Viðhaldsþörf ríkiseigna

156. fundur
Fimmtudaginn 15. apríl 1993, kl. 11:13:04 (7056)

     Fyrirspyrjandi (Sigríður A. Þórðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hefur ýmislegt verið rætt og ritað um íslenskan byggingariðnað. Sú umfjöllun hefur m.a. snúist um kostnað, hönnun, byggingaraðferðir, byggingarefni, vinnugæði og viðhald. Fram til þessa hefur okkur Íslendingum verið hugleiknara að byggja nýtt en huga að viðhaldi og endingu þess sem þegar er byggt. Það er e.t.v. skiljanlegt í ljósi þess að flest mannvirki hér á landi eru reist á þessari öld og stundum virðumst við í þeirri trú að nánast væri þeim ætlað að standa til eilífðar án mikillar umhirðu, en steypt hús eru ráðandi hér í byggingarháttum frá um 1930.
    Í seinni tíð hefur það orðið æ ljósara að þau byggingarefni og aðferðir sem nútímatækni hefur fært okkur eru ekki síður forgengileg en það sem fyrr tíðkaðist og nútímabyggingar þarf að vanda bæði í hönnun, efnisvali og byggingu ef þær eiga að endast og þá skiptir ekki síður máli að vel sé staðið að eðlilegu og nauðsynlegu viðhaldi. Peningum er kastað á glæ með því að láta byggingar grotna niður vegna ónógs viðhalds. Í þeim efnum eru opinberir aðilar ekki góð fyrirmynd og nægir í því sambandi að nefna Þjóðleikhúsið, Þjóðminjasafnið, Árnagarð og margar fleiri byggingar sem stórfé kostar að gera við svo að viðunandi sé. Það þarf að gera verulegt átak í að stórauka endingartíma viðhaldsaðgerða og finna endingarbetri viðgerðaraðferðir. Til þess þarf að auka rannsóknir og finna þær aðferðir sem henta best íslenskum aðstæðum en hingað til höfum við oft beitt ýmsum aðferðum sem reynst hafa vel erlendis en eiga miður við erfiða veðráttu og aðstæður á Íslandi.
    Á ráðstefnu sem nýlega var haldin á vegum framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar ríkisins kom fram að búast má við gífurlegu viðhaldi á mannvirkjum á Íslandi í náinni framtíð. Þar kom einnig fram að skýringa væri líklega að leita í rangri hönnun, röngu efnisvali, ónógum efnisgæðum, rangri meðferð efna á byggingarstað o.s.frv. Sem sagt, flestu sem úrskeiðis gat farið. Í lokaorðum Steindórs Guðmundssonar, forstöðumanns framkvæmdadeildarinnar, kom fram að á næstu tveimur áratugum gæti þessi viðhaldsbaggi náð óhugnanlegri stærðargráðu eða allt að 200 milljörðum kr. Töluverður hluti af þeim eignum sem um ræðir er í eigu ríkisins eða stofnana þess. Því beini ég eftirfarandi fsp. til fjmrh.:
  ,,1. Hefur verið gerð heildarúttekt á ástandi og viðhaldsþörf ríkiseigna? Hvaða fjármuni þarf ríkið að leggja til viðhalds ríkiseigna svo að ástand þeirra geti talist viðunandi?
    2. Hver er talin meðalending viðhaldsaðgerða? Eru áform um að reyna að tryggja að viðhaldsaðgerðir skili betri árangri en nú er?
    3. Mun ráðherra beita sér fyrir því að byggingariðnaðurinn verði aðstoðaður við að taka við auknum viðhaldsverkefnum og bæta gæði þjónustu sinnar á því sviði, t.d. með auknu fé til rannsókna, tilraunaverkefna o.fl.?``