Útboð á ræstingu í framhaldsskólum

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 15:31:13 (7018)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs utan dagskrár til að leita svara hjá menntmrh. við ýmsum spurningum sem vakna í tengslum við það útboð á ræstingu í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu sem nú er fyrirhugað. Þetta útboð er auðvitað liður í einkavæðingaráformum ríkisstjórnarinnar þó að ekki hafi farið eins hátt og margt annað eða fengið sömu umræðu og margt annað.
    Útboðið var auglýst á vegum Innkaupastofnunar ríkisins um mánaðamótin janúar/febrúar og áttu tilboð að berast stofnuninni fyrir 9. mars sl. Alls bárust 13 tilboð sem hljóðuðu upp á allt frá 56% af kostnaðaráætlun og upp í 190%. Þessi tilboð eru nú til skoðunar hjá Innkaupastofnun og enn hefur ekkert verið gert sem er óafturkræft. Útboðið náði til 23 framhalds- og sérskóla á höfuðborgarsvæðinu og skiptist það í þrjá hluta. Í fyrsta hluta voru 17 framhalds- og sérskólar í Reykjavík, alls 61.380 fermetrar. Í öðrum hluta voru 5 framhaldsskólar í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði með alls 10.782 fermetra og í þriðja hluta var Iðnskólinn í Reykjavík með alls 11.996 fermetra. Var verkið boðið út til 5--7 ára og reiknað með að verktaki tæki það að sér frá og með næsta sumri.
    Það sem vekur athygli við útboðið er hversu stór fyrsti hluti þess er eða rúmir 61 þús. gólffermetrar. Það segir sig eiginlega sjálft að við slíkt verk ráða tæpast aðrir en hreingerningafyrirtæki með víðtæka þekkingu og reynslu, bæði í ræstingum og útboðum. Umfang slíkra útboða gerir t.d. ræstingarkonunum sjálfum illmögulegt að bjóða í verkið þó að þær gjarnan vildu. Þeirra skoðanir, þekking og möguleikar eru ekki teknir með í útreikninga þeirra manna sem semja útboðslýsingar. Í því tilviki sem hér um ræðir voru þær einfaldlega dæmdar úr leik þegar í upphafi, enda virðist markmiðið með útboðinu beinlínis vera að auka miðstýringu í ræstingu. Þannig halda þeir sem þessum málum ráða að þeir nái í miðstýrða þekkingu á efnum og vinnuaðferðum sem muni skila þeim sparnaði.
    Í útboðslýsingunni er þó ekki alveg horft fram hjá þeim konum sem vinna verkið því þar segir að óski núverandi starfsmenn verkkaupa eftir því að vinna við þrif áfram sé verktaka skylt að ráða þá til starfa við ræstingar eða í önnur sambærileg störf. Þá segir að við ráðningu skuli starfsmaður njóta áunninna réttinda miðað við starfsaldur hjá verkkaupa. Tekur það m.a. til starfsaldurshækkana, uppsagnarfrests, veikinda og orlofsréttar. Í þessu sambandi er hins vegar rétt að geta þess að ræstingin er unnin í svokallaðri tímamældri ákvæðisvinnu og þar af leiðandi fá allar konur greidda sömu upphæð á tímaeiningu án tillits til starfsaldurs og hvað orlof varðar er rétt að það komi fram að þær detta nær allar út af launaskrá 1. júní ár hvert þegar skólum lýkur og koma inn aftur 1. sept. Eftir stendur þó að verktaki á að bjóða þeim vinnu, en það er alveg undir hælinn lagt að það sé í sama skóla og áður.
    Allir sem þekkja til skólaræstinga vita þó að það getur skipt verulegu máli vegna þess að þær konur sem þessum störfum sinna eru oft og tíðum bíllausar og með börn og eiga illa heimangengt til vinnu nema hún sé nærri heimili. Þá gefst engin trygging fyrir því að konurnar verði ekki að sæta skertum kjörum. Þvert á móti er það nánast fyrirséð. Vinnulaun eru um 85--90% af kostnaði við ræstingu og ef sparnaður á að nást við útboð hljóta menn að ná honum við þann útgjaldalið. Háskóli Íslands bauð t.d. út ræstingu sl. haust og þar hófu verktakar þegar í stað að endurskoða verklýsingar með tilheyrandi kjaraskerðingu fyrir konurnar, ýmist í formi þess að tímamælingunni var breytt eða stykkin þeirra stækkuð. Laun fyrir ræstingu eru hins vegar ekki svo há að hægt sé að ætla þeim konum sem þessi störf vinna að fórna sér í þágu sparnaðaráforma ríkisins. Fyrir hverja tímaeiningu í eftirvinnu fá konurnar 393 kr. rétt rúmlega og í næturvinnu 474 kr. Hver kona hefur svo stykki sem er áætlað 3--4 tímar og eru launin frá 27--32 þús. kr. á mánuði. Það þarf því ekki að koma á óvart þótt konurnar láti til sín heyra, en í dag voru menntmrh. afhentar undirskriftir á annað hundrað ræstingarkvenna í Verkakvennafélaginu Framsókn þar sem þær mótmæla þeirri launaskerðingu sem felst í útboðinu.
    En útboðið snýr líka að einstökum skólum og þar af leiðandi eru spurningar mínar til menntmrh. svohljóðandi:
    1. Hvaða rök eru fyrir því að hafa hluta I í útboðslýsingu eins stóran og raun ber vitni?
    2. Er einstökum skólum í hluta I og II í útboðslýsingu heimilt að draga sig út úr útboðinu?
    3. Hver verður ávinningur einstakra skóla af hugsanlegum sparnaði í kjölfar útboðs á ræstingu?
    4. Er verktaka heimilt að ráða einstaklinga til starfa við ræstingu sem undirverktaka?
    5. Hvaða áhrif telur ráðherra að útboðin muni hafa á atvinnuöryggi og laun þeirra kvenna sem nú starfa við ræstingu í framhaldsskólunum?