Lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 23:28:02 (6986)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Frv. þetta um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði sem er á þskj. 898 er flutt í tengslum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Það má einnig líta á frv. sem fylgifrv. frv. um viðskiptabanka og sparisjóði sem lagt var fram fyrr á þessu þingi og er nú til umfjöllunar í hv. efh.- og viðskn.
    Með lánastofnun er hér átt við félög og stofnanir sem veita lán í eigin nafni og fjármagna starfsemi sína með innlánum eða útgáfu og sölu á skuldabréfum eða öðrum endurgreiðanlegum skuldbindingum til almennings. Það má skipta lánastofnununum í tvo meginflokka. Annars vegar lánastofnanir sem heimild hafa til að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar. Þar er einkum um að ræða viðskiptabanka og sparisjóði. Og svo hins vegar hinn meginflokk lánastofnana, sem eru stofnanir sem ekki fjármagna starfsemi með innlánum frá almenningi heldur útgáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings. Helstu dæmi um slíkar stofnanir hér á landi eru fjárfestingarlánasjóðir og aðrir stofnlánasjóðir svo og eignarleigufyrirtæki. Með þátttöku í Evrópsku efnahagssvæði hefur Ísland skuldbundið sig til að lögfesta sams konar reglur um lánastofnanir og gilda innan Evrópubandalagsins. Vegna eðlis innlánsstofnana var ákveðið að við aðlögun núgildandi löggjafar hér á landi að ákvæðum EES-samningsins skyldi fjallað um þær í sérstöku frv. Um allar aðrar lánastofnanir skyldi fjallað í öðru frv. Í frv. um viðskiptabanka og sparisjóði sem hv. efh.- og viðskn. hefur nú til meðferðar, eins og ég nefndi hér fyrr, koma fram ítarlegar reglur um stofnun og starfsemi slíkra lánastofnana. Sömu reglur eiga í rauninni einnig að gilda um allar aðrar lánastofnanir.
    Stofnanir hér á landi sem stunda lánastarfsemi eru fjölmargar. Fjölmörg félög og stofnanir hafa slíka starfsemi að meginverkefni. Í athugasemdum með þessu frv. er birt yfirlit yfir allar þær helstu. Fyrir utan innlánsstofnanirnar er hér um að ræða í fyrsta lagi fjárfestingarlánasjóðina. Þeir hafa allir verið settir á stofn með sérstökum lögum. Í meginatriðum má skipta þeim í tvennt. Annars vegar er um að ræða fjárfestingarlánasjóði sem hið opinbera starfrækir til að sinna sérstökum samfélagslegum verkefnum. Dæmi um sjóði af því tagi eru Byggðastofnun, Byggingarsjóður ríkisins, Byggingarsjóður verkamanna og Framleiðnisjóður landbúnaðarins. Hins vegar er um að ræða fjárfestingarlánasjóði sem tengjast ákveðnum atvinnugreinum. Dæmi um þá sjóði eru Ferðamálasjóður, Fiskveiðasjóður Íslands og Iðnlánasjóður. Sjóðir í þessum flokki hafa það hlutverk að stuðla að uppbyggingu og umbótum í hinum ýmsu atvinnugreinum með því að lána fé til fjárfestingar, veita styrki og fjárfesta í eigin fé fyrirtækja. Mörgum þessara sjóða hafa verið tryggðar tekjur með sérstökum álögum á viðkomandi atvinnugrein eða lögbundin framlög á fjárlögum. Á síðari árum hafa hins vegar lögbundnu framlögin í fjárlögunum ýmist verið skert verulega eða algerlega felld niður. Núorðið eru flest lán þessara sjóða á markaðskjörum enda fjármagna þeir starfsemi sína að langmestu leyti með lántökum á almennum markaði ýmist innan lands eða utan.
    Í öðru lagi er svo um að ræða aðra lánasjóði en þá sem í daglegu tali eru nefndir fjárfestingarlánasjóðir. Hér er um að ræða ýmsa opinbera sjóði og sjóði í einkaeigu. Þessir sjóðir gegna í reynd svipuðu hlutverki og fjárfestingarlánasjóðirnir, þ.e. þeir veita lán til ýmiss konar fjárfestinga og framkvæmda á afmörkuðu sviði. Sumir þeirra eru stofnaðir með lögum, ég nefni Bjargráðasjóð, Framkvæmdasjóð aldraðra, Hafnabótasjóð og Orkusjóð. Aðrir hafa verið stofnaðir af einkaaðilum eins og Fjárfestingalánasjóður stórkaupmanna, Stofnlánasjóður skó- og vefnaðarvörukaupmanna og Stofnlánasjóður raftækjasala.
    Í þriðja lagi falla svo undir hugtakið ,,aðrar lánastofnanir`` eignarleigufyrirtækin. Hér er um að ræða nokkur fyrirtæki sem stofnuð hafa verið á grundvelli laga nr. 19/1989, um eignarleigustarfsemi. Auk eignarleigustarfsemi eins og hún er skilgreind í lögunum er þessum fyrirtækjum heimilt að hafa með höndum skylda starfsemi á sviði fjármálaþjónustu.
