Ríkisreikningur 1991

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 18:09:13 (7030)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hæstv. fjmrh. að sá skoðanaágreiningur sem er um meðferð Framkvæmdasjóðs í þessu máli er ekki sömu ættar og sá ágreiningur sem verið hefur milli Ríkisendurskoðunar og fjmrn. um nokkuð langt árabil. Það sést kannski m.a. á því að sá sem hér stendur hallast meira að sjónarmiðum Ríkisendurskoðunar í þessu máli en sjónarmiðum fjmrn. en hefur þó stutt dyggilega sjónarmið fjmrn. í hinum deilumálunum um langt árabil
    Ástæðan fyrir því hins vegar að ég kvaddi mér hljóðs til andsvara er að minna hæstv. fjmrh. á að það er ekki rétt hjá honum að það hafi legið augljóslega fyrir að það væri þetta tap á Framkvæmdasjóði og þess vegna væri bara spurning um að bóka það. Hvað hafði gerst í þessu máli? Það sem gerðist var að í mars 1990 undirritaði ríkisendurskoðandi, Halldór Sigurðsson, ársreikninga Framkvæmdasjóðs á þann veg að sjóðurinn stæði bara vel. Síðan nokkrum mánuðum seinna, í ágústmánuði sama ár, kemur skýrsla sem beðið var um af hálfu nýrrar ríkisstjórnar þar sem Ríkisendurskoðun kemst að annarri niðurstöðu. Segjum nú svo að ekki hefði komið til ný ríkisstjórn, sem bað um nýja skýrslu um Framkvæmdasjóð, og fjmrh. hefði bara tekið gilda áritun ríkisendurskoðanda á ársreikningana fyrir 1990, sem gerð var í mars 1991, þar sem ríkisendurskoðandi sá ekkert athugavert og taldi stöðuna það góða að ekki þyrfti að gera neitt í málefnum sjóðsins. Þá var sá ráðherra og sú ríkisstjórn í góðri trú og gat fyllilega með réttu setið út árið 1991 án þess að aðhafast nokkuð í málefnum Framkvæmdasjóðs. Þess vegna er það ekki fyrr en tekin er sú formlega ákvörðun af þinginu að viðurkenna þessa nýju stöðu sem málið kemur reikningslega til færslu að mínum dómi.
    Þetta vildi ég rifja upp til þess að menn vissu af þessari atburðarás en árétta svo að ég er alveg sammála fjmrh. um að þetta mál ber auðvitað að skoða vandlega í nefnd en ekki ræða ítarlega í þingsölum.