Framhald þingfundar

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 22:46:35 (6981)


     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins taka til máls út af orðum hv. þm. Jónu Valgerðar. Nú er það svo að það hefur auðvitað verið siður hér í þinginu, a.m.k. hefð sem er að skapast að menn eru reiðubúnir til þess að vera hér eitt kvöld í viku fram eftir. Það er gert ráð fyrir því. Það fyrirkomulag var kynnt þegar vetraráætlunin var rædd að eitt kvöld í viku yrði tekið til umræðu. Og nú er það svo að við þingmenn erum að fara í páskafrí. Hér eru mörg mikilvæg mál sem þarf að koma til nefndar þannig að ég vil mælast til þess að hér verði haldið áfram til a.m.k. svona eitt til tvö ef þurfa þykir til þess að ljúka þessari dagskrá. ( JVK: Það eru ekki nógu margir þingmenn í húsinu til þess að senda þau til nefndar.) Ég tel að það sé alveg nauðsynlegt að ljúka þessum málum og bendi á það að einar þrjár nefndir hafa fundi á morgun. Og varðandi það að fulltrúi tiltekins þingflokks sé ekki staddur hér í húsinu, þá er það svo að viðkomandi þingmaður er formaður þingflokks og vissi að það var fyrirhugað að ljúka þessari dagskrá, ljúka þeim málum sem hér væru. Og ég ítreka það aftur að það hefur verið til siðs hér í vetur, ef þurfa þykir, að vera hér fram eftir á þriðjudagskvöldum.