Skráning og mat fasteigna

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 14:37:48 (7002)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hér hefur verið velt upp ýmsu í sambandi við Fasteignamat ríkisins og ég vil taka undir að það er, eins og ég sagði áðan, í sjálfu sér gott að nú skuli því ákvæði vera framfylgt sem er í fjárlögum yfirstandandi árs að þessari stofnun skuli skipuð stjórn, svo langt sem það nær. En ég tel að það þurfi að skoða öll þessi mál og einmitt eins og hæstv. fjmrh. hefur verið að velta fyrir sér að hér eru til alls konar möt, ef við getum orðað það svo, bæði brunabótamat og fasteignamat og það vekur upp þær spurningar hvort þessi möt séu ekki oft notuð með hentistefnu að leiðarljósi. Ég minni á það að fasteignamatið sjálft er notað sem grundvöllur eignarskatts fyrir ríkið samkvæmt framtali einstaklinga en síðan er fasteignamatið notað sem gjaldstofn fyrir sveitarfélögin til fasteignagjalda og þá samkvæmt breytingu sem gerðar voru á lögunum 1989 um að nú er það allt saman reiknað upp eins og það væri fasteign sem staðsett væri í Reykjavík. Þannig að allir sem eiga fasteignir úti um landið, hvort sem það er á Kópaskeri, Ísafirði eða Reykjavík, borga af þessum fasteignum sínum eins og þær væru staðsettar í Reykjavík, þannig borga þeir það í dag. En aftur á móti er það þó réttlátara hjá ríkinu vegna þess að ríkið innheimtir eignarskattinn eins og fasteignamatið er og þar er tekið tillit til staðsetningar ásamt fleiru.
    En ég tel að það sé í sjálfu sér gott að velta þessum málum öllum upp og þó að þetta sé ekki stórt frv. í sjálfu sér þá held ég að það kalli á miklu frekari athugun á allri skattlagningu og allri notkun á þessu, bæði fasteignamati, brunabótamati og slíku. Það má minna á það að brunabótamat er jú það sem eignin er virt á, þ.e. ef hún brennur þá þarf að byggja hana upp aftur og það er það sem talað er um en aftur á móti greitt af eigninni eftir því hvaða gjaldflokk er um að ræða, hvort það er timburhús eða steinhús, svo ég upplýsi hæstv. fjmrh.