Ríkisreikningur 1991

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 18:01:53 (7029)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (frh.) :
    Hæstv. forseti. Þar var komið máli mínu að ég hafði gert grein fyrir mismunandi skoðunum á færslu í ríkisreikning vegna afskrifta eða tapaðra útlána Framkvæmdasjóðs sem fært var á árið 1991 en um það eru skiptar skoðanir. Ég vil einungis til viðbótar því sem ég hef þegar sagt óska eftir því að hv. fjárln.

kanni þetta mál rækilega og kalli á sinn fund annars vegar fulltrúa Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmenn ríkisreiknings ásamt fulltrúum fjmrn. og öðrum þeim sem geta lagt nefndinni lið og vonast til að sú skoðun sem þar fer fram verði fagleg því það skiptir að sjálfsögðu miklu máli að niðurstaðan sé með þeim hætti að flestir geti vel við unað.
    Ég vil jafnframt taka það fram að í þessu máli, eins og öðrum málum sem fjalla um svipuð efni, gildir að segja frá því að starfandi er svokölluð ríkisreikningsnefnd sem hefur starfað mjög ötullega að undanförnu og ég á von á því að niðurstöður nefndarinnar liggi fyrir áður en þing kemur saman næsta haust. Það þýðir ekki að endanlega verði komið í veg fyrir að uppi verði mismunandi viðhorf um færslu, hvorki í fjáraukalögum né ríkisreikningi, en það getur þó orðið til þess að skýra málið og sætta menn við tiltekna niðurstöðu.
    Ég vil benda á að mér sýnist að í athugasemdum með lagafrv. sé prentvilla á bls. 10 í töflu þar sem talað er um greiðsluuppgjör 1992. Það á væntanlega að vera greiðsluuppgjör vegna ársins 1991.
    Um þessi mál, sem ég hef rætt hér um, er síðan fjallað mjög ítarlega á bls. 11 og áfram í athugasemdum með lagafrv.
    Þetta frv. er samkvæmt venju í þremur greinum. Í 1. gr. eru sýndar niðurstöður rekstrar- og efnahagsreiknings A-hluta ríkissjóðs. Í 2. gr. eru með sama hætti niðurstöðutölur rekstrar- og efnahagsreiknings B-hluta stofnana ríkisins og 3. gr. felur svo í sér gildistökuákvæði laganna, allt samkvæmt venju.
    Niðurstöður ríkisreiknings sýna að rekstrarafkoma A-hluta ríkissjóðs á árinu 1991 er neikvæð um 13 milljarða og 450 millj. kr. en var árið á undan neikvæð um 11,3 milljarða. Heildartekjur námu tæpum 106 milljörðum kr. og hækka frá fyrra ári um liðlega 11 milljarða eða tæplega 12%, nánar tiltekið 11,9%. Heildargjöld ríkissjóðs urðu u.þ.b. 119,5 milljarðar á árinu en voru árið áður rúmlega 106 milljarðar kr. Hækkun á milli ára er því 13,4 milljarðar eða 12,6%. Meðalhækkun verðlags milli áranna 1990 og 1991 á mælikvarða landsframleiðslu er 7,4% þannig að raunhækkun gjalda nemur tæplega 5%.
    Ef niðurstöður ríkisreiknings eru bornar saman við uppgjör ríkissjóðs á greiðslum ársins þá er afkoman ívið betri samkvæmt greiðsluuppgjöri, eða sem nemur rúmlega 900 millj. kr. Tekjur eru alls 6 milljörðum kr. hærri í reikningsuppgjöri sem skýrist af því að álagðar tekjur ársins verða hærri en það sem innheimtist á árinu. Af þeirri fjárhæð eru 1,7 milljarðar kr. hækkun beinna skatta og 1,6 milljarðar kr. vegna óbeinna skatta. Þá eru áfallnar en óinnheimtar vaxtatekjur 1,7 milljarðar kr.
    Frávik frá gjöldum eru 6,9 milljarðar kr. Ef taldir eru upp helstu liðir er í fyrsta lagi um að ræða yfirteknar skuldbindingar vegna Framkvæmdasjóðs Íslands að fjárhæð rúmlega 1,6 milljarðar kr. og vegna Byggðastofnunar 1,2 milljarðar kr.
    Í öðru lagi voru gefin út skuldabréf að fjárhæð 1,2 milljarðar kr. til kaupa á fullvirðisrétti og greiðslu förgunarbóta vegna nýs búvörusamnings.
    Í þriðja lagi eru gjaldfærðar skuldbindingar vegna lífeyrissjóða, 1,8 milljarðar kr. umfram greiðslur. Loks eru áfallnir vextir umfram greidda 2,5 milljarðar kr. Á móti þessu vegur að í greiðsluuppgjöri eru færðar til gjalda greiðslur sem koma til lækkunar skuldbindingum fyrri ára. Er hér einkum um að ræða ýmsar greiðslur vegna landbúnaðarmála. Þessi lækkun skýrist að sjálfsögðu af því að í fyrri reikningum höfðu þær skuldbindingar þegar verið færðar.
    Varðandi frekari greinargerð um niðurstöðu og framvindu ríkisfjármála á árinu vísast til endurskoðunarskýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings og Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning 1991 og skýrslu fjmrh. frá því í febrúar á síðasta ári um ríkisfjármál 1991.
    Hæstv. forseti. Ég vil að lokum leggja til að að lokinni 1. umr. verði frv. þessu vísað til fjárln. og þar fari fram frekari umræða og skoðun og sérstaklega á því efni sem nokkur ágreiningur er um.
    Að lokinni umræðunni óska ég enn fremur eftir því að málinu verði vísað til 2. umr.