Útboð á ræstingu í framhaldsskólum

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 15:56:52 (7026)

     Jón Kristjánsson :
    Frú forseti. Ég vil undirstrika það sem hefur komið fram reyndar hér áður í þessari umræðu að þetta er aðeins toppurinn á ísjakanum, þetta útboð sem er að fara fram núna. Það er starfandi í öllum ráðuneytunum mikil nefnd spekinga, aðstoðarmanna ráðherra sem eru að finna út hagræðingaráform og það fyrsta sem þeim kemur í hug er að bjóða út ræstingar. Þess vegna er búið að segja upp í dómhúsinu og út um allan bæ. Það er verið að skipta hér höfuðborgarsvæðinu í stórhertogadæmi í ræstingu og það endar örugglega með því að hér verða um það bil 150 konur sem bætast á atvinnuleysisskrá. Það er verið að brjóta upp það vinnuumhverfi sem verið hefur en það er áreiðanlega hægt að finna einhverjar betri leiðir til sparnaðar. Ég trúi því ekki að þarna sé sá akkilesarhæll sem ríkisfjármálin standa og falla með. Þetta er bara einn anginn af þessu einkavæðingaræði sem nú er kallað einkavinavæðing og hefur fengið nýtt nafn og nýtt innihald. Ég hef ekki trú á að þetta verði sú lausn sem menn ætla og það er áreiðanlega hægt að finna leiðir til sparnaðar í samvinnu við það fólk sem vinnur að þessum málum núna.