Skráning og mat fasteigna

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 14:07:21 (6998)

     Árni M. Mathiesen :
    Frú forseti. Ég tel rétt að það komi fram við þessa umræðu að ég hef miklar efasemdir um nauðsyn, gildi og ágæti þess starfs sem fer fram á vegum Fasteignamats ríkisins. Reyndar tel ég að stundum sé Fasteignamatið tóm vitleysa. Öllum er augljós sá tvíverknaður, jafnvel sá margverknaður, sem í gangi er í þjóðfélaginu þar sem brunabótamat er gert á vegum tryggingafyrirtækja, ýmiss konar möt vegna sölu á eignum eru gerð á vegum fasteignaskrifstofa og síðan þegar ríkið eða opinberir aðilar ætla sér að taka eignir eignarnámi er gert sérstakt mat vegna þess sem oft og tíðum er algerlega í ósamræmi við það sem fasteignamatið er.
    Ég tel hins vegar nauðsynlegt að breyta Fasteignamatinu en þá þarf að breyta því í þá átt að færa starfsemina frá ríkinu, frá hinu opinbera og til einkaaðila en ekki að auka umsvif Fasteignamatsins eins og tilhneigingin yrði ef þetta frv. yrði að lögum.
    Ég vil beina því til hv. nefndar að hún taki þetta frv. til gagngerrar endurskoðunar út frá því sjónarmiði að færa þessa starfsemi frá ríkinu og til einkaaðila. Eins og frv. er í dag treysti ég mér ekki til þess að styðja það.