Ríkisreikningur 1991

155. fundur
Miðvikudaginn 14. apríl 1993, kl. 19:01:07 (7037)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :

    Hæstv. forseti. Ég er að sjálfsögðu ósammála því sem kemur fram hjá hv. yfirskoðunarmanni og alþm. Ég bendi á að ástæðan fyrir því að þetta gerðist ekki á árinu 1991 var einmitt vegna þess að mér var það ekki í lófa lagið. Það kom nefnilega í ljós undir jól að það var samið um það að fresta afgreiðslu þessara mála yfir áramótin og þess vegna var útilokað að láta hina formlegu afgreiðslu Alþingis koma fyrr en þá. Það sem skiptir auðvitað máli er það sem ég las upp að það er álit starfshópsins í ríkisreikninganefndinni að þegar um töp og afskriftir er að ræða þá eigi að færa það strax samkvæmt góðri reikningsskilavenju og í þessu tilviki lá ákvörðun stjórnvalda fyrir, frv. hafði komið fram, Ríkisendurskoðun hafði kveðið upp dóm sinn þannig að allir vissu að þetta tap hafði átt sér stað á árinu 1991 og fyrr. Þar af leiðandi er okkar álit að það eigi að færa þetta á árið 1991 þó að ég viðurkenni vissulega að það er út af fyrir sig hægt að búa til þá reglu að færa slíkt aldrei fyrr en greiðsluheimildin sjálf er samþykkt á Alþingi. En í þessu tilviki er ekki um beinar greiðslur að ræða, heldur yfirtöku skuldar sem greiðist síðan af ríkissjóði hægt og rólega þegar fellur á ríkisábyrgðina eða þegar ríkissjóður tekur að sér að endurgreiða hin erlendu lán sjóðsins.
    Ég held, virðulegi forseti, að ekki sé ástæða til þess fyrir mig að deila frekar um þetta nú. Ég tek undir margt og flest af því sem hv. þm. sagði og ég held að margt af ábendingum hans og ábendingum yfirskoðunarmanna eigi við rök að styðjast. Ég tek undir það og vænti þess að í virðulegri fjárln. verði hægt að halda áfram faglegri umfjöllun um málið og ég vil að síðustu leggja áherslu á það að ég tel að umræðan hér hafi fyrst og fremst verið fagleg og ég fagna því.