Ríkisreikningur 1991

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 18:16:33 (7033)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ef það er rétt hjá hv. þm. að það hafi legið fyrir í ágúst 1991 að Ríkisendurskoðun hafi sagt að þessa fjármuni vantaði í sjóðinn þá er það röksemd fyrir því að þegar á því ári hafi átt að stilla málinu upp í ríkisreikningi með þeim hætti sem ríkisstjórnin gerir samkvæmt góðri reikningsskilavenju, enda ber ríkissjóður ábyrgð samkvæmt almennum lögum á Framkvæmdasjóðnum. Sjóðurinn var gerður upp fyrir árið 1991 með þessari færslu þannig að til þess að þar stemmi saman hlýtur auðvitað að eiga að fara þannig með málið.
    Um það snýst hins vegar deilumál okkar og yfirskoðunarmanna ekki. Þetta er alveg nýtt sjónarmið á málinu og er vissulega gaman að menn skuli fletta upp nýjum sjónarmiðum. Deilan snýst um það hvort bíða eigi eftir því að Alþingi samþykki greiðsluheimildina, sem gerðist eftir áramótin, eða hvort það eigi að láta nægja það álit ríkisstjórnarinnar sem kemur fram í frv. sem lá fyrir fyrir jól því þá var öllum ljóst að þetta tap hafði orðið. Um það snýst þessi deila í örfáum orðum.