Skipulagslög

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 23:55:29 (6991)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hér hafa talað undirtektir við þetta frv. Ég skal að vísu viðurkenna það að ég hefði kosið að sjá hitt frv., sem nefnt hefur verið hér og flutt var í fyrra, ég hefði kosið að sjá það verða að lögum. En það ber að virða og viðurkenna staðreyndir. Við það frv. var bara einfaldlega ekki stuðningur og það þýddi ekkert að berja hausnum við steininn með það mál og þess vegna varð að leita annarra leiða. Ég get alveg fallist á það með hv. þm. Auði Sveinsdóttur, sem hér talaði áðan, að sitthvað mætti vera ítarlegra í þessu efni varðandi það frv. sem hér liggur fyrir. En það sem skiptir meginmáli er að ég held að þetta sé gert í bærilegri sátt við sveitarfélögin. Og þær ábendingar sem hún kom með í sinni ræðu er ég viss um að umhvn. tekur til athugunar og þá væntanlega einnig sú samvinnunefnd sem vonandi kemst á laggirnar.
    Ég held að það skipti mestu að þetta mál komist á nokkurn rekspöl, að um það sé bærileg sátt og þessi vinna geti hafist. Ég tek undir að það þarf að liggja fyrir til hliðsjónar stefnumörkun í ferðamálum og raunar um ýmislegt fleira en mestu máli skiptir að þessi vinna komist af stað og um hana sé sæmilegur friður. Og ég ítreka þakkir mínar til þeirra þingmanna sem hér hafa talað.