Lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 23:37:33 (6987)


     Steingrímur J. Sigfússon (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég vil spyrja í mikilli alvöru hvort ætlunin sé virkilega að halda áfram umræðu um þetta stóra mál hér og nú. Þannig stendur á að allmargir, reyndar flestir nefndarmenn til að mynda í efh.- og viðskn., eru ekki lengur hér í húsi, forfallaðir og tepptir af ýmsum ástæðum. Sumir komnir til síns heima í páskafrí sem boðað var og út gefið að mundi hefjast á þessum degi, þriðjudegi. Nú lifa ekki nema nokkrar mínútur af þessum sólarhring og þá verður ekki lengur með sanni sagt að páskaleyfi þingmanna hafi hafist á þriðjudegi ef fundur stendur hér fram yfir miðnætti.
    Hér er á ferðinni allstórt mál sem ég er nokkuð sannfærður um að við eðlilegar aðstæður mundi kalla á talsverða umræðu og væntanlega ekki bara nefndarmanna sem fá málið til umfjöllunar í hv. efn.- og viðskn. heldur og fleiri sem láta sig varða þessi málefni lánastofnana. Ég vil þess vegna mælast til þess að umræðunni verði frestað og tekið tilliti til þessara aðstæðna hér. Verði ekki orðið við því þá er mér í sjálfu sér ekkert að vanbúnaði að flytja mína ræðu hér og kem henni hér að. Ég mæli nú ekki síður fyrir munn þeirra sem eru fjarstaddir en ég veit að mundu gjarnan vilja taka þátt í umræðum um þetta mál.