta fyrst tekið upp 1984, bæði í Svíþjóð, Danmörku,

Noregi og Finnlandi og hefur verið framlengt, t.d. í Finnlandi. Það var tekið þar upp 1988 og átti að standa í fjögur ár en var síðan framlengt til 1996. Staðan er þannig núna að helmingur íbúa Finnlands býr í reynslusveitarfélögum.
    Ég hef reyndar ekki hugsað mér frekar en kannski margir aðrir hér að eyða miklum tíma í að ræða þessa tillögu. Þetta er framhald af undirbúningi þessara mála og framhald af vinnu nefndarinnar sem flestir, sem hér hafa talað um þessi mál, eru sammála um að hafi unnið vel að þessum málum. Þessar tillögur eru komnar fram í beinu framhaldi af starfi nefndarinnar. Ég tel ekki fráleitt að efna til þessara reynslusveitarfélaga en mundi leggja áherslu á það líka að valið yrði sem víðast af landinu. Ég bendi á í því sambandi að á Vestfjörðum hefur talsvert mikið verið gert af því, eins og kom fram í máli hv. 2. þm. Vestf., að sameina sveitarfélög þó betur megi kannski gera. M.a býr sú sem hér stendur í sveitarfélagi sem var sameinað öðru fyrir 22 árum síðan þannig að við höfum talsverða reynslu af því í sveitarfélögum af ýmsum gerðum hvernig sameining reynist.
    Þar hefur m.a. gerst, eins og ég nefndi reyndar fyrr í dag, að heil sýsla hefur sameinast í einn hrepp, Reykhólahrepp, og væri ekki fráleitt að sá hreppur fengi það hlutverk að gerast tilraunasveitarfélag ef hann æskir þess. Hann er undir mörkum um 1.000 íbúa en undanþáguákvæði er til slíks í athugasemdum með þáltill. Reyndar er í skýrslu sveitarfélaganefndar rætt um að skilyrði fyrir þátttöku um tilraunasveitarfélög séu að verkefni séu í tengslum við sameiningu og þau sveitarfélög sem sameinist hafi forgang og einkum þegar sveitarfélög á stóru svæði, t.d. innan heillar sýslu, sameinast eins og gerst hefur í því tilfelli sem ég var að nefna. Það væri því ekki úr vegi að hreppurinn fengi að spreyta sig á því, ef vilji er fyrir hendi, sem ég veit raunar ekki um og hef ekkert umboð til að óska eftir fyrir þeirra hönd, en ef áhugi er á því því teldi ég það ekki fráleitt. Raunar hefur sú nefnd sem vann að skýrslu um sameiningu sveitarfélaga á Vestfjörðum lagt til að ef valið verði sveitarfélag á Vestfjörðum fái Reykhólahreppur það hlutverk að vera tilraunasveitarfélag þar.