    Hæstv. forseti. Af þessari upptalningu sem ég hef hér stiklað á er ljóst að hér starfa fjölmörg félög og stofnanir sem veita lán. Nokkrar þeirra falla þó utan við skilgreiningar EES-samningsins og frv. um lánastofnanir vegna þess að þeim er ekki heimilt að afla fjár með útgáfu og sölu á skuldabréfum eða öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings. Dæmi um slíkar stofnanir eru Fiskræktarsjóður, Framkvæmdasjóður aldraðra, Framkvæmdasjóður fatlaðra og Stofnfjársjóður fiskiskipa. Aðrir sjóðir af þeim sem ég hef hér rakið falla strangt tekið undir skilgreininguna vegna ákvæða í lögum sem um þá gilda að þeir geti aflað sér fjár með lántökum þótt þeir hafi kosið að afla ekki lánsfjár með útgáfu skuldabréfa til almennings. Dæmi um stofnanir sem hafa slíkar heimildir og eru þar með af þessu tagi eru: Bjargráðasjóður, Hafnabótasjóður, Lánasjóður ísl. námsmanna og Orkusjóður. Þessir sjóðir eru þess eðlis að færa má fyrir því sannfærandi rök að lagaákvæðum um þá sé eðlilegt að breyta þannig að þeir falli ótvírætt utan gildissviðs þessa frv. sé það vilji löggjafans.
    Loks skal þess getið að í viðauka IX við EES-samninginn þar sem fjallað er um fjármálaþjónustu eru ákvæði um að byggingarsjóðir ríkisins hér á landi séu undanþegnir ákvæðum samningsins um lánastofnanir.
    Með þessu frv. er lagt til að lögfestar verði almennar reglur um starfsemi lánastofnana annarra en viðskiptabanka og sparisjóða. Í skilgreiningu frv. á lánastofnunum felst að til lánastofnana þessara teljist öll félög og stofnanir hér á landi sem hafa heimild í lögum eða samþykktum sínum til að veita lán í eigin nafni og afla til þess fjár með útgáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings. Þetta þýðir með öðrum orðum að félög og stofnanir sem annaðhvort hafa ekki heimild til lántöku eða fjármagna starfsemi sína t.d. með framlögum af fjárlögum og ávöxtun eigin fjár eða hafa einungis heimild til að taka lán hjá öðrum lánastofnunum, falla utan við þessa skilgreiningu og þar með utan við áhrifasvið þessa frv.
    Í frv. er lagt til að um stofnun, stjórnun, starfsemi, eigið fé, ársreikning, endurskoðun, slit, samruna, starfsemi erlendra lánastofnana hér á landi og innlendra stofnana erlendis og eftirlit með starfsemi lánastofnana skuli gilda sömu ákvæði og fram koma í frv. til laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Í frv. er valin sú leið að nefna helstu ákvæði á hverju fyrrgreindra sviða í lagagreinunum en vísa að öðru leyti til viðkomandi kafla í frv. um viðskiptabanka og sparisjóði.
    Þessi leið var valin með hliðsjón af því að samkvæmt ákvæðum EES-samningsins eiga að gilda sömu reglur um starfsemi allra lánastofnana hvort sem um er að ræða viðskiptabanka og sparisjóði eða aðrar lánastofnanir. Í frv. er lagt til að lánastofnanir af þessu tagi verði í framtíðinni einungis stofnaðar sem hlutafélög. Ákvæði þetta tekur þó eingöngu til lánastofnana sem stofnaðar kynnu að verða eftir gildistöku laganna og hefur því engin áhrif á starfandi lánastofnanir sem lúta að öðru rekstrarformi og geta því haldið áfram að starfa í óbreyttum farvegi.
    Það er veittur frestur samkvæmt tillögum frv. til 1. jan. 1995 að breyta lögum um fjölmargar lánastofnanir sem taldar eru upp í bráðabirgðaákvæði I og laga þau að ákvæðum þessa frv. Tímafresturinn er valinn í samræmi við þann aðlögunarfrest sem Íslandi er heimill á þessu sviði samkvæmt EES-samningnum.
    Í þessu frv. er lagt til að viðskrh. fari með framkvæmd laganna. Í því felst að hann fer með málefni er lúta almennt að starfsemi þeirra stofnana sem fjallað er um í frv. Það er talið eðlilegt þar sem viðskrh. fer þegar með málefni annarra stofnana á innlendum fjármagns- og lánamarkaði eins og Seðlabanka Íslands, viðskiptabanka, sparisjóða, verðbréfafyrirtækja, verðbréfasjóða og eignarleiga. Í þessu felst hins vegar alls ekki að viðskrh. taki við málefnum einstakra lánastofnana af öðrum ráðherrum þegar um er að ræða lánasjóði í eigu ríkissjóðs eins og t.d. Fiskveiðasjóðs Íslands eða Landflutningasjóð, heldur fer hann eingöngu með leikreglurnar og bankaeftirlit með þessum stofnunum.
    Hæstv. forseti. Með þessu frv. er lagt til að ýmsar almennar reglur um stofnun og starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða gildi einnig um aðrar lánastofnanir hér á landi. Í því felst að sömu kröfur verði gerðar um eigið fé, hæfi stjórnenda, gerð ársreiknings og endurskoðun. Þá verða aðrar lánastofnanir samkvæmt frv. í fyrsta sinn felldar undir bankaeftirlit Seðlabanka Íslands. Í þessu felst bæði samræming á kröfum og starfsheimildum milli stofnana og opinbert eftirlit með starfseminni sem ég tel hvort tveggja afar mikilvægt.
    Það er því áríðandi að þetta frv. verði til meðferðar í tengslum við frv. um viðskiptabanka og sparisjóði enda efni þessara frv. nátengt. Hér er fyrst og fremst um tæknilegt frv. að ræða sem ég legg til að verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.