Heimili fyrir alfatlaða

156. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 11:06:02 (7053)


     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessar upplýsingar sem voru mjög skýrar og ég skal hafa fulla samúð með honum í þessu máli þar sem varla er nú hægt að telja þessi hræðilegu mistök til hans synda. En það er auðvitað umhugsunarefni hver ber ábyrgð á öðru eins og þessu.
    Nú er mér ljóst að þetta söfnunarfé mun hafa verið afhent Reykjalundi og því hlýtur náttúrlega Reykjalundur að bera einhverja ábyrgð á byggingu þessa fáránlega húss og þar með auðvitað heilbr.- og trmrn. Það segir sig sjálft að þetta fólk þarfnast svo sannarlega skjóls. En að það skuli þurfa 77,9 millj. til þess að vista þetta fólk, --- hvers konar bruðl er þetta? 44 millj. þurfti að leggja til viðbótar 34 millj. sem söfnuðust úr Framkvæmdasjóði fatlaðra. Og maður hlýtur að spyrja: Stríðir það ekki á móti almennri skynsemi að þessir vesalings sjúklingar, sem margir hverjir vita lítið um það sem fram fer í kringum þá, skuli þurfa allt þetta fé til þess að unnt sé að veita þeim skjól?
    Nú veit ég líka að forráðamenn á Reykjalundi hafa auðvitað séð fáránleikann í þessu þegar upp er staðið og mér er kunnugt um að hugmyndir eru uppi núna, sem hafa verið sendar ráðuneytinu, um að setja í þetta hús fólk sem er búið að fá einhverja endurhæfingu og hefur tekið einhverri endurhæfingu og getur þá notið þess að vera í þessu húsi því ekkert vantar nú á að þetta sé fallegt og vel búið. En eftir stendur að óleystur er vandi þeirra sjúklinga og ég legg áherslu á það, hæstv. forseti, vandi þeirra sem söfnunin var byggð á, er óleystur. Og því hlýt ég að spyrja hæstv. ráðherra, --- ég skal ekki blanda mér í það hvaða sjúklingar verða settir þarna inn, en ég spyr þá: Hvernig á að leysa vanda þeirra sem söfnunin snerist um og hver er í raun og veru ábyrgur? Hver stóð fyrir því að í þetta fóru 80 millj.? ( Forseti: Ég verð að vekja athygli hv. þm. á að tími hans er liðinn.) Hæstv. forseti. Mér er það fullljóst.