Ríkisreikningur 1991

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 18:56:35 (7035)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég ætla hvorki að ræða um innheimtuárangur né heldur gott starf yfirskoðunarmanna heldur einungis um eitt efnisatriði og það varðar þá færslu sem hér hefur nokkuð verið gerð að umtalsefni. Ég vil taka fram að það liggur fyrir álit vinnuhóps II sem Ríkisendurskoðun vitnaði til og var birt í maí 1992 og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Hvað snertir ábyrgðirnar sem slíkar álítur vinnuhópurinn eðlilegt að gerð sé grein fyrir þeim í heild sinni í ríkisreikningi líkt og reglan er í reikningi peningastofnana. Þetta gildir jafnt um allar tegundir ríkisábyrgða. Enn fremur er sjálfgefið að gjaldfæra í ríkisreikningi ábyrgðir sem falla á ríkissjóð. Að mati hópsins er skynsamlegt að færa greiðslur af þessu tagi þegar þær eiga sér stað nema um sé að ræða bersýnilega tapaðar ábyrgðir sem ættu að færast strax og fullvissa er fengin um tapið.``
    Þetta lá fyrir. Ríkisendurskoðun hafði skilað inn áliti í ágúst, ríkisstjórnin hafði tekið ákvörðun um að leggja starfsemi sjóðsins niður, sjóðurinn átti engan möguleika á að ná þessu upp. Þess vegna er þetta öðruvísi mál en atvinnutryggingardeildin, Orkusjóður og fleiri því að starfsemin hafi verið lögð niður og engin leið fyrir sjóðinn að ná þessum peningum upp aftur. Þetta er það sem gerir muninn og ég tek fram að hér er ekki um það að ræða að greidd séu framlög úr A-hluta ríkissjóðs heldur eru þetta yfirteknar, tilteknar skuldir sjóðsins og þær færðar upp í reikningum A-hluta ríkissjóðs og á því er nokkur munur.
    Ég ætla ekki að ræða þetta frekar að sinni en þetta skýrir kannski í hnotskurn að það er ágreiningur um þetta mál. Ég óska eftir því að þetta mál verði til sérstakrar umfjöllunar í hv. fjárln. og þar fái öll sjónarmið að koma fram þannig að fjárln. geti dæmt um þetta. Að sjálfsögðu er það síðan Alþingis að taka ákvörðun að lokum.