Alþjóðlegur sjávarútvegsskóli

156. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 10:49:32 (7047)

     Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Mörgum af helstu háskólaþjóðum heimsins hefur tekist að nýta skólastarf til að styðja með drjúgum hætti við ýmsa þætti í sínum útflutningi. Þetta gera þær með því að örva erlenda námsmenn til að ljúka menntun sinni við háskóla viðkomandi landa og þeir hverfa síðan aftur til síns heima og setjast þar í stjórnunarstöður. Ítrekaðar kannanir hafa síðan sýnt að þegar þetta sama fólk þarf að taka ákvarðanir um fjárfestingar í sínu heimalandi þar sem þarf að kaupa verkefni eða tæki erlendis frá, þá leitar það langoftast til síns gamla námslands. Þannig hafa erlendir námsmenn reynst gömlu iðnaðarþjóðunum drjúg fjárfesting. Þetta nefni ég hér til þess að undirstrika hversu mikla áherslu erlendar iðnaðarþjóðir leggja á að skapa tengsl við tilvonandi forustumenn með því að ná þeim til náms við sína háskóla. Þær gera sér grein fyrir því að það skilar sér aftur með margföldum hætti.
    Það má minna á það, virðulegi forseti, að þegar Bretar stórhækkuðu sín skólagjöld í byrjun síðasta áratugar, þá leiddi það til mikilla mótmæla frá samtökum breskra iðnrekenda sem töldu að þegar fram í sækti mundi þetta hafa óheillavænlegar afleiðingar fyrir breskan iðnað og í kjölfarið var komið á fót styrkjum til góðra, erlendra nemenda.
    Við Íslendingar höfum auðvitað takmarkaða möguleika á þessum sviðum. Við erum fámennir og búum við tiltölulega einhæft atvinnulíf. Við gegnum eigi að síður forustuhlutverki á nokkrum sviðum atvinnutengdra vísinda. Ég nefni jarðhita og sjávarútveg. Við höfum hlotið alþjóðlega viðurkenningu á sviði jarðhitarannsókna með því að hér er staðsettur jarðhitaháskóli Sameinuðu þjóðanna. Við njótum líka alþjóðlegrar viðurkenningar fyrir forustuhlutverk okkar á sviði sjávarútvegs.
    Í svari utanrrh. við skriflegri fsp. minni til hans um hversu margar óskir hafa borist á síðustu árum til Íslendinga um aðstoð við uppbyggingu sjávarútvegs annarra þjóða kemur fram að þeim hefur fjölgað verulega. Á síðustu þremur árum hafa stjórnvöld fjölmargra ríkja komið á framfæri óskum í þessa veru. Þar má nefna Namibíu, Grænhöfðaeyjar, Malaví, Angólu, Tansaníu, Mósambík, Kenýa, Túnis, Vestur-Sahara, Haítí, Srí Lanka, Seychelleseyjar, Eystrasaltsríkin öll, Kamtsjatka, Chile, Íran, Oman og Suður-Afríku. Öll þessi ríki eiga það sameiginlegt að sjávarútvegur er þar enn þá í frumbernsku og nær öll uppbygging í greininni og þjálfan starfsmanna er þar skammt á veg komin.
    Hérna, virðulegi forseti, tel ég að mikil tækifæri liggi fyrir Íslendingum. Takist okkur að tengjast uppbyggingu greinarinnar í þessum löndum, þá er ekkert efamál að það mun skila sér margfalt í kaupum á skipum, vélbúnaði og hvers konar þekkingu héðan til þessara landa. Besta leiðin til þess er að mínu viti að setja hérlendis á stofn alþjóðlegan sjávarútvegsskóla þar sem hægt er að þjálfa og mennta efnilega vísindamenn frá þjóðum þar sem menntun í sjávarútvegsfræðum er komin skammt á veg. Í því sambandi má minna á að jarðhitaháskólinn er einmitt byggður upp á stuttum en mjög hagnýtum námskeiðum þar sem sérhver nemandi er undir strangri handleiðslu þjálfaðra vísindasmanna þannig að námið sjálft er ekki mjög langt og því ekki mjög dýrt. Kostnaðinn mætti fjármagna með þrennum hætti:
    1. Þróunaraðstoð okkar Íslendinga gæti farið til að kosta námsdvöl fólks við slíkan skóla hér á landi.
    2. Sumar þjóðir gætu væntanlega borgað sjálfar kostnaðinn af námsdvölinni. Ég nefni þar sérstaklega þjóðir við Indlandshaf og Persaflóa.
    3. Fá þyrfti Sameinuðu þjóðirnar inn í slíkan skóla þannig að hann væri að einhverju leyti fjármagnaður með framlögum frá þeim.
    Ég tel, virðulegi forseti, að hér sé um mjög brýnt mál að ræða og hef þess vegna innt hæstv. forsrh. eftir afstöðu ríkisstjórnarinnar til stofnunar slíks alþjóðlegs sjávarútvegsskóla hér á landi.