Reynslusveitarfélög

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 22:39:00 (6974)


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég stend hér upp einungis til að þakka þær umræður sem hafa orðið um þessa tillögu og þær undirtektir sem hún hefur fengið sem ég tel vera jákvæðar og það er reyndar í samræmi við það sem er meðal sveitarstjórnarmanna. Ég tel að það sé mikill áhugi hjá sveitarstjórnarmönnum að taka

þátt í þessu verkefni, en stofnun reynslusveitarfélaga er einmitt einn liður í því verkefni að efla sveitarfélögin. Ég tel að hér sé á ferðinni merk tilraun til þróunarstarfs sem mikil samstaða er um meðal sveitarstjórnarmanna ef af verður og þessi tillaga verður samþykkt.
    Út af fyrirspurn hv. 6. þm. Vestf. varðandi Reykhólahrepp, hvort hann gæti orðið reynslusveitarfélag, þá er það eins og fram kemur í þessari tillögu fyrst og fremst hlutverk verkefnastjórnarinnar að fjalla um umsóknir og velja sveitarfélög til þátttöku í verkefnum og kynna verkefni meðal sveitarstjórnarmanna. En ég vona, virðulegi forseti, í lokin að þessi þáltill. fái góðan framgang hér á þinginu.