Lyfjaverslun ríkisins

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 14:56:50 (7008)

     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Ég skal verða við þeirri eindregnu ósk forseta að taka til máls og standa við það að hafa beðið um orðið en ég skal ekki lengja umræðuna mjög mikið.
    Ég vildi aðeins segja örfá orð um frv. sem hér er til umræðu um að stofna hlutafélag um Lyfjaverslun ríkisins. Hún er auðvitað enn eitt fyrirtækið, opinbera fyrirtækið, sem hæstv. ríkisstjórn hyggst breyta í hlutafélag og trúlega með það að markmiði að einkavæða það eða selja það og er það þá hluti af þessu einkavæðingarflippi sem hæstv. ríkisstjórn er á. Þykir mér um sumt hefði mátt vanda sig betur og hef ekki lýst stuðningi mínum við öll þau frv. sem ríkisstjórnin hefur sett fram á því sviði eða hvað varðar einkavæðinguna en sum þeirra hafa þó fyllilega átt rétt á sér. Hér voru nýlega til umræðu tvö frv. um hliðstæð mál þessu, að einkavæða opinber fyrirtæki eða stofnanir og lýsti ég stuðningi við annað þeirra en lagðist gegn hinu og það má segja með þetta að það geti kannski hvort tveggja átt við.
    Vafalaust er það svo að ýmsir þættir í starfsemi Lyfjaverslunar ríkisins eiga eins vel heima á hinum almenna frjálsa markaði. Þar á ég t.d. við það að á undanförnum árum hefur Lyfjaverslunin í auknum mæli tekið að sér umboðsstörf fyrir erlenda framleiðendur og gert samninga um innflutning og dreifingu lyfja fyrir umboðsmenn. Það er auðvitað mikil spurning hvort það er endilega hlutverk opinberra fyrirtækja og þá er spurningin líka í mínum huga sú hvort ekki hefði verið réttara að breyta eitthvað starfsemi Lyfjaverslunarinnar ef stjórnvöld teldu þessa þætti í starfsemi hennar ekki eðlilega á markaði til þess að fylgja eftir þeim stefnum og hugsjónum sem ríkja nú og hvað mest er talað um, um hina frjálsu samkeppni.
    En það kom hins vegar fram í máli hæstv. ráðherra að hér væri um að ræða vel rekið fyrirtæki sem hefur sterka eiginfjárstöðu og hefur á undanförnum árum, eins og fram kemur í grg., skilað umtalsverðum hagnaði í ríkissjóð, þar af eitt árið upp undir 100 millj. kr. En það er sjálfsagt að taka úr einum vasanum og setja í annan því stærsti greiðandi lyfja í landinu er auðvitað sjálfur ríkissjóður sem greiðir u.þ.b. 70% af heildarlyfjakostnaði landsmanna, svoleiðis að hér er kannski að einhverju leyti sýnd veiði en ekki gefin þegar verið er að velta fyrir sér þessum hagnaði sem rennur í ríkissjóð því tekjurnar eru að verulegu leyti þaðan sprottnar líka. En það sem ég hefði viljað að hæstv. ráðherra og þeir sem fjallað hafa um þetta mál, svo og auðvitað sú nefnd sem tekur frv. til umfjöllunar gaumgæfi vel áður en það kemur til 2. umr. eru þeir þættir í starfi Lyfjaverslunar ríkisins sem ekki eiga eins vel heima á hinum frjálsa markaði og eru þess eðlis að Lyfjaverslunin hefur haft nokkra sérstöðu, m.a. við framleiðslu á ákveðnum lyfjum og nefni ég hér t.d. dreypilyf sem, eftir því sem ég best veit, eru nær eingöngu eða eingöngu framleidd og seld af hálfu Lyfjaverslunar ríkisins.
    Nú kann að vera að það komi í ljós við nánari athugun að aðrir geti eins vel gert og Lyfjaverslunin og hlutverki hennar á þessu sviði sé þá kannski líka lokið eða sé ekki eins mikilvægt og ég hef álitið og reyndar þykist muna að hafa heyrt þau sjónarmið frá viðskiptavinum Lyfjaverslunarinnar, t.d. frá sjúkrahúsunum, að það sé mjög mikilvægt að þessum þætti starfseminnar sé vel sinnt og það sé alla vega séð fyrir því að hér verði engir hnökrar á og sjúkrahúsin eigi greiðan aðgang að þessum lyfjum.
    Það kemur m.a. fram í athugasemdum við frv. þetta að dreypilyfjadeildin var endurnýjuð á árinu 1988 þannig að það er ekki langt síðan að talið var eðlilegt að Lyfjaverslun ríkisins sæi um þessa framleiðslu og sinnti þessu verkefni vel og vafalaust hefur þarna verið lagt út í töluverðan kostnað sem menn hafa talið eðlilegt og réttlætanlegt að þessi opinbera stofnun leggði út í til þess að sinna sínu hlutverki.
    Ég hef að öðru leyti ekki miklar athugasemdir fram að færa við frv., ég veit að það verður skoðað ítarlega í þeirri nefnd sem fær það til meðhöndlunar, hv. efh.- og viðskn., og vildi aðeins koma því á framfæri að það verði skoðað vandlega hvernig séð verði fyrir þessum þáttum sem hafa verið sérstæðir í starfsemi fyrirtækisins. Það segir að vísu hér í 4. gr. frv. og hæstv. fjmrh. dró það sérstaklega fram í máli sínu áðan að við sölu hlutabréfanna yrði þess gætt að samkeppni verði tryggð á sviði dreifingar og framleiðslu lyfja. Nú veit ég ekki alveg nákvæmlega hvernig hæstv. ráðherra sem á að fara með sölu hlutabréfanna ætlar sér að tryggja það öðruvísi en hann geri þá mun á því hver býður í hlutabréfin eða hver hefur áhuga á að kaupa þau, miklu fremur heldur en hvað er boðið í bréfin, þ.e. hvaða verði á að selja þau, það eigi fremur að ráða hverjir eru kaupendurnir. En eftir að hæstv. ráðherra hefur selt bréfin einhverjum aðila þá hefur hann líklega lítið um það að segja hverjum sá aðili síðan selur bréfin aftur nema þau verði seld með einhverri slíkri kvöð sem ég á síður von á að hægt sé að framfylgja.
    En þetta voru athugasemdir sem ég vildi koma á framfæri og svo kannski að lokum, hæstv. forseti, aðeins að velta fyrir sér þeim ákvæðum sem hér eru sett fram í 3. gr. frv. um réttindi starfsmanna sem nú starfa hjá Lyfjaverslun ríkisins og eiga samkvæmt ákvæðum þessarar greinar að sitja fyrir störfum hjá hinu nýja hlutafélagi. Þetta er reyndar ekki ný grein í frv. af þessu tagi sem hér er til umræðu og sýnist mér efnislega samhljóða því sem við höfum áður séð. En það hafa hins vegar vaknað upp umræður um gildi greinar af þessu tagi og hvort hægt er að standa við það sem hér er sagt og jafnframt hvort hægt er með ákvæðum eins og koma fram í seinni málslið þessarar greinar um það að réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins samkvæmt ákvæðum 14. gr. laga nr. 38/1954 eigi ekki við um þá starfsmenn sem boðin er sambærileg staða hjá hinu nýja félagi. Þetta veit ég að nefndin skoðar líka í samræmi við það sem áður hefur verið gert. Ég vil minna á það að hjá fyrirtækinu starfa 60 manns þannig að þetta er nokkuð stór vinnuveitandi og fyllilega ástæða til þess að huga að því hvernig fer með starfssvið, starfsvettvang og réttindi þessa starfshóps